Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:55:10 (11441)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:55]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Dagur er að kvöldi kominn og það fer að hilla undir lok þessa þingfundar á föstudegi fyrir hvítasunnu. Ég vil taka undir það hjá hv. þingmanni að umræðan hefur verið góð og málefnaleg og ýmislegt hefur komið fram. Fólk hefur lagt sig fram um að draga fram ýmsar hliðar á málinu. Þar á meðal hafa komið fram í máli þingmanna ýmsar hugmyndir eða vangaveltur um framhald málsins í þinginu.

Eins og hv. þingmaður kom inn á komu fram hugmyndir um sameiginlega fundi í fjárlaganefnd og í umhverfis- og samgöngunefnd um framhald málsins. Lagt hefur verið til að málið fari einfaldlega til umhverfis- og samgöngunefndar í umfjöllun um samgönguáætlun sem opinber framkvæmd. Það er ýmislegt um framhaldið að segja en ég vil spyrja hv. þingmann um eitt: Vegagerðin hefur varað við því, eins og ég kom að í upphafi þingfundar, að fara í tvenn göng samtímis. Ef réttast og skynsamlegast er að ráðast í ein göng, skýtur þá ekki skökku við að halda þessu máli til streitu? Allir viðurkenna að þetta eru ekki (Forseti hringir.) þau göng sem mest ríður á. Það eina sem mælir með þeim umfram göng eins og Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng eru vegtollarnir. Ef skynsamleg ákvörðun Alþingis er sú að ráðast í ein göng blasir þá ekki við að svokölluð lausn í málinu er að Vaðlaheiðargöng verða að bíða?