140. löggjafarþing — 107. fundur,  26. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[00:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Stefnan hefur verið sú að hafa bara ein göng í vinnslu í einu. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að eðlilegast sé að bæði Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng séu á undan Vaðlaheiðargöngum í forgangsröðun opinberra framkvæmda. Nú ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir að Vaðlaheiðargöng eru ekki framkvæmd sem hægt er að flokka sem einkaframkvæmd, þetta er í raun opinber framkvæmd vegna þess að ríkið er bæði ofan og neðan við borðið og allt í kringum það. Þá er að sjálfsögðu eðlilegast að þetta mál fari í samgönguáætlun og þar fari forgangsröðun fram.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það er algerlega óásættanlegt að ekki eigi að ráðast í gerð Dýrafjarðarganga fyrr en á seinni hluta samgönguáætlunar og tek undir spurningu hv. þingmanns, hvers eiga Vestfirðingar að gjalda, sérstaklega í ljósi þess að þar hefur verið fólksfækkun undanfarin ár. Þar var fólksfækkun allan góðæristímann og hefur verið frá hruni og til að mynda hefur fækkað gríðarlega í grunnskólanum á Ísafirði undanfarin tvö, þrjú ár, það skiptir tugum prósenta. Allir vita að það fer hver að verða síðastur á Vestfjörðum ef þar á að ráðast í framkvæmdir. Það eru allir sammála um að gríðarlega mikilvægt sé að tengja saman svæðið sem eina heild. Það fer kannski að koma að því að það væri ágætt að menn segðu það hreint út, ef ekki er vilji til að fara í stórframkvæmdir á Vestfjörðum.

Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er heppilegast að gera ein göng í einu, vera með eitt gengi (Forseti hringir.) í stað þess að fá hingað erlenda verktaka eins og mundi þurfa (Forseti hringir.) ef við réðumst í að gera tvenn göng í einu, eins og kom fram hjá hæstv. innanríkisráðherra í umræðum fyrr í dag