140. löggjafarþing — 107. fundur,  26. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[00:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta mikilvæg sjónarmið sem koma fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Nú er ég sem þingmaður og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd ekki með öllu sáttur við allt sem ég sé í samgönguáætlun, hvorki endilega alla þætti varðandi röð framkvæmda né þær fjárveitingar sem varið er til mismunandi málaflokka og þannig verður það seint. Hins vegar hef ég talið að við verðum að hafa einhvern grunn, einhverja aðferðafræði til að nálgast þessi viðfangsefni vegna þess að ef við ætlum bara að fara í togstreitu milli einstakra landshluta, kjördæma eða verkefna á grundvelli þess hvernig okkur gengur að mynda einhver bandalög í þinginu eða hvernig þrýstingur er búinn til varðandi einstök verkefni og þess háttar þá lendum við ítrekað í ógöngum.

Í langri sögu okkar á sviði samgöngumála hefur það oft og tíðum verið hnefarétturinn sem hefur ráðið úrslitum og baktjaldamakk í þinginu og annað. Um það eru dæmi frá öllum tímum og valdatíð allra mögulegra ríkisstjórna með alls konar pólitískar tilhneigingar. Þannig hefur þetta því miður verið oft og tíðum. Þess vegna hefur forgangsröðunin sem hefur birst í hinum raunverulegu framkvæmdum ekki alltaf verið svo fagleg heldur hafa einhver önnur sjónarmið búið að baki. En ég held að við verðum, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur lagt áherslu á, að temja okkur að vinna þessi mál út frá sæmilega almennum forsendum, hlutlægum forsendum. Vaðlaheiðargöng eru vissulega fín framkvæmd og góð (Forseti hringir.) og jákvæð fyrir ákveðið svæði á landinu en það verður samt sem áður að taka hana inn í heildarsamhengið og taka tillit til þess að þær forsendur sem lagt var upp með í upphafi virðast ekki standast.