140. löggjafarþing — 107. fundur,  26. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[00:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór yfir hvernig samgöngumálum hefur verið háttað í gegnum tíðina og að þau hafi oft og tíðum lent í ógöngum, menn tekist á um þau og stundum hafi hnefaréttur og baktjaldamakk ráðið því hvernig málum hefur verið háttað.

Eins og ég kom inn á áðan í ræðu minni er eðlilegt að ólík sjónarmið takist á og allir vilji fá bættar sínar samgöngur. Þess vegna er sú almenna umgjörð sem ríkir í kringum þetta, gerð samgönguáætlunar, svo mikilvæg. Þar förum við yfir þessi verkefni, vegum og metum kosti þeirra og galla. Síðan var ákveðið að taka eitt verkefni út fyrir og eins og ég rakti í minni ræðu áttu raunar fleiri samgöngumannvirki og samgönguframkvæmdir að fara út fyrir samgönguáætlun og vera fjármagnaðar af lífeyrissjóðunum. Þegar slitnar upp úr samningum við lífeyrissjóðina voru þau verkefni sem minnstar líkur voru taldar á að gætu staðið undir sér tekin út. Í raun hefði verið eðlilegast að þetta verkefni hefði bara farið inn í samgönguáætlun og unnið þar. Því miður var það ekki gert og ítrekað bent á það í umræðunum í dag.

Nú erum við komin á þann stað að þessi framkvæmd sem í orði er talin einkaframkvæmd er í raun opinber framkvæmd á borði. Á það hefur verið bent og úr því þurfum við að bæta. Þess vegna er eðlilegast að þetta mál fari inn til samgöngunefndar og til vinnslu við samgönguáætlun. (Forseti hringir.) Það hefur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagt áherslu á og það er það sem mér finnst sjálfsagt og rétt að gera.