Barnalög

Fimmtudaginn 31. maí 2012, kl. 16:14:30 (11663)


140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[16:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að byrja þessa stuttu ræðu mína á að lesa stutt brot upp úr bók sem kom út 1977 og heitir Páll Vilhjálmsson og er eftir Guðrúnu Helgadóttur.

„Palli gekk léttfættur upp stigann. Á annarri hæð var Steingrímur að fara inn til sín. Hann var í sjö ára bekk í sama skóla og Palli. Hann stóð þarna með strigaskóna í hendinni og hugsaði. Hann stóð oft þannig og horfði út í loftið. Þá var hann að hugsa. Hæ, sagði Palli. Já, sagði Steingrímur annars hugar. Í sama bili og Steingrímur opnaði dyrnar, kom mamma hans í gættina. Farðu í hvelli út í bakarí og kauptu eitt heilhveitibrauð og þrjá snúða, sagði hún höstug. Steingrímur horfði á hana. Heyrirðu ekki? sagði hún reiðilega. Fljótur. Þá þarf ég aftur að reima, sagði Steingrímur vesaldarlega. Eldfljótur, sagði konan og ýtti við Steingrími. Mundu að bakarinn vill hafa eitthvað fyrir sinn snúð, sagði Palli. Steingrímur hresstist. Hann settist við að reima. Palli horfði á konuna. Mér finnst þú ekki kurteis kona, sagði hann. Hva? Konan tók andköf. Hvað segirðu? Palli lagaði gleraugun. Mér finnst þú hvorki kurteis, stillt né prúð. Hvað mundir þú segja, ef Steingrímur kæmi heim og segði: Komdu með matinn. Í grænum hvelli. Vertu eldsnögg. Hvað heldurðu að þú mundir segja? spurði Palli. Konan starði á Palla og Steingrímur var hættur að reima. Palli andaði djúpt. Þú mundir sko segja, að Steini væri þrumudóni. Það er alltaf sami munnurinn á þér, sagði konan öskureið. Já, já, sagði Palli. Ég fæ hvergi nýjan. Konan skellti hurðinni.“

Þetta var skrifað árið 1977. Þá var ég fimm ára. Þegar ég var krakki var óhugsandi að nokkuð barn hefði komist upp með að tala svona við fullorðna, vegna þess að börn voru í öðrum flokki mannréttindalega séð en fullorðið fólk. Þegar ég var krakki voru fullorðnir alltaf afgreiddir fyrst í búðinni. Börn höfðu varla málfrelsi og þeim bar að þegja þegar fullorðna fólkið talaði.

Nú höfum við náttúrlega færst langt í aðra átt og réttindi barna hafa aukist mikið. Með þessu frumvarpi til breytinga á barnalögum göngum við enn lengra vegna þess að þau fjalla um réttindi barnsins, eins og segir í 1. gr. Það er réttur barnsins sem á að skipta mestu máli en ekki endilega réttindi foreldranna eða hvernig foreldrum finnst best eða hentugast að haga lífi sínu.

Ég er ekki í þessari nefnd en hef fylgst með málinu á hliðarlínunni og kynnt mér gögn þess og þegar það kom hérna fyrir þingið í fyrra. Mér sýnist vera margt mjög gott í því. Það gleður mig einstaklega mikið að sjá að dómaraheimildin er í breytingartillögum. Mig langar að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að fá dómaraheimildina inn og vil hvetja þingið til þess að hafa hugrekki til að stíga þetta skref.

Það hefur auðvitað verið varað við þessu og helstu rökin hafa verið að ef einhver grunur er um ofbeldi sé líklegra að það sé e.t.v. faðirinn, en við getum ekki metið líf fólk út frá tölfræði. Ef einhver grunur er um ofbeldi á heimili eða í fjölskyldu ber dómara að sjálfsögðu að rannsaka það til hlítar og komast að niðurstöðu sem er ásættanleg. Það er aldrei ásættanlegt að forræðisúrskurður falli á rangan hátt ef einhver grunur er um ofbeldi.

Páll Vilhjálmsson vinur minn stofnaði samtök krakka til að berjast fyrir réttindum krakka. Ég held að sú barátta hljóti að hafa skilað okkur einhverju.