Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Miðvikudaginn 13. júní 2012, kl. 15:10:51 (13455)


140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sérstaða Vaðlaheiðarganga er sú að heimamenn eru fúsir til að greiða veggjöld. Arðsemisáætlanir og útreikningar hafa gert ráð fyrir að svo væri í 25 ár. Þeir eru þess vegna tilbúnir að halda áfram að greiða í 40 ár ef þarf til að borga göngin upp. Það er hin mikilvæga forsenda þessa máls.

Á undirbúningsstigi hafa komið fram ýmsar gagnrýnisraddir. Yfir þær hefur verið farið mjög vandlega í fjárlaganefnd og vil ég sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem deildi með mér ýmsum efasemdum um þetta mál fyrir þá vandlegu vinnu sem þar fór fram. Ég er sannfærður eftir þá niðurstöðu að sú áhætta sem í málinu felst er ásættanleg. Hún er vissulega fyrir hendi en hún er ásættanleg í ljósi heildarhagsmuna.