Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Miðvikudaginn 13. júní 2012, kl. 15:21:50 (13464)


140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Engin haldbær eru rök fyrir því að setja þetta verkefni í frekara uppnám eða slá því á frest ef maður lítur aðeins yfir sögu þess.

Hinn 29. maí 2008 samþykkti Alþingi með 54 samhljóða atkvæðum, 9 þingmenn voru fjarverandi, að þetta verkefni færi inn í samgönguáætlun sem gilti til ársins 2010 með sérstakri fjármögnun. Alla tíð síðan hefur verið meiri hluti hér á Alþingi fyrir því að þoka þessu máli áfram.

Síðast má minna hv. þingmenn á samþykktir sem gerðar voru í fjáraukalögum 2011 og í fjárlögum 2012, um fjármögnun þessa verks og heimildir til fjármálaráðherra til að koma því áfram. Ég ítreka þá skoðun mína að mér finnst löngu tímabært að taka ákvörðun í þessu og bera upp þann vilja og halda í þá vegferð sem meiri hluti Alþingis hefur viljað fara í þessu máli og það er löngu tímabært að taka ákvörðun í þeim efnum í stað þess að skjóta okkur undan henni.