140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðu um IPA-styrkina svokölluðu. Er nú töluvert um liðið frá því við ræddum þetta ágæta mál í þingsal síðast. Ástæðan er að sjálfsögðu þekkt. Við höfum verið að semja um þinglok og hefur þetta mál verið hluti af þeim samningum. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig. Eins og alkunna er eru skiptar skoðanir um þetta mál og við sem höfum gagnrýnt það hvað harðast teljum að ekki sé verið að nota þessa styrki á eðlilegan hátt. Þeir eru ætlaðir til undirbúnings fyrir umsóknarríki þannig að þau verði tilbúin þegar og ef að aðild kemur, en hér virðist hins vegar um það að ræða að styrkina eigi að nota til að flýta aðlögun Íslands að sambandinu og síðan eigi þeir að renna í verkefni sem eru mjög góð verkefni, svo ég taki það fram, og áhugaverð, en tengjast á engan hátt aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Það er þannig, frú forseti, að við sem höfum kynnt okkur það sem Evrópusambandið meðal annars hefur gefið út varðandi þessa styrki sjáum vel að það sem við höfum haldið fram er rétt. Þessir styrkir eru ætlaðir til ákveðinna hluta en kannski ekki þeirra sem hér liggja fyrir. Hitt er líka að styrkjunum er ætlað að hjálpa ríkjum sem eru mjög aftarlega á merinni, ef má orða það þannig, í ákveðnum hlutum og það á svo sannarlega ekki við um Ísland.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að þessi vegferð öll er í raun farin í öfugri röð. Hér var sett í fjárlög útdeiling á fjármunum sem áttu að koma eftir á, þ.e. í gegnum þessa IPA-styrki. Síðan koma inn í þingið bæði frumvarp og þingsályktunartillaga um styrkina sem við höfum verið að takast á um. Ýmsir aðilar sóttu um þessa styrki í þeirri góðu trú að þetta væri allt saman slétt og fellt, en komust svo að því að ekki var búið að ganga frá öllum lausum endum.

Það er vert að halda því til haga líka, frú forseti, að það var 8. júlí 2011 sem þessir samningar voru undirritaðir og þar af leiðandi hljótum við að spyrja okkur að því hvers vegna í ósköpunum þetta var ekki klárað fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Er engin önnur skýring á því en ósætti innan stjórnarmeirihlutans.

Frú forseti. Ég reikna með að þessi hluti aðlögunar verði samþykktur á þingi í dag, væntanlega með atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna, eða í það minnsta flestra þingmanna þeirra. Við þurfum að hafa í huga hverjir það eru sem bera ábyrgð á þessu ferli. [Kliður í þingsal.]

Frú forseti. Evrópusambandið er í miklum vanda. Því tókst að bjarga sér fyrir horn núna í kosningunum sem eru afstaðnar í Grikklandi. Þar tókst að bjarga því sem bjargað varð í bili. Það er gott að afstýrt var væntanlegu hruni um einhvern tíma. Ég verð því miður að segja, frú forseti, að ég tel að þetta hafi verið gálgafrestur, ekki friður til langframa.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég er algjörlega á móti því að Ísland þiggi þessa styrki frá Evrópusambandinu. Ég tel að Ísland eigi að vera í vegferð sinni á eigin forsendum, ekki upp á einhverja bitlinga frá Evrópusambandinu sem rekur hér harðan og ósvífinn áróður að mínu viti sem er ekki sannur og réttur og hefur til þess tæki eins og Evrópustofu. Ég vil hvetja okkur öll til þess að varast slíkt.