140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þetta verður örstutt að ósk hæstv. forseta. Eins og kom fram í máli fyrri ræðumanns hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hafa margir efasemdir um þessa styrki, efasemdir um að rétt sé hjá Íslandi að taka við fjárstyrkjum til aðlögunar út frá siðferðilegum forsendum. Ég held að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð og kynnir sjálfa sig sem ríkisstjórn sem hugsi um þá sem minna mega sín, ætti núna að horfa til ástandsins í Suður-Evrópu og til að mynda Grikklands þar sem gríðarleg fátækt er. Við fáum nú fregnir af því dag hvern að einstaklingar þar eigi ekki fyrir lyfjum, eigi ekki fyrir mat og þeim fari fjölgandi sem búi á götunni. Ég held að það væri rétt hjá ríkisstjórninni að hafna þessum styrkjum og leggja til við Evrópusambandið að þeir verði veittir til Grikklands til stuðnings bágstöddum þar.

Ég hyggst flytja breytingartillögu við þessi mál þegar þau koma til afgreiðslu þar sem þeim tilmælum verður beint til ríkisstjórnarinnar að afþakka þessa styrki og því verði beint til Evrópusambandsins að þessir milljarðar verði veittir til stuðnings bágstöddum í Grikklandi. Þar með getur ríkisstjórnin hin norræna sem kennir sig við velferð raunverulega lagt sitt af mörkum við að hjálpa þeim sem minna mega sín.