Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 16:40:43 (421)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í miklar deilur, allra síst um fortíðina, við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, Við höfum áður átt ýmis samtöl um þau atriði. Það eru bara tvö atriði sem ég vildi koma á framfæri og gera athugasemdir við þannig að hinu rétta sé haldið til haga. Hv. fyrrverandi þm. Jón Kristjánsson var spurður að því í allsherjarnefnd í fyrravetur hvað helst hefði valdið vandræðum, var spurður um ástæður þess að ekki hefði náðst samstaða í stjórnarskrárnefnd sem starfaði 2005–2007. Eitt mál þvældist fyrir allan tímann, sagði hann, staða forseta Íslands, 26. gr. um málskot forseta. Samfylkingin vildi ekki sjá breytingar á því ákvæði, á því strandaði. Ég vil bara halda því til haga, þetta eru ekki mín orð, ég sat í þessari nefnd, en þetta upplýsti fyrrverandi formaður nefndarinnar þegar hann kom til allsherjarnefndar síðasta vetur.

Í annan stað vildi ég nefna það eiginlega fyrir þingtíðindin að fyrstu lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda voru samþykkt í desember 2006. Það voru gerðar ákveðnar breytingar á þeim eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum en stóra skrefið, meginbreytingin, varð í desember 2006 þó að þau tækju ekki gildi fyrr en eftir kosningarnar 2007.