Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 16:57:58 (431)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þingræði og ég upplifi tillögurnar sem heilsteypt plagg um það að efla þingræði. Forseti Íslands gerir tillögu að forsætisráðherra en velur hann ekki. Hv. þingmaður skaut þeirri sögn inn í einhvern veginn aukalega en forsetinn á ekki að velja forsætisráðherra. Núna getur hann valið hann og ég skil ekki alveg hvernig hægt er að halda því fram að sú breyting frá því að forsetinn hafi vald til að velja beinlínis forsætisráðherra meðal fólks á Íslandi til þess að hann hafi það ekki heldur þingið sé eitthvert ferli sem eflir völd forsetans sérstaklega. Ég fatta þetta ekki.

Forseti mun ekki heldur hafa heimild til að skipa dómara samkvæmt frumvarpinu. Sem þjóðkjörinn einstaklingur og þar af leiðandi ákveðið sameiningartákn og vonandi maður með skýra dómgreind á hann að skipa formann í tiltekinni nefnd sem skipar í viss embætti. Síðan er það þingið sem getur sett þeim ákvörðunum (Forseti hringir.) stólinn fyrir dyrnar þannig að þetta er alltaf styrking á þingræðinu.