Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 18:00:39 (443)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það er hægt að bera þær tillögur sem hér liggja fyrir saman við núgildandi stjórnarskrá. Það er líka hægt að taka einstakar tillögur sem þarna er að finna og bera saman við aðrar tillögur sem hafa komið fram eða munu koma fram um breytingar á tilteknum atriðum. Það er til töluvert efni um það eins og hv. þingmaður þekkir. Ástæða þess að ég óskaði eftir að veita andsvar var fyrst og fremst sú að undirstrika, af því að hv. þingmaður gerir mikið úr því að hér sé um að ræða fyrstu heildartillöguna að stjórnarskrá sem Íslendingar hafi samið, athugasemdir við það orðaval.

Við stöndum í því núna að fjalla um stjórnarskrá sem að stofni til er frá 1874 en hefur síðan tekið gríðarlegum breytingum í nokkrum megináföngum. Bara frá 1944 hefur meira en helmingi ákvæða núgildandi stjórnarskrár verið breytt. Sjö sinnum á lýðveldistímanum hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskipunarlögum samkvæmt þeim aðferðum sem þar er mælt fyrir um og mér telst svo til að 46 af núgildandi 79 greinum séu öðruvísi en var 1944.

Sumum kann að finnast þetta lítið, mér finnst þetta allmikið. Ef við erum síðan að velta fyrir okkur uppruna stjórnarskráa eiga þær auðvitað mjög margar sameiginlega rót í annars vegar þeirri bandarísku og hins vegar þeirri frönsku frá lokum 18. aldar og hafa tekið ýmsum breytingum í ýmsum ríkjum með mismunandi hætti. Okkar kemur til dæmis vissulega frá Danmörku. (Forseti hringir.) Þangað kom hún frá Belgíu og þangað frá Frakklandi þannig að maður getur spurt hvað sé íslenskt í þessu og hvað ekki. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst það ekki skipta máli.