Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 18:03:01 (444)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Það var heldur ekki eitthvert aðalatriði í mínu tali að stjórnarskráin væri séríslensk í efnisatriðum eða að hér væri einhvers konar íslenskur kúrs tekinn. Mér finnst einmitt mjög gott í rökstuðningi stjórnlagaráðs og algjörlega til eftirbreytni hversu oft er vísað í erlendar fyrirmyndir. Einn hluti rökstuðnings stjórnlagaráðs fyrir tillögunum er að mjög er vísað í stjórnarskrár á Norðurlöndum.

Ég sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem Íslendingar skrifa sjálfir í einhverju ferli sem við ákváðum hér frá grunni sína eigin stjórnarskrá. Ég get staðið við þá yfirlýsingu og mér finnst merkilegt að við skulum standa með svoleiðis rit í höndunum. Hv. þingmanni er fullfrjálst að finnast það ekkert merkilegt og vísa til þess að við höfum með ýmsum breytingum haft áhrif á núgildandi stjórnarskrá. Ein merkilegasta breytingin, að talið hefur verið á síðustu árum, er sú á mannréttindakaflanum. Ég fór einmitt yfir það í ræðu minni að fyrir fram hefðu menn talið að þeim kafla yrði lítið breytt vegna þess að það væri til þess að gera nýbúið að breyta honum. Það er einmitt ein dásamleg birtingarmynd þess að við skyldum núna í fyrsta skipti ákveða að setjast niður og skrifa næstum því alveg frá grunni nýja stjórnarskrá, já, bara frá grunni, að við komumst að því í þessu ferli að mannréttindakaflinn sem við þó höfðum endurbætt fyrir 10 eða 15 árum var bara alls ekki nógu góður.