Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 18:37:52 (450)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:37]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Því að vera borgari fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Það er skylda allra Íslendinga að láta sig þróun þjóðfélagsins varða, vera ekki bara að græða á daginn og grilla á kvöldin. En þá þarf líka að vera til öflugri og betri farvegur til inngrips en að vera með hávaða fyrir utan þinghúsið, kasta jafnvel matvælum í húsið eða kveikja í Óslóarjólatrénu. Það er kannski dæmigert að viðbrögðin við þessu hafa einkum verið þau að girða Alþingishúsið af við sérstök tækifæri og taka Óslóarjólatréð niður fyrr þannig að það verði ekki eldi að bráð. Æskilegri viðbrögð hefðu verið að hlusta á fólkið og búa til farveg þannig að fólk geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál þegar þurfa þykir eða til þess að rjúfa þing.

Eitt hefur þó verið gert og það var að boða til stjórnlagaþings sem breyttist svo í stjórnlagaráð, og það var gott. Stjórnlagaráð sannaði fyrir okkur að það er til önnur leið, leið lýðræðis, leið samræðu og leið samstöðu, leið upp úr skotgröfunum sem hafa verið grafnar hér á Alþingi. Leið fram hjá þeirri einstefnulegu umræðuhefð sem hefur því miður þróast í samfélaginu okkar og er ömurleg, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Leið til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu með samræðu, með því að hlusta og með því að mætast á miðri leið. Að því leyti hefur stjórnlagaráðið verið okkar sómi, sverð og skjöldur. Það hefur verið til fyrirmyndar í störfum sínum og samstöðu og afurðin sem við ræðum nú í skýrsluformi getur verið, ef þjóðin kýs, leiðarvísir að nýju og lýðræðislegra samfélagi.

Forseti. Mér þykir stjórnlagaráð hafa skilað gríðarlega góðu verki. En frumvarp stjórnlagaráðs er ekkert endilega nákvæmlega eins og ég hefði óskað mér, hreint ekki. Ég hefði örugglega haft sumar greinarnar allt öðruvísi og ég verð að viðurkenna að ég hefði hreinlega ekki haft hugmyndaflug til að setja sumt þarna inn, sem ég gleðst yfir nú. En allir mikilvægustu þættirnir, allt sem mér hefði þótt mikilvægast að væri í stjórnarskrá, er þarna. Þar vil ég sérstaklega nefna aukið lýðræði, jafnan atkvæðisrétt allra landsmanna, persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur, aukin mannréttindi, sjálfbæra þróun og svo ótal margt annað sem ég gæti tínt til.

Verði þessi nýja stjórnarskrá að veruleika fær fólkið í landinu fleiri tækifæri og möguleika til áhrifa en að blogga og kasta eggjum. Ég held að það geti aðeins orðið til góðs og ég tel reyndar að flest sé bæði betra og áhrifaríkara en eggjakast og það á bæði við um þann sem kastar egginu og þann eða það sem fær það í sig.

Ég hef haldið því fram að núgildandi stjórnarskrá sé samin fyrir 19. aldar Dani. Vissulega hefur hún verið aðlöguð en þó til bráðabirgða, að lýðveldinu Íslandi og búið að bæta inn kafla um mannréttindi en grunnurinn er ekki okkar. Við höfum aldrei áður sest niður og ákveðið hvernig við viljum að grunnstoðir samfélagsins verði.

Árið 1874 var Ísland nýlenda. Konur höfðu ekki kosningarrétt og varla karlar heldur því að þeir þurftu að hafa náð 25 ára aldri og vera eignamenn, borga 4 krónur eða meira í útsvar og vera ekki öðrum háðir sem hjú. Ef ég man rétt höfðu aðeins um 6% Íslendinga kosningarrétt árið 1874 þegar kóngurinn í Danmörku, sem þá var líka kóngurinn okkar, gaf okkur stjórnarskrá sem eins konar dúsu í þúsund ára afmælisgjöf.

Forseti. Mér finnst að við Íslendingar höfum oft verið í sporum barns. Lýðræðið er ungt hjá okkur og oft brothætt. Mér finnst við oft vilja fá hlutina tilbúna upp í hendurnar eins og við fengum stjórnarskrána fyrst árið 1874, sem þá var nánast afrit af þeirri dönsku. Danir eru löngu búnir að breyta sinni stjórnarskrá. Af hverju vilja þá einhver öfl hér á landi endilega halda í okkar gömlu stjórnarskrá í eins upprunalegu formi og hægt er? Er það kannski einmitt vegna þess að hún er svo ófullkomin? Er það vegna þess að hún er ekki mjög góð lýsing á stjórnskipan Íslands og þess vegna hafa menn getað valsað um með málefni ríkisins eins og hvert annað rassvasabókhald, eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis greinir svo vel og ítarlega frá?

Forseti. Mér finnst að í tillögum stjórnlagaráðs séu gerðar auknar kröfur til þjóðarinnar, kröfur um að stíga skref til aukins þroska. Hér er t.d. lagt til að við hættum að öskra hvert á annað, hættum að kasta eggjum í þinghúsið, hættum að ganga um landið okkar eins og enginn sé morgundagurinn. Frumvarpið gerir nefnilega kröfu til borgaranna um að þeir kynni sér málin, ræði saman og taki sig saman um að leggja fram þingmál eða krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Það krefst nefnilega samræðu en ekki sundurlyndis. Líka er gerð krafa um að við virðum og verndum íslenska náttúru og að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Það finnst mér ekki bara skref í rétta átt heldur algjörlega nauðsynlegt.

Í lokin vil ég taka undir með mörgum sem hafa talað hér fyrr í dag og ítreka mikilvægi aðkomu þjóðarinnar að stjórnarskránni. Ég tel að það sé langbest að spyrja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þá gerum við líka þá kröfu til fólks að það kynni sér málin og myndi sér skoðun.