Viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 20:07:07 (1971)

140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[20:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Tillagan felur í sér að Ísland viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Ég vil segja það strax í upphafi að það er mér sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til þess í dag að mæla fyrir þessu nefndaráliti og þoka þessu baráttumáli þannig áleiðis. Ég vil líka nota tækifærið og þakka hæstv. utanríkisráðherra, sem því miður er fjarstaddur þessa umræðu vegna skyldustarfa erlendis, fyrir að hafa lagt þetta mál fram af hálfu ríkisstjórnarinnar til umfjöllunar á Alþingi.

Alþingi hefur um langt árabil stutt sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki Palestínumanna, lagt áherslu á friðsamlega lausn deilumála Palestínumanna og Ísraels og talið brýnt að alþjóðasamfélagið knýi fram samkomulag deiluaðila. Það er rétt í þessu efni að rifja það upp að Alþingi hefur samþykkt sérstakar ályktanir hér að lútandi, m.a. ályktun nr. 19/111 um deilur Palestínumanna og Ísraels frá 18. maí 1989. Það var þingsályktunartillaga sem lögð var fram af utanríkismálanefnd og fól í sér að viðurkenna bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Mér finnst ástæða til að undirstrika það sérstaklega að árið 1989 samþykkti Alþingi ályktun að frumkvæði utanríkismálanefndar að viðurkenna bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar.

Á ný samþykkti Alþingi ályktun 30. apríl 2002 sem einnig var lögð fram af utanríkismálanefnd þar sem þess var krafist að hafnar yrðu friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra.

Málefni Palestínu hafa mörgum sinnum verið á dagskrá núverandi utanríkismálanefndar á síðustu mánuðum, þar af á fimm fundum með utanríkisráðherra. Nefndin hvatti utanríkisráðherra sérstaklega til að fara til Gaza, Vesturbakkans og Austur-Jerúsalem til að kynna sér aðstæður á heimasvæðum Palestínumanna og stöðu deilunnar. Gaf ráðherra nefndinni munnlega skýrslu í ágúst 2011 og meiri hlutinn í utanríkismálanefnd sem stendur að því nefndaráliti sem ég geri nú grein fyrir leggur áherslu á sögulegt samhengi umfjöllunar Alþingis um deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs og rétt Palestínumanna til eigin ríkis þegar við fjöllum um þetta mál hér og nú.

Það er skoðun okkar sem skipum þennan meiri hluta að tillagan sem nefndin hefur haft til umfjöllunar og er til umræðu nú í kvöld sé rökrétt framhald fyrri ályktana Alþingis og í raun eðlilegur áfangi í pólitískri þróun málsins.

Það er líka sjónarmið okkar, og við styðjum þar með þau sjónarmið sem koma fram í greinargerð með þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra, að krafa Palestínumanna um að fá að njóta sjálfsákvörðunarréttar í eigin ríki verði heldur ekki aðskilin frá þeirri lýðræðisþróun sem farið hefur um þetta svæði að undanförnu, þótt vissulega sé enn ekki séð fyrir endann á því ferli.

Ólögmætt hernám Vesturbakkans, Gaza og Austur-Jerúsalem hefur staðið yfir frá árinu 1967, eða í 44 ár. Í seinni tíð hafa háir múrar verið reistir sem skipta Palestínu upp í marga hluta. Ísrael heldur áfram landtökum, með sístækkandi byggðum, svo sem á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Þessi ólögmæta landtaka Ísraelsmanna er meðal þess sem hefur spillt fyrir friðarviðræðum. Palestínumenn hafa um árabil búið við mannréttindabrot sem ganga gegn ákvæðum þjóðaréttar, svo sem mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, fjórða Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum og ályktana Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil hér einnig nefna að eftir að aðild Palestínu að UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, var samþykkt brugðust ísraelsk stjórnvöld við með því annars vegar að frysta skattgreiðslur sem höfðu verið innheimtar fyrir Palestínu og hins vegar með því að tilkynna um tvö þúsund nýjar landtökubyggðir og að hraða byggingu þeirra. Mannréttindabrot á hernumdu svæðunum eru sérstakt áhyggjuefni og mikilvægt að nýta hvert tækifæri til að hvetja alla deiluaðila til að láta þegar í stað af öllum ofbeldisverkum og til að virða mannréttindi og mannúðarlög.

Árásum Hamas frá Gaza-svæðinu á byggðir Ísraelsmanna verður að linna. Þá þarf að leiða innri deilumál til lykta. Við þekkjum það að þar eru erfið mál sem lengi hafa verið uppi á borðum og sem við, sem höfum fylgst með málum utan frá, áttum okkur kannski ekki á í dag hvernig á að leiða til lykta. Engu að síður er það þannig að það er forsenda pólitískrar samstöðu Palestínumanna og í raun forgangsmál að fylkingar Palestínumanna — og hér vísa ég til Hamas og Fatah — starfi saman.

Meiri hlutinn telur einnig ástæðu til að árétta að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1974. Frelsissamtök Palestínumanna og heimastjórn Palestínu (PNA) hafa gefið vopnaða baráttu upp á bátinn, viðurkennt Ísraelsríki og fallist á landamærin frá því fyrir sex daga stríðið 1967 sem framtíðarlandamæri. Frá árinu 1988, þegar PLO gaf út yfirlýsingu um stofnun Palestínuríkis og ósk um friðarumleitanir sem mundu byggjast á tveggja ríkja lausn, hafa 132 ríki viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Þar af eru átta aðildarríki Evrópusambandsins og sjö aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

Meiri hlutinn bendir á að árið 1947 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sögulega ályktun um að skipta skyldi Palestínu í tvö sérstök og sjálfstæð ríki. Þannig var það þegar árið 1947, raunar hinn 29. nóvember það ár, sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna komst að þessari niðurstöðu og lagði þannig í raun og veru línu um það að hér ættu að verða tvö ríki, tveggja ríkja lausnin ætti að vera framtíðarlausn.

Sú niðurstaða byggðist á skoðun og niðurstöðu meiri hluta sérstakrar nefndar allsherjarþingsins um skoðun Palestínumálsins undir formennsku Thors Thors, sendiherra og fyrsta fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Þótt nærri 64 ár séu liðin frá samþykkt ályktunarinnar hefur hún ekki komist að fullu til framkvæmdar eins og kunnugt er.

Meiri hlutinn telur skýrt að Palestína uppfyllir skilyrði til að geta talist fullgildur aðili að þjóðarétti. Almennt er litið svo á að ríki þurfi landsvæði, íbúa, ríkisstjórn sem fari raunverulega með stjórn á viðkomandi landsvæði og sjálfstæði til að hafa samskipti við önnur ríki. Í nefndaráliti meiri hlutans eru þessi atriði reifuð nánar og rökstudd og ætla ég ekki að fara frekar í það í þessari framsöguræðu en vísa í meirihlutaálitið þar um.

Meiri hlutinn leggur líka áherslu á það að uppbygging hefur gengið vel í Palestínu. Byggðar hafa verið upp þær stofnanir, innviðir og hagkerfi sem þarf fyrir ríki. Nýlegar úttektir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans hafa leitt til yfirlýsinga allra þessara stofnana um að palestínska heimastjórnin sé fyllilega fær um að sinna ríkisrekstri. Þá ályktaði alþjóðleg samráðsnefnd um uppbyggingu Palestínu undir forsæti Noregs á fundi sínum 19. september 2011 að Palestínumenn hafi náð ótvíræðum árangri á sviði efnahagsuppbyggingar á undanförnum árum. Með nýlegum aðgerðum Ísraels er reynt að bregða fæti fyrir starfsemi opinberra stofnana í Palestínu með frystingu skattgreiðslna sem hafa verið innheimtar fyrir Palestínu. Meiri hlutinn gagnrýnir þetta framferði harðlega.

Í umfjöllun nefndarinnar um þingsályktunartillögu var það niðurstaða meiri hlutans að leggja til viðaukatillögur við tillöguna eins og hún var lögð fram af hæstv. utanríkisráðherra. Meiri hlutinn leggur til að Alþingi skori á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem meðal annars feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis og leggur til breytingu í þá veru.

Meiri hlutinn minnir á rétt palestínsks flóttafólks í þessu sambandi til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna og gerir einnig tillögu um breytingu í þá veru. Þá krefst meiri hlutinn þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum, virði mannréttindi og mannúðarlög og gerir sömuleiðis tillögu um breytingu í þá veru á texta tillögunnar.

Ég vil nefna það og fagna því sérstaklega að á vettvangi utanríkismálanefndar er allbreið samstaða um tillögu til Alþingis um afgreiðslu á þessu máli. Fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka af fimm á Alþingi eru sammála því nefndaráliti sem ég geri hér grein fyrir og ég fagna því sérstaklega. Ég tel að á vettvangi nefndarinnar hafi verið góð umræða um flestar hliðar þessa máls. Við fengum til okkar gesti og leituðum umsagnar og að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um þetta mál. Þetta er stórt mál, flókið og erfitt úrlausnar eins og við höfum séð og dæmin sanna undanfarin ár og þess vegna er ekki sérkennilegt að um það séu skiptar skoðanir. Ég harma það að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki með á þessu nefndaráliti heldur skili séráliti en ég virði að sjálfsögðu fyllilega viðhorf sjálfstæðismanna og þau sjónarmið sem þau rekja í sínu nefndaráliti.

Ég vil þó geta þess að í löndunum í kringum okkur er góður stuðningur við frelsisbaráttu Palestínu og þau markmið sem Palestínumenn hafa sett sér um stofnun sjálfstæðs ríkis jafnvel þótt sum af nágrannaríkjum okkar hafi ekki þegar stigið það skref að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Ég vil sérstaklega nefna Noreg í þessu samhengi. Utanríkismálanefnd átti þess kost að kynnast sérstaklega starfi Norðmanna sem hafa látið sig þessi mál miklu varða og átt ákveðið frumkvæði í friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Utanríkismálanefnd fékk sérstakan sérfræðing úr norska utanríkisráðuneytinu á fund við sig þar sem farið var yfir stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs og við höfum að sjálfsögðu kynnt okkur afstöðu Norðmanna sérstaklega. Á fundi sem utanríkismálanefnd Alþingis átti með Jónasi Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, nú í haust bar málefni Palestínu á góma og hann reifaði þar þau sjónarmið sem norska ríkisstjórnin hefur í þeim málum. Norska ríkisstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um að leggja til eða ákveða að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu með þeim hætti sem við erum að leggja til hér en eftir umræður um þetta mál, m.a. á Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember, þar sem utanríkisráðherra Noregs var til svara, þá tel ég, það er a.m.k. mitt mat á stöðunni, að það sé stutt í það að Norðmenn taki svipaða ákvörðun og við Íslendingar erum hér með til umfjöllunar að taka.

Í því sambandi má m.a. nefna það að einn af forustumönnum hægri flokksins í Noregi, Kåre Willoch, fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra Noregs, hefur verið einn ötulasti baráttumaður þar í landi fyrir sjálfstæði og réttindum Palestínu, sjálfsákvörðunarrétti þeirra, og mælt mjög með því að Norðmenn taki þetta skref.

Enda þótt um þetta mál kunni að vera skiptar skoðanir á milli stjórnmálaflokka og jafnvel innan stjórnmálaflokka þá held ég að fullyrða megi að málstaður Palestínumanna eigi sér stuðningsmenn í öllum stjórnmálaflokkum. Mig langar til að drepa hér niður í grein í Morgunblaðinu, sunnudaginn 2. okt. sl., eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, undir yfirskriftinni: Ísland á að viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Palestínu. Þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Eru einhver sérstök efnisleg rök fyrir því að viðurkenna ekki sjálfstæði Palestínu? Enginn dregur í efa að Palestínuarabar eru sérstök þjóð, sem ræður yfir tilteknu landsvæði, þótt mjög sé að þeim þrengt. Hvers vegna ætti ekki að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki? Af því að Ísraelar eru á móti því? Eru það nægileg rök? Nei. Það er ekki hægt að færa nokkur efnisleg rök fyrir því að Ísland viðurkenni ekki Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.“

Ég tel því að þessi viðhorf eigi sér stuðningsmenn um allt íslenskt samfélag.

Í þjóðarpúlsi Gallups frá því í október síðastliðnum var sérstaklega spurt um afstöðu íslensku þjóðarinnar til málefna Palestínu. Þar var spurt að því hvort þeim sem svöruðu þætti að Íslendingar ættu að viðurkenna sjálfstæðis- og fullveldiskröfu Palestínu eða hvort þeir ættu ekki að gera það. Þá kemur í ljós að af þeim sem afstöðu tóku sögðu 80% að þeir teldu rétt að viðurkenna sjálfstæðis- og fullveldiskröfu Palestínu en 20% töldu að það ætti ekki að gera það. Það sem kemur líka í ljós í þeirri könnun er að það er meirihlutastuðningur við þetta sjónarmið meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka. Það finnst mér sýna vel að málstaður Palestínumanna á mikinn og góðan hljómgrunn meðal Íslendinga.

Herra forseti. Meiri hluti utanríkismálanefndar telur ljóst að stofnun Palestínuríkis megi ekki dragast á langinn og styður jafnframt óskir Palestínu um sjálfstæði og aðild að Sameinuðu þjóðunum. Sjálfstæði er réttur Palestínumanna og það er skylda Íslendinga og alþjóðasamfélagsins að virða óskir þeirra um aðild og nýta jafnframt þennan möguleika til að hefja friðarviðræður á ný.

Hér vil ég líka sérstaklega geta um þau sjónarmið sem utanríkisráðherra Noregs lét falla í umræðum á Norðurlandaráðsþingi um þetta mál sérstaklega. Hann sagði þar að Norðmenn hefðu átt marga fundi með fulltrúum Palestínumanna og stjórnvalda þar og hvatt þá að því er varðar umsóknina um aðild að Sameinuðu þjóðunum eindregið til þess að fara þá leið að sækja um gagnvart allsherjarþinginu en ekki öryggisráðinu, einfaldlega vegna þess að Norðmenn töldu að það væru meiri líkur á því að þeir næðu áfangasigrum með þeirri leið. En Jónas Gahr Störe sagði jafnframt: Þetta voru okkar ráð. Palestínumenn ákváðu sjálfir að sækja um fulla aðild í gegnum öryggisráðið. Þeir áttu lögmætan rétt á því og þó að þeir hafi ekki fylgt okkar ráðum þá styðjum við þá í því sem þeir gera og ákveða að gera á lögmætan hátt. Þetta finnst mér mikilvægt að hafa í huga í umræðunni um þetta mál einkum og sér í lagi þegar vísað er til afstöðu annarra þjóða, ekki síst Norðmanna, sem hefur komið upp í þessari umræðu á vettvangi utanríkismálanefndar.

Meiri hluti utanríkismálanefndar gerir kröfu um að stofnanir alþjóðasamfélagsins hafi mun ákveðnari aðkomu að friðarumleitununum en hingað til. Sameinuðu þjóðunum ber að sjálfsögðu að tryggja frið og öryggi sem og virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum. Meiri hlutinn telur í þessu samhengi rétt að nefna til sögunnar Alþjóðlega sakamáladómstólinn, sem er ein helsta réttarbót á alþjóðavettvangi á undanförnum árum. Forsendur þess að dómstóllinn beiti lögsögu sinni eru meðal annars að ríki sem ræður því yfirráðasvæði þar sem viðkomandi háttsemi átti sér stað viðurkenni lögsögu dómstólsins. Ef Palestína öðlaðist viðurkenningu sem ríki að þjóðarétti, hvort heldur er sem aðildarríki eða áheyrnaraðildarríki Sameinuðu þjóðanna, gæti það á grundvelli ákvæðis 3. mgr. 12. gr. Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðurkennt lögsögu dómstólsins, þrátt fyrir að vera ekki aðili að samþykktinni.

Það hefur að sjálfsögðu heilmikil umræða farið fram um það í þessu máli hvort viðurkenning á sjálfstæði Palestínu eins og hér er lagt til muni hjálpa til þess að friður komist á á þessu svæði eða hvort þetta kunni hugsanlega að trufla það ferli. Um þetta kunna að sjálfsögðu að vera skiptar skoðanir og ólíkt mat hvað þetta snertir. Það er hins vegar sjónarmið meiri hlutans að það séu mestar líkur á friði með jafnari stöðu deiluaðila, með jafnari stöðu Ísraels og Palestínu að þjóðarétti. Það séu meiri líkur á að friðarumleitanir beri árangur ef ríkin standa jafnar að fæti en þau gera í dag. Það er heppilegri leið en sú kyrrstaða sem ríkt hefur í áratugi. Allir sjá að það er ekkert í hendi á allra næstu mánuðum, missirum og jafnvel árum hvað varðar sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna í gegnum óbreytt ástand. Viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu er skref í átt til friðar, að mínu viti og að áliti okkar sem stöndum að þessu nefndaráliti.

Meiri hlutinn fagnar fyrirliggjandi tillögu og þeim tímamótum sem hún markar og leggur til að hún verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir í þessu nefndaráliti og ég hef rakið og lögð er til í sérstöku þingskjali.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg við vinnu þessa máls. Ég vil þakka samstarfsmönnum mínum í utanríkismálanefnd, öllum, fyrir mjög málefnalega og uppbyggilega umræðu um þetta mál á vettvangi nefndarinnar, fyrir að hafa lagt í púkkið, fyrir að hafa komið fram með ólík sjónarmið og ólíkar nálganir á þetta mál. Sömuleiðis vil ég þakka umsagnaraðilum og gestum sem komu á fund nefndarinnar fyrir þeirra framlag. Þá vil ég einnig nota þetta tækifæri og þakka þeim baráttusamtökum, sem starfað hafa um langt árabil hér á landi fyrir sjálfsákvörðunarrétti og sjálfstæði Palestínumanna, fyrir þeirra þrotlausu baráttu. Því þar eru margir einstaklingar sem hafa lagt mikið á sig í baráttunni fyrir rétti Palestínumanna til að stofna eigið ríki. Og að sjálfsögðu þökkum við þeim fyrir þeirra ómetanlega framlag.

Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, er samþykk því áliti sem meiri hlutinn sendir frá sér, en undir nefndarálitið skrifa Árni Þór Sigurðsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Mörður Árnason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Álfheiður Ingadóttir og Amal Tamimi.

Að svo mæltu, virðulegi forseti, hvet ég Alþingi til að samþykkja þá tillögu sem meiri hluti utanríkismálnefndar leggur til og greiði atkvæði með því að Ísland viðurkenni sjálfstæði og fullveldi Palestínu innan landamæranna frá því fyrir stríðið 1967.