Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 19:45:44 (3048)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Ef ég fylgi aðeins eftir þessum hugleiðingum um skattlagningu lífeyrissjóðanna er ljóst að verið er að skattleggja réttindi, ekki er verið að skattleggja eitthvað sem heitir eignir vegna þess að allar eignir lífeyrissjóðanna eru til að mæta réttindum. Þetta er beinn skattur á lífeyrisréttindi Íslendinga.

Mig langar að tengja það aðeins inn í það sem þingmaðurinn talaði um sem var jöfnun lífeyrisréttinda milli almennu sjóðanna og lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, þessara þriggja sjóða, og spyrja: Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því að þessi skattlagning á lífeyrisréttindi, sem boðuð er í tengslum við þetta, eykur enn muninn á réttindum hjá opinberu sjóðunum og almennu sjóðunum? Ríkið tryggir réttindin í opinberu sjóðunum en almennu sjóðirnir þurfa einfaldlega að reiða sig á það sem er lagt inn í þá plús ávöxtun sem verður á sjóðunum og skatturinn dregst þá frá þeirri ávöxtun sem annars hefði orðið.