Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 21:18:23 (3068)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:18]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara rekja það hér í stuttu andsvari mínu að mín skoðun á skattlagningu lífeyrissjóðanna er sú að sjóðirnir eigi að leggja sitt af mörkum til að koma skuldugum heimilum til aðstoðar. Ég tel að við eigum að jafna réttindi lífeyrisþega í landinu með því að láta opinberu sjóðina og hina almennu vinna betur saman þannig að sambærileg kjör sé um að ræða og að það sé ekki ríkisábyrgð heilt yfir. (Gripið fram í.) Það vildi ég taka fram.

Mín skoðun er sú og við getum ekki horft fram hjá því að það telst velferð að hjálpa þeim sem missa atvinnuna. Við getum ekki horft fram hjá því að við erum að hjálpa fólki aftur af stað inn á vinnumarkaðinn, við hjálpum því að sækja sér betri menntun og sækja sér endurmenntun svo að það geti komið til baka aftur inn á vinnumarkaðinn. Ef það verður fyrir tímabundnu áfalli og missir atvinnuna er það að sjálfsögðu velferðarpólitík að greiða atvinnuleysisbætur og styðja við fólk. Það er velferð, já.