Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 22:18:33 (3084)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi hv. þingmaður meint að þessi 2% væru niðurgreiðsla á sparnaði þá er ég ekki sammála því, það er augljóst. Það sem ég sé að þessari ráðstöfun er að hvatinn til að spara verður miklu minni, hann minnkar eða hverfur.

Við sjáum það í dag, og höfum séð það undanfarið, hve mikilvægt það er fyrir fólk að eiga sparnað. Ríkisstjórnarflokkarnir hvöttu fólk til að ganga á sparnað sinn til að nýta sér í harðræðinu og ef sá sparnaður væri ekki fyrir hendi hefði ekki verið hægt að ganga á hann. Í framhaldinu er svo lagt til að minnka líkurnar á því að fólk spari og hvetja það til að spara minna. Það finnst mér rangt.

Hvort allt sem ekki er skattlagt sé gjöf frá ríkinu? Nei. Auðvitað er það ekki þannig. Ef einhver heldur að það sé þannig er sá hinn sami á miklum villigötum. Með því væri verið að segja að réttlætanlegt sé að skattleggja allt sem ekki er skattlagt nú þegar. Ef það er stefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr eru þeir 15 mánuðir sem eftir eru af starfstíma hennar sem betur fer allt of stuttur tími til að hrinda öllu því í framkvæmd sem hægt væri að ná út úr slíkri hugsun.

Alvarleikinn í þessu er sá að fólk sem hefur verið að spara með þessum hætti þarf að átta sig á þeirri breytingu sem verið er að gera. Ég held að þegar menn átta sig á henni muni víða heyrast hljóð úr horni.