140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

355. mál
[11:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi lagasetning var fyrsta tilraun stjórnvalda til að beina íslenskum heimilum í hinn sértæka farveg stjórnvalda. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það sem eftir stendur eru þrjár skýrslur sem eru minnisvarði um það hversu illa hefur tekist til. Það er sorglegt að helsta nytsemi þessara laga, nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, hafi reynst vera eftirlitsnefndin sjálf en ekki lausnirnar.

Þess vegna hef ég lagt fram breytingartillögu sem mun koma til atkvæðagreiðslu og ég vonast til að menn skoði hana með mjög jákvæðum huga upp á það hvort möguleiki sé á að nýta skattkerfið til að koma til móts við ofskuldsett heimili, þau heimili sem sitja enn uppi með lánsveð og þau heimili sem hafa horft upp á eigið fé sitt hverfa í hruninu (Forseti hringir.) og eftir hrun.