Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 89  —  89. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um Íslandssögukennslu í framhaldsskólum.

Flm.: Árni Johnsen, Ólöf Nordal, Sigurður Ingi Jóhannsson,

Guðlaugur Þór Þórðarson.



    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða nú þegar námskrár framhaldsskóla. Vægi Íslandssögu verði eflt til muna bæði hvað varðar námsefni og námstíma. Þær forsendur verði lagðar til grundvallar að afar mikilvægt sé að íslensk ungmenni alist upp við góða þekkingu á sögu þjóðar sinnar, hefðum og tilþrifum til lands og sjávar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi (291. mál).
    Íslendingar eiga undir högg að sækja í aukinni samkeppni á alþjóðavettvangi sem sjálfstæð þjóð og hvað varðar menningarlega, atvinnulega og markaðslega ímynd Íslands. Sögukennsla í framhaldsskólum var skorin niður við trog við gerð síðustu námsskrár og nánast þurrkuð út á sumum námsbrautum. Áföngum var slegið saman. Þannig er mannkynssaga og Íslandssaga frá upphafi fram til um 1800 kennd í einum sex eininga áfanga sem Íslands- og mannkynssaga. Ef bæta á söguþekkingu ungs fólks þarf að auka vægi sögukennslu á öllum námsbrautum. Fjölga þarf kjarnaáföngum í sögu, skipta sögunni meira niður en nú er gert og auka val. Einnig þarf að útbúa fjölbreyttara námsefni, heimildasöfn er henta skólum og myndefni úr sögunni er fellur vel að lengd kennslustunda. Mikill skortur er á slíku kennsluefni, sérstaklega um Ísland.
    Þeim fer mjög fjölgandi dæmunum bæði í útvarpi og sjónvarpi og ekki síst á samskiptasíðum á netinu þar sem afhjúpast miklar gloppur í sögukunnáttu ungs fólks á Íslandi. Er þar um að ræða beina vanþekkingu á atriðum og þáttum sem ættu að eiga fastan bústað í brjósti hvers Íslendings.