Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 524  —  390. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (smokkar).

Flm.: Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Birgitta Jónsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Magnús Orri Schram.


1. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Smokkar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Greinargerð.


    Í þessu frumvarpi er lagt til að virðisaukaskattur á smokkum verði 7% en ekki 25,5%.
    Í nýlegri áfangaskýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks kemur fram að notkun ungra Íslendinga á smokkum er ein sú minnsta á Vesturlöndum. Notkun hormónagetnaðarvarna er minnst hér á landi af Norðurlöndunum, en sala neyðargetnaðarvarna mest. Á sama tíma er tíðni ýmissa kynsjúkdóma svo sem klamydíu og HPV ein sú hæsta. Ungt fólk á Íslandi byrjar einnig tiltölulega snemma að stunda kynlíf og á marga bólfélaga. Barneignir eru mun fleiri í þessum aldurshópi en annars staðar á Norðurlöndunum, þótt þeim hafi fækkað á undanförnum árum, en tíðni fóstureyðinga er næstlægst.
    Árið 2010 greindust 24 einstaklingar með HIV, fleiri en nokkru sinni áður. Það sem af er árinu 2011 hafa 17 einstaklingar greinst með HIV. Markmið alþjóðaalnæmisdagsins árið 2011 var að enginn smitaðist af alnæmi. Ein af leiðunum til að sporna við smiti er að auðvelda aðgang að smokkum.
    Á vefsíðu landlæknisembættisins kemur fram að smokkar eru eina getnaðarvörnin sem er bæði vörn gegn kynsjúkdómum og getnaði. Með því að nota smokkinn er valin öruggasta leiðin til að vernda bæði sjálfan sig og aðra gegn smiti.
    Frumvarpið er í samræmi við ítrekaðar ályktanir Sambands ungra framsóknarmanna um mikilvægi þess að lækka skatta á smokka til að draga úr tíðni kynsjúkdóma. Flutningsmenn telja að verði frumvarpið að lögum leiði það ekki til minni tekna ríkissjóðs enda mun sala á smokkum væntanlega aukast. Þá má nefna að aukin notkun smokka mun vafalaust leiða til þess að tíðni kynsjúkdóma og fóstureyðinga minnkar og draga þannig úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.