Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 540. máls.

Þingskjal 835  —  540. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011
um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011, frá 21. október 2011, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011, frá 21. október 2011, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði og hreinna loft í Evrópu.
    Markmið tilskipunar 2008/50/EB er m.a. að meta loftgæði í aðildarríkjum, afla upplýsinga um loftgæði, vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum ásamt því að hafa eftirlit með langtímaframvindu og bættum loftgæðum svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu gerðar aðgengilegar almenningi. Jafnframt er markmið tilskipunarinnar að viðhalda loftgæðum þar sem þau eru mikil en bæta þau ella.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu.
    Tilskipun 2008/50/EB er ætlað að einfalda og skýra réttarumhverfi og stjórnsýslu á sviði loftgæðamála í bandalaginu með því að sameina fimm gerðir sambandsins í eina. Þessar fimm tilskipanir féllu úr gildi 11. júní 2010 en þann sama dag áttu aðildarríki að hafa innleitt ákvæði tilskipunar 2008/50/EB í löggjöf sína, sbr. 31. og 33. gr. tilskipunarinnar.
    Markmið tilskipunarinnar er sett fram í 1. gr. hennar. Þar kemur fram að setja skuli markmið um loftgæði í því skyni að koma í veg fyrir eða minnka skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfið sem heild. Til að þeim markmiðum verði náð þurfi að meta loftgæði í aðildarríkjum, afla upplýsinga um loftgæði, vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum ásamt því að hafa eftirlit með langtímaframvindu og bættum loftgæðum svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu gerðar aðgengilegar almenningi. Jafnframt skal viðhalda loftgæðum þar sem þau eru mikil en bæta þau ella og stuðla að aukinni samvinnu aðildarríkja í því skyni að draga úr loftmengun.
    Tilskipunin kallar á að gerðar séu loftgæðaáætlanir fyrir öll svæði og alla þéttbýlisstaði þar sem magn mengandi efna fer yfir umhverfismörk eða markgildi, en skilgreiningu þeirra er að finna í viðaukum með tilskipuninni.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2008/50/EB kallar á breytingar á 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í tilskipuninni er kveðið á um ríkari upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings að því er varðar loftgæði en nú er að finna í íslenskum rétti, en í gildandi lögum er aðeins kveðið á um skýrslugjöf varðandi umhverfisvöktun í starfsleyfum. Umhverfisráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi í samræmi við framangreint.
    Nokkrar gerðir eru sameinaðar og felldar úr gildi með tilskipun 2008/50/EB, líkt og áður sagði, en þær hafa allar verið teknar upp í EES-samninginn. Þær voru innleiddar í íslenskan rétt með nokkrum reglugerðum, sem sækja lagastoð í 5. gr. laga nr. 7/1998. Lagt er til að þær reglugerðir verði sameinaðar í eina heildarreglugerð um loftgæði til samræmis við uppbyggingu tilskipunar 2008/50/EB. Lagt er til að einu helsta nýmæli tilskipunarinnar, um umhverfismörk fyrir fínt svifryk, verði bætt við í áðurnefndri heildarreglugerð um loftgæði en engin slík mörk er að finna í núgildandi réttarreglum.
    Kostnaður við upptöku tilskipunar 2008/50/EB er talsverður samkvæmt kostnaðarmati umhverfisráðuneytisins. Er það einna helst rekstrarkostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun vegna verkefna sem fylgja innleiðingu og framkvæmd tilskipunarinnar sem og stofnkostnaður vegna uppsetningar mælistöðvanets og loftgæðastjórnunarkerfis sem heldur utan um gögn frá mælistöðvum og önnur gögn varðandi loftgæði. Verkefnin eru einkum: uppsetning og rekstur mælistöðva, utanumhald og skil upplýsinga til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), uppsetning og rekstur loftgæðalíkans og samskipti við sveitarfélög og innlendar og erlendar stofnanir vegna loftgæðalíkans. Hvað varðar rekstrarkostnað má einkum nefna fjölgun um allt að 1,5 stöðugildi hjá Umhverfisstofnun, til að annast framkvæmd tilskipunarinnar. Þá er talið að sérstaka fjárheimild þurfi sökum stofnkostnaðar vegna uppsetningar mælistöðvanets og loftgæðastjórnunarkerfis. Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir atvinnulífið vegna innleiðingarinnar en tilskipunin kann að leiða til aukins kostnaðar hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga vegna fjölgunar verkefna vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Nákvæmt kostnaðarmat verður unnið áður en frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 verður lagt fram.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 121/2011

frá 21. október 2011

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2011 frá 20. júlí 2011 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu ( 2 ).

3)        Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2008/50/EB falla úr gildi tilskipun ráðsins 96/62/EB ( 3 ), tilskipun ráðsins 1999/30/EB ( 4 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/69/EB ( 5 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/3/EB ( 6 ) og ákvörðun ráðsins 97/101/EB ( 7 ), en þær gerðir hafa verið felldar inn í samninginn og ber því að fella þær úr samningnum.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði XX. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.    Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 14b (ákvörðun ráðsins 97/101/EB):

    „14c. 32008 L 0050: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu (Stjtíð. ESB L 152, 11.6.2008, bls. 1).“

2.    Texti liða 13d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/69/EB), 13e (tilskipun ráðsins 1999/30/EB), 14a (tilskipun ráðsins 96/62/EB), 14b (ákvörðun ráðsins 97/101/EB) og 21ag (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/3/EB) falli brott.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2008/50/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. nóvember 2011, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).     

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 21. október 2011.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Kurt Jäger

formaður.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/50/EB
frá 21. maí 2008
um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Sjötta aðgerðaáætlunin á sviði umhverfismála, sem samþykkt var með ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/2002/EB frá 22. júlí 2002 ( 4 ), kveður á um nauðsyn þess að draga úr mengun að því marki að skaðleg áhrif á heilbrigði manna, þar sem sérstakur gaumur er gefinn þeim hópum sem eru viðkvæmir, og á umhverfið í heild verði í lágmarki, að bæta vöktun og mat á loftgæðum, m.a. á ákomu mengunarefna, og að veita almenningi upplýsingar.
2)        Til að vernda heilbrigði manna og umhverfið í heild er sérstaklega mikilvægt að berjast gegn losun mengunarefna við upptök og að skilgreina árangursríkustu ráðstafanirnar til draga úr losun á staðar-, lands- og Bandalagsvísu og framfylgja þeim. Því ber að forðast, koma í veg fyrir eða draga úr losun skaðlegra loftmengunarefna og setja viðeigandi markmið fyrir gæði andrúmslofts m.t.t. viðkomandi staðla, leiðbeininga og áætlana Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
3)        Taka skal til gagngerrar endurskoðunar tilskipun ráðsins 96/62/EB frá 27. september 1996 ( 5 ), tilskipun ráðsins 1999/30/EB frá 22. apríl 1999 um viðmiðunargildi fyrir brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnistvíoxíð og köfnunarefnisoxíð og efnisagnir og blý í andrúmsloftinu ( 6 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/69/ EB frá 16. nóvember 2000 um viðmiðunarmörk fyrir bensen og kolsýring í andrúmslofti ( 7 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/ 3/EB frá 12. febrúar 2002 um óson í andrúmslofti ( 8 ) og ákvörðun ráðsins 97/101/EB frá 27. janúar 1997 um að taka upp gagnkvæm skipti á upplýsingum og gögnum frá netkerfum og einstökum stöðvum sem mæla loftmengun í aðildarríkjunum ( 9 ) m.t.t. nýjustu þróunar í heilbrigðismálum og vísindum og reynslu aðildarríkjanna. Til glöggvunar, einföldunar og skilvirkni í stjórnsýslu er því rétt að í stað þessara fimm gerða komi ein tilskipun og, eftir atvikum, framkvæmdarráðstafanir.
4)        Þegar nægileg reynsla hefur fengist af framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/107/EB frá 15. desember 2004 um arsen, kadmíum, kvikasilfur, nikkel og fjölhringa, arómatísk vetniskolefni í andrúmslofti ( 10 ) má taka til athugunar þann möguleika að sameina ákvæði hennar þessari tilskipun.
5)        Fylgja ætti sameiginlegri stefnu við mat á gæðum andrúmslofts samkvæmt sameiginlegum matsviðmiðunum. Þegar gæði andrúmslofts eru metin skal taka tillit til þess fjölda fólks og stærðar þeirra vistkerfa sem verða fyrir loftmengun. Því er rétt að flokka yfirráðasvæði hvers aðildarríkis í svæði eða þéttbýlisstaði sem endurspegla þéttleika byggðar.
6)        Reiknilíkön skulu notuð þar sem þess er kostur svo hægt sé að lesa landfræðilega dreifingu styrks úr punktagögnum. Þetta má nota sem grunn til útreikninga á sameiginlegum váhrifum á íbúa á svæðinu.
7)        Til að tryggja að upplýsingarnar, sem safnað er um loftmengun, séu nægilega lýsandi og samanburðarhæfar fyrir allt Bandalagið er mikilvægt að notaðar séu staðlaðar mæliaðferðir og sameiginlegar viðmiðanir fyrir fjölda og staðsetningu mælistöðvanna sem notaðar eru til að meta gæði andrúmslofts. Þar eð nota má aðrar aðferðir en mælingar til að meta gæði andrúmslofts er nauðsynlegt að skilgreina viðmiðanir fyrir notkun og þá nákvæmni sem nauðsynlegt er að slíkar aðferðir hafi.
8)        Gera skal nákvæmar mælingar á fíngerðum efnisögnum á bakgrunnsstöðvum í dreifbýli í því skyni að skilja betur áhrif þessa mengunarefnis og til að þróa viðeigandi stefnu. Þessar mælingar skulu gerðar þannig að þær samræmist samstarfsáætluninni um vöktun og mat á mengunarefnum sem berast langar leiðir í Evrópu (EMEP), sem komið var á fót með samningnum frá 1979 um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa og samþykktur var með ákvörðun ráðsins 81/462/EBE frá 11. júní 1981 ( 1 ).
9)        Viðhalda skal gæðum andrúmslofts, þar sem þau eru mikil, eða bæta þau. Ef markmiðin um gæði andrúmslofts, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, nást ekki skulu aðildarríkin grípa til aðgerða svo að viðmiðunarmörk og hættumörk séu virt og, ef unnt er, þannig að markgildi og langtímamarkmið náist.
10)         Áhættan að því er varðar skaða á gróðri og náttúrulegum vistkerfum, sem stafar af loftmengun, vegur þyngst á stöðum sem eru fjarri borgarsvæðum. Þegar lagt er mat á þá áhættu og hvort hættumörk til verndar gróðri séu virt ætti því að leggja áherslu á staði sem eru fjarri þéttbýli.
11)        Fíngerðar efnisagnir (PM 2.5) hafa umtalsverð, neikvæð áhrif á heilbrigði manna. Ekki er heldur vitað undir hvaða mörkum PM 2,5 er áhættulaust. Því skal ekki beita sömu reglum um þetta mengunarefni og önnur loftmengunarefni. Til að tryggja að bætt loftgæði gagnist stórum hluta íbúa skal nota þá nálgun að draga almennt úr styrk mengunarefna í borgarbakgrunni. Auk þeirrar nálgunar skal þó setja viðmiðunarmörk til að tryggja lágmarksheilsuvernd alls staðar, en á undan sé sett markgildi sem fyrsta skref.
12)        Núverandi markgildi og langtímamarkmið, sem tryggja eiga haldgóða vernd gegn skaðlegum áhrifum ósons á heilbrigði manna og gróður og vistkerfi, skulu vera óbreytt. Setja skal viðvörunarmörk og upplýsingamörk fyrir óson til verndar almenningi annars vegar og viðkvæmum hópum hins vegar gegn skammvinnum váhrifum frá auknum styrk ósons. Ef farið er yfir mörkin skal almenningur upplýstur um áhættuna á váhrifum og ef farið er yfir viðvörunarmörkin skal grípa til skammtímaráðstafana til að draga úr styrk ósons, ef við á.
13)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/ EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni ( 2 ) fjallar um óson, sem er mengunarefni sem berst yfir landamæri og myndast í andrúmsloftinu vegna losunar frummengunarefna. Ákvarða skal hvernig miðar að ná markmiðum um loftgæði og langtímamarkmiðum um óson, sem sett eru fram í þessari tilskipun, með viðmiðunum og efri mörkum fyrir losun sem kveðið er á um í tilskipun 2001/81/EB og, ef við á, með framkvæmd áætlana um loftgæði sem kveðið er á um í tilskipuninni.
14)        Á svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem farið er yfir langtímamarkmið vegna ósons eða viðmiðunarmörk mats fyrir önnur mengunarefni, skulu fastar mælingar vera skyldubundnar. Til viðbótar upplýsingum, sem fást með föstum mælingum, er heimilt að nota reiknilíkön og/eða leiðbeinandi mælingar svo að lesa megi landfræðilega dreifingu styrks úr punktagögnum. Notkun viðbótaraðferða ætti einnig að gera það mögulegt að fækka lágmarksfjölda fastra sýnatökustaða sem krafist er.
15)         Unnt er að meta tillag losunar frá náttúrulegum upptökum en ekki stjórna henni. Ef hægt er að ákvarða tillag náttúrulegrar mengunar í andrúmslofti með fullnægjandi vissu og ef rekja má þá staðreynd að farið er yfir mörkin að hluta eða að öllu leyti til þeirrar náttúrulegu hlutdeildar má því samkvæmt ákvæðunum, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, draga þá hlutdeild frá þegar metið er hvort viðmiðunarmörk fyrir loftgæði hafi verið virt. Ef hlutdeild fíngerðra efnisagna PM 10 fer yfir viðmiðunarmörk og það má rekja til sandburðar og söltunar á vegum að vetrarlagi er einnig heimilt að draga það tillag frá þegar metið er hvort viðmiðunarmörk fyrir loftgæði hafi verið virt, að því tilskildu að gripið hafi verið til eðlilegra ráðstafana til að draga úr styrk agnanna.
16)    Mögulegt skal vera að framlengja frestinn sem veittur er til að virða viðmiðunarmörk fyrir loftgæði á sérstökum svæðum og þéttbýlisstöðum þar sem skilyrði eru sérstaklega erfið og bráð vandamál eru tengd því að uppfylla kröfurnar þrátt fyrir það að gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir til að draga úr mengun. Hvers kyns seinkun fyrir tiltekin svæði eða þéttbýlisstaði skal fylgja ítarleg áætlun sem framkvæmdastjórnin mun meta svo að tryggt sé að staðið sé við nýjan eindaga. Mikilvægt verður að hafa aðgang að nauðsynlegum ráðstöfunum Bandalagsins í samræmi við valið metnaðarstig í þemaáætlun um loftmengun í því skyni að að draga úr losun við upptök svo að unnt sé að draga úr losuninni á skilvirkan hátt innan þess tíma sem gefinn er til að fara að ákvæðum um viðmiðunarmörk sem sett eru fram í þessari tilskipun og ætti að taka tillit til þess þegar metnar eru beiðnir um frestun á eindaga til uppfyllingar þeim ákvæðum.
17)         Allar viðkomandi stofnanir skulu hafa það að forgangsverkefni að taka til skoðunar nauðsynlegar ráðstafanir Bandalagsins til að draga úr losun við upptök, sérstaklega ráðstafanir til að bæta skilvirkni löggjafar Bandalagsins um losun í iðnaði, til að takmarka losun með útblæstri hreyfla þungra ökutækja, til að minnka enn frekar leyfilega losun hvers aðildarríkis á helstu mengunarvöldum auk losunar sem verður við áfyllingu bensínbíla á bensínstöðvum og til að stýra brennisteinsinnihaldi í eldsneyti, þ.m.t. skipaeldsneyti.
18)         Gerðar skulu áætlanir um loftgæði á svæðum og þéttbýlisstöðum þar sem styrkur mengunarefna í andrúmslofti er yfir viðkomandi markgildum eða viðmiðunarmörkum fyrir loftgæði, að viðbættum tímabundnum vikmörkum þar sem þau eiga við. Loftmengunarefni losna frá margs konar upptökum og við margs konar starfsemi. Til að tryggja samhengi milli mismunandi stefna ættu slíkar áætlanir um loftgæði að vera samræmdar, eftir því sem gerlegt er, og samþættar skipulagi og áætlunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/80/EB frá 23. október 2001 um takmörkun á losun tiltekinna mengunarefna frá stórum brennsluverum út í andrúmsloftið ( 1 ) og tilskipun 2001/81/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/49/EB frá 25. júní 2002 um mat og stjórn á hávaða í umhverfinu ( 2 ). Einnig skal tekið mið af markmiðunum um gæði andrúmslofts sem lögð eru fram í þessari tilskipun, en þar eru veittar heimildir til iðnrekstrar samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/1/EB frá 15. janúar 2008 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 3 ).
19)         Gera skal aðgerðaráætlanir um þær skammtímaráðstafanir sem grípa skal til ef hætta er á að farið verði yfir viðvörunarmörk, eitt eða fleiri, til að draga úr þeirri áhættu og stytta tímann sem hún varir. Ef áhættan á við um eitt eða fleiri viðmiðunarmörk eða markgildi mega aðildarríkin, eftir því sem við á, semja slíkar skammtímaaðgerðaráætlanir. Að því er varðar óson ætti í aðgerðaráætlunum til skamms tíma að taka tillit til ákvæða ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2004/279/EB frá 19. mars 2004 varðandi leiðbeiningar vegna framkvæmdar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/3/EB um óson í andrúmslofti ( 4 ).
20)        Aðildarríkin skulu, í kjölfar verulegrar mengunar sem á upptök sín í öðru aðildarríki, hafa samráð ef styrkur mengunarefna er hærri eða ef líklegt er að hann verði hærri en viðkomandi markmið fyrir loftgæði að viðbættum vikmörkunum eða, ef við á, yfir viðvörunarmörkum. Vegna þess að ýmis mengunarefni, s.s. óson og efnisagnir, berast yfir landamæri kann að vera nauðsynlegt að koma á samræmingu milli aðliggjandi aðildarríkja við að móta og hrinda í framkvæmd áætlunum um loftgæði og aðgerðaáætlunum til skamms tíma, svo og við að koma upplýsingum á framfæri við almenning. Ef við á skulu aðildarríkin leita eftir samvinnu við þriðju lönd og skal leggja sérstaka áherslu á að umsóknarlönd komi snemma að málinu.
21)         Nauðsynlegt er að aðildarríkin og framkvæmdastjórnin afli upplýsinga um loftgæði, skiptist á þeim og miðli þeim í því skyni að skilja betur áhrif vegna loftmengunar og til að móta viðeigandi stefnu. Nýjustu upplýsingar um styrk allra mengunarefna í andrúmslofti, sem reglur gilda um, skulu einnig vera aðgengilegar almenningi.
22)         Til að auðvelda meðhöndlun og samanburð gagnanna um loftgæði skulu gögnin gerð tiltæk framkvæmdastjórninni í stöðluðu formi.
23)         Nauðsynlegt er að aðlaga aðferðir við gagnamiðlun, mat og skýrslugjöf um loftgæði þannig að nota megi rafrænar aðferðir og Netið sem aðalverkfærin til að koma upplýsingunum á framfæri og til að aðferðirnar samrýmist tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB frá 14. mars 2007 um að koma á grunngerð fyrir landupplýsingar í Evrópubandalaginu (INSPIRE) ( 1 ).
24)         Rétt þykir að gera ráð fyrir þeim möguleika að viðmiðanir og aðferðir, sem notaðar eru til að meta gæði andrúmslofts, séu lagaðar að framförum í vísindum og tækni og laga ber upplýsingarnar, sem veita skal, að því.
25)         Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar vegna þess að loftmengunarefni berast yfir landamæri og þeim verður því betur náð á vettvangi Bandalagsins er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
26)    Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á ákvæðum þessarar tilskipunar og tryggja að þeim sé framfylgt. Þessi viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
27)         Tiltekin ákvæði þeirra gerða, sem felldar eru niður með þessari tilskipun, skulu gilda áfram til að tryggja áframhald núgildandi viðmiðunarmarka um loftgæði fyrir köfnunarefnistvíoxíð þar til önnur koma í þeirra stað 1. janúar 2010, áframhald ákvæða um skýrslugjöf þar til nýjar framkvæmdarráðstafanir verða samþykktar og áframhald skuldbindinga varðandi bráðabirgðamat á loftgæðum samkvæmt tilskipun 2004/107/EB.
28)         Sú skylda að taka þessa tilskipun upp í landslög takmarkast við þau ákvæði sem fela í sér verulega breytingu í samanburði við fyrri tilskipanir.
29)        Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ), eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og jafnframt að birta þær,
30)         Í þessari tilskipun eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Í þessari tilskipun er sérstaklega leitast við að stuðla að samþættingu öflugrar umhverfisverndar og aukinna umhverfisgæða í stefnumálum Sambandsins samkvæmt meginreglunni um sjálfbæra þróun sem mælt er fyrir í 37. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
31)         Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 3 ).
32)         Framkvæmdastjórninni skal veitt umboð til að breyta I. til IV. viðauka, VIII. til X. viðauka og XV. viðauka. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og ætlað að breyta veigaminni þáttum tilskipunar þessarar verður að samþykkja þær í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
33)         Samkvæmt lögleiðingarákvæðinu ber aðildarríkjum að tryggja að nauðsynlegar mælingar í bakgrunni borga hefjist nægilega snemma til að skilgreina meðalváhrifavísi svo hægt sé að tryggja að kröfurnar, sem tengjast mati á landsbundnum markmiðum um minnkun váhrifa og útreikningi á meðalváhrifavísi, séu uppfylltar.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Efni

Í þessari tilskipun er mælt fyrir um ráðstafanir sem miða að eftirfarandi:
1.    að skilgreina og setja markmið um gæði andrúmslofts sem er ætlað að komast hjá skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild, koma í veg fyrir þau eða draga úr þeim,
2.    að meta gæði andrúmslofts í aðildarríkjunum á grundvelli sameiginlegra aðferða og viðmiðana,
3.    að afla upplýsinga um gæði andrúmslofts sem lið í baráttunni gegn mengun og þeim óþægindum sem henni fylgja og til að vakta leitnina til langs tíma og þær umbætur sem ráðstafanir aðildarríkjanna og Bandalagsins koma til leiðar,
4.    að tryggja að almenningur hafi aðgang að slíkum upplýsingum um gæði andrúmslofts,
5.    að viðhalda gæðum andrúmslofts þar sem þau eru mikil en bæta þau ella,
6.    að stuðla að aukinni samvinnu aðildarríkjanna í því skyni að draga úr loftmengun.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „andrúmsloft“: loft í veðrahvolfi, að undanskildu lofti á vinnustöðum, sem er skilgreint í tilskipun 89/654/EBE ( 1 ) þar sem ákvæði varðandi heilbrigði og öryggi á vinnustað eiga við og sem almenningur hefur venjulega ekki aðgang að,
2.    ,,mengunarefni“: efni sem eru í andrúmsloftinu og líklegt er að hafi skaðleg áhrif á heilbrigði manna og/eða umhverfið í heild,
3.    ,,styrkur“: styrkleiki mengunarefnis í andrúmslofti eða ákoma þess á yfirborð á tilteknum tíma,

4.    „mat“: hvers kyns aðferð sem notuð er til að mæla, reikna út, spá fyrir um eða meta mengunarstyrk,
5.    ,,viðmiðunarmörk“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að komast hjá skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og/eða á umhverfið í heild, koma í veg fyrir þau eða draga úr þeim og skal hann nást innan tilskilinna tímamarka og ekki má fara yfir hann eftir að honum hefur verið náð,
6.    „hættumörk“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður á grundvelli vísindalegrar þekkingar og ef farið er yfir mörkin getur það valdið beinum, skaðlegum áhrifum á suma viðtaka, s.s. tré, aðrar plöntur eða náttúruleg vistkerfi, en ekki á menn,
7.    ,,vikmörk“: sá hundraðshluti sem fara má yfir viðmiðunarmörkin í samræmi við þau skilyrði sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun,
8.    „áætlanir um loftgæði“: áætlanir þar sem fram eru settar ráðstafanir til þess að ná viðmiðunarmörkunum eða markgildunum.
9.    ,,markgildi“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður með það fyrir augum að komið verði í veg fyrir skaðleg áhrif á heilbrigði manna og/eða umhverfið í heild sinni eða að dregið verði úr þeim og sem skal nást innan tilskilinna tímamarka, eftir því sem unnt er,
10.    ,,viðvörunarmörk“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður þannig að ef farið er yfir mörkin skapast áhætta fyrir heilbrigði manna vegna skammvinnra váhrifa sem almenningur verður fyrir og skulu aðildarríkin þá gera ráðstafanir tafarlaust,
11.    „upplýsingamörk“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður þannig að ef farið er yfir mörkin skapast áhætta fyrir heilbrigði manna vegna skammvinnra váhrifa sem sérlega viðkvæmir hópar fólks verða fyrir og nauðsynlegt er að nýjustu og viðeigandi upplýsingar liggi fyrir um,
12.    „efri viðmiðunarmörk mats“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður þannig að neðan markanna má nota samþættar aðferðir fastra mælinga og reiknilíkana og/eða leiðbeinandi mælingar til að meta gæði andrúmslofts,
13.    „neðri viðmiðunarmörk mats“: tiltekinn styrkur, sem er ákvarðaður þannig að neðan markanna má einungis nota aðferðir sem byggjast á reiknilíkönum eða hlutlægu mati til að meta gæði andrúmslofts,
14.    „langtímamarkmið“: tiltekinn styrkur, sem á að ná þegar til langs tíma er litið í því skyni að skapa haldgóða vernd fyrir heilbrigði manna og umhverfið, nema í þeim tilvikum þar sem markmiðinu verður ekki náð með ráðstöfunum sem telja má eðlilegar miðað við aðstæður,
15.    „tillag frá náttúrulegum upptökum“: losun mengunarefna sem stafar hvorki beint né óbeint af mannavöldum, þ.m.t. vegna náttúruatburða á borð við eldgos, jarðskjálftavirkni, jarðvarmavirkni, óheftan eld á opnu landi, storma, særok eða flutning náttúrulegra agna frá þurrum svæðum,
16.    „svæði“: sá hluti yfirráðasvæðis tiltekins aðildarríkis sem það hefur afmarkað í þeim tilgangi að meta loftgæði og stjórna þeim,
17.    „þéttbýlisstaður“; svæði, þar sem er borgarþyrping með yfir 250 000 íbúum, eða, ef íbúar eru 250 000 eða færri, sá þéttleiki byggðar á hvern km 2 sem aðildarríkið ákvarðar.
18.    „PM 10 : efnisagnir, sem fara gegnum stærðarvalvíst inntak sem er skilgreint í tilvísunaraðferðinni fyrir sýnatöku og mælingar á PM 10, EN 12341, sem með 50% skilvirkni skilur frá efnisagnir sem hafa loftfræðilegt þvermál 10 .m,
19.    „PM 2,5 : efnisagnir, sem fara gegnum stærðarvalvíst inntak sem er skilgreint í tilvísunaraðferðinni fyrir sýnatöku og mælingar á PM 10, EN 14907, sem með 50% skilvirkni skilur frá efnisagnir sem hafa loftfræðilegt þvermál 10 .m,
20.    „meðalváhrifavísir“: meðalgildi sem er ákvarðað á grundvelli mælinga á bakgrunnsstöðum í borgum á öllu yfirráðasvæði aðildarríkis og endurspeglar váhrif á íbúa. Vísirinn er notaður til útreikninga á markmiðum aðildarríkisins um minnkun váhrifa og skuldbindingunni um styrk váhrifa,
21.    „skuldbinding um styrk váhrifa“: styrkur, sem er ákvarðaður á grundvelli meðalváhrifavísis með það fyrir augum að draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og sem skal nást á tilteknu tímabili,
22.    „landsbundin markmið um minnkun váhrifa“: hlutfallsleg minnkun meðalváhrifa fyrir íbúa aðildarríkis sem sett eru fyrir viðmiðunarárið með það fyrir augum að draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og sem skulu, ef mögulegt er, nást á tilteknu tímabili,
23.    „bakgrunnsstaðir í borg“: staðir á borgarsvæðum þar sem mengunarstyrkur er dæmigerður fyrir váhrif á almenna íbúa í borgum,
24.    „köfnunarefnisoxíð“: summan af rúmmálstengdu blöndunarhlutfalli (ppb v) milli köfnunarefniseinoxíðs og köfnunarefnistvíoxíðs, gefið upp sem einingar massastyrks köfnunarefnistvíoxíðs (.g/m 3),
25.    „fastar mælingar“: mælingar, sem gerðar eru á föstum stöðum, annaðhvort samfellt eða með slembisýnatöku, til ákvörðunar á mengunarstyrk í samræmi við viðkomandi markmið um gæði gagna,
26.    „leiðbeinandi mælingar“: mælingar sem uppfylla markmið um gæði gagna sem eru vægari en markmiðin sem krafist er fyrir fastar mælingar,
27.    „rokgjörn, lífræn efnasambönd“: öll lífræn efnasambönd sem eru manngerð eða af lífrænum uppruna, önnur en metan, og geta gefið af sér ljósoxandi efni við efnahvörf með köfnunarefnisoxíðum fyrir tilstilli sólarljóss,
28.    „forefni ósons“: efni sem stuðla að því að óson myndast við yfirborð jarðar, en nokkur þeirra eru tilgreind í X. viðauka.

3. gr.
Ábyrgðarsvið

Aðildarríkin skulu tilnefna lögbær yfirvöld og aðila á viðeigandi stigum sem skulu bera ábyrgð á eftirfarandi:
a)    að meta gæði andrúmslofts,
b)    að samþykkja mælikerfi (aðferðir, búnað, netkerfi og rannsóknarstofur),
c)    að tryggja mælinákvæmni,
d)    að greina matsaðferðir,
e)    að koma á samræmingu, hver á sínu yfirráðasvæði, ef gæðatryggingaráætlanir Bandalagsins hafa verið skipulagðar af framkvæmdastjórninni,
f)    að starfa með öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni.
Þar sem við á skulu lögbær yfirvöld og aðilar fara að C-þætti I. viðauka.

4. gr.
Fastsetning svæða og þéttbýlisstaða

Aðildarríkin skulu fastsetja svæði og þéttbýlisstaði á yfirráðasvæði sínu. Mat og stjórnun á loftgæðum skal fara fram á öllum svæðum og þéttbýlisstöðum.

II. KAFLI
MAT Á GÆÐUM ANDRÚMSLOFTS

1. ÞÁTTUR

Mat á gæðum andrúmslofts með tilliti til brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnistvíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, efnisagna, blýs, bensens og kolsýrings

5. gr.
Matsfyrirkomulag

1.     Efri og neðri viðmiðunarmörk mats, sem eru tilgreind í A-þætti II. viðauka, gilda fyrir brennisteinstvíoxíð, köfnunarefnistvíoxíð og köfnunarefnisoxíð, efnisagnir (PM 10 og PM 2,5), blý, bensen og kolsýring.
Öll svæði og þéttbýlisstaðir skulu flokkuð með tilliti til þessara viðmiðunarmarka mats.
2.     Flokkunin, sem um getur í 1. mgr., skal endurskoðuð á a.m.k. fimm ára fresti í samræmi við þær verklagsreglur sem mælt er fyrir um í B-þætti II. viðauka.
Flokkunin skal þó endurskoðuð oftar ef umtalsverðar breytingar verða á starfsemi sem hefur áhrif á styrk brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnistvíoxíðs, eða, ef við á, köfnunarefnisoxíða, efnisagna (PM 10, PM 2,5), blýs, bensens eða kolsýrings í andrúmslofti.

6. gr.
Matsviðmiðanir

1.     Aðildarríkin skulu meta gæði andrúmslofts að því er tekur til mengunarefna, sem um getur í 5. gr., á öllum svæðum sínum og þéttbýlisstöðum í samræmi við viðmiðanirnar, sem mælt er fyrir um í 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar, og í samræmi við viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í III. viðauka.
2.     Fastar mælingar skulu notaðar til að meta gæði andrúmslofts á öllum svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem styrkur mengunarefna, sem um getur í 1. mgr., fer yfir efri viðmiðunarmörk mats sem hafa verið ákvörðuð fyrir þau efni. Auk föstu mælinganna er heimilt að nota reiknilíkön og/eða leiðbeinandi mælingar til að afla fullnægjandi upplýsinga um landfræðilega skiptingu í tengslum við gæði andrúmslofts.
3.     Á öllum svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem styrkur mengunarefna, sem um getur í 1. mgr., er undir efri viðmiðunarmörkum mats sem ákvörðuð hafa verið fyrir þau mengunarefni, er heimilt að nota saman fastar mælingar og reiknilíkön og/eða leiðbeinandi mælingar til að meta gæði andrúmsloftsins.
4.     Á öllum svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem styrkur mengunarefna, sem um getur í 1. mgr., er undir neðri viðmiðunarmörkum mats sem ákvörðuð hafa verið fyrir þau mengunarefni, nægir að nota aðferðir, sem byggjast á reiknilíkönum eða hlutlægu mati eða hvoru tveggja, til að meta gæði andrúmsloftsins.
5.     Auk matsins, sem um getur í 2., 3. og 4. mgr., skulu mælingar gerðar á bakgrunnsstöðum í dreifbýli, þar sem ekki eru neinar umtalsverðar uppsprettur loftmengunar, til að fá að lágmarki upplýsingar um heildarmassastyrk og formgreiningu fíngerðra efnisagna (PM 2,5) og skulu mælingarnar fara fram samkvæmt eftirfarandi viðmiðunum:
a)    setja skal upp einn sýnatökustað fyrir hverja 100 000 km 2,
b)    hvert aðildarríki skal setja upp a.m.k. eina mælistöð eða setja upp, samkvæmt samkomulagi við samliggjandi aðildarríki, eina eða fleiri sameiginlegar mælistöðvar sem ná yfir viðkomandi, aðliggjandi svæði, til að ná þeirri staðupplausn sem nauðsynleg er,
c)    þar sem við á skal vöktunin vera í samræmi við vöktunaráætlun og mæliaðferðir Evrópuáætlunarinnar um vöktun og mat á mengunarefnum (EMEP),
d)    A- og C-þættir I. viðauka gilda í tengslum við gæðamarkmið gagna fyrir mælingar á massastyrk efnisagna og IV. viðauki gildir í heild sinni.
Aðildarríkin skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um mæliaðferðirnar sem notaðar eru til mælinga á efnasamsetningu fíngerðra efnisagna (PM 2,5).

7. gr.
Sýnatökustaðir

1.     Staðsetning sýnatökustaða fyrir mælingar á brennisteinstvíoxíði, köfnunarefnistvíoxíði og köfnunarefnisoxíðum, efnisögnum (PM 10, PM 2,5), blýi, benseni og kolsýringi í andrúmslofti skal ákvörðuð út frá viðmiðununum sem tilgreindar eru í III. viðauka.
2.     Á hverju svæði eða þéttbýlisstað, þar sem mat á loftgæðum byggist eingöngu á föstum mælingum, skulu sýnatökustaðir fyrir hvert viðkomandi mengunarefni ekki vera færri en nemur þeim lágmarksfjölda sýnatökustaða sem tilgreindur er í A-þætti V. viðauka.
3.     Heimilt er að nota 50% færri sýnatökustaði en tilgreint er í A-þætti V. viðauka á svæðum og þéttbýlisstöðum, ef til viðbótar upplýsingum frá sýnatökustöðum fyrir fastar mælingar liggja einnig fyrir upplýsingar frá reiknilíkönum og/eða leiðbeinandi mælingum, svo fremi:
a)    viðbótaraðferðirnar veiti nægilegar upplýsingar til að meta loftgæði með tilliti til viðmiðunarmarka eða viðvörunarmarka, sem og nægilegar upplýsingar fyrir almenning,
b)    fjöldi sýnatökustaða sem setja skal upp og staðupplausn annarra aðferða nægi til að ákvarða styrk viðkomandi mengunarefnis í samræmi við markmið um gæði gagna, sem tilgreind eru í A-þætti I. viðauka, og gefi þannig matsniðurstöður sem uppfylla viðmiðanirnar í B-þætti I. viðauka.
Taka skal tillit til niðurstaðna úr reiknilíkönum og/eða leiðbeinandi mælingum við mat á loftgæðum að því er varðar viðmiðunarmörkin.
4.     Framkvæmdastjórnin skal fylgjast með notkun aðildarríkjanna á viðmiðunum við val á sýnatökustöðum til að auðvelda samræmda beitingu þeirra viðmiðana í öllu Evrópusambandinu.

8. gr.


Tilvísunarmæliaðferðir


1.     Aðildarríkin skulu beita tilvísunarmæliaðferðum og viðmiðunum sem tilgreindar eru í A- og C-þætti VI. viðauka.
2.     Nota má aðrar mæliaðferðir með fyrirvara um þau skilyrði sem sett eru fram í B-þætti VI. viðauka.

2. ÞÁTTUR
Mat á gæðum andrúmslofts með tilliti til ósons
9. gr.
Matsviðmiðanir

1.     Fastar mælingar skulu gerðar á svæðum og þéttbýlisstöðum ef styrkur ósons er umfram langtímamarkmiðin sem tilgreind eru í C-þætti VII. viðauka á einhverju undangengnu fimm ára mælitímabili.
2.     Ef fyrirliggjandi gögn ná yfir færri ár en fimm mega aðildarríkin styðjast jafnt við niðurstöður úr stuttum mælingaherferðum frá þeim tíma og frá þeim stöðum, þar sem líklegast þykir að styrkur sé hæstur, og niðurstöður úr losunarskrám og reiknilíkönum til að ákvarða hvort hann hafi á þessum fimm árum farið yfir langtímamarkmiðin sem um getur í 1. mgr.

10. gr.
Sýnatökustaðir

1.     Staðsetning sýnatökustaða til mælinga á ósoni skal ákveðin út frá þeim viðmiðunum sem settar eru fram í VIII. viðauka.
2.     Sýnatökustaðir fyrir fastar mælingar á ósoni á hverju svæði eða þéttbýlisstað, þar sem mat á loftgæðum byggist eingöngu á föstum mælingum, skulu ekki vera færri en sá lágmarksfjöldi sýnatökustaða sem tilgreindur er í A-þætti IX. viðauka.
3.     Heimilt er að nota færri sýnatökustaði en tilgreint er í A-þætti IX. viðauka á svæðum og þéttbýlisstöðum, ef til viðbótar upplýsingum frá sýnatökustöðum fyrir fastar mælingar liggja einnig fyrir upplýsingar frá reiknilíkönum og/eða leiðbeinandi mælingum svo fremi eftirfarandi skilyrði hafi verið uppfyllt:
a)    viðbótaraðferðirnar veiti nægar upplýsingar fyrir mat á loftgæðum með tilliti til markgilda, langtímamarkmiða og upplýsinga- og viðvörunarmarka,
b)    fjöldi sýnatökustaða, sem setja skal upp, og staðupplausn annarra aðferða nægi til að ákvarða megi styrk ósons í samræmi við markmið um gæði gagna sem tilgreind eru í A-þætti I. viðauka, og gefi þannig matsniðurstöður sem uppfylla viðmiðanirnar í B-þætti I. viðauka,
c)    fjöldi sýnatökustaða á hverju svæði eða þéttbýlisstað svari a.m.k til þess að einn sýnatökustaður sé fyrir hverjar tvær milljónir íbúa eða að einn sýnatökustaður sé á hverjum 50 000 km 2, eftir því hvor aðferðin gefur fleiri sýnatökustaði, en þeir mega ekki vera færri en einn fyrir hvert svæði eða þéttbýlisstað,
d)    köfnunarefnistvíoxíð sé mælt á öllum sýnatökustöðum sem eftir eru, nema á bakgrunnstöðvum í dreifbýli eins og um getur í A-þætti VIII. viðauka.
Taka skal tillit til niðurstaðna úr reiknilíkönum og/eða leiðbeinandi mælingum við mat á loftgæðum að því er varðar markgildin.
4.     Mælingar á köfnunarefnistvíoxíði skulu fara fram á a.m.k. 50% þeirra sýnatökustaða fyrir óson sem krafist er skv. A-þætti IX. viðauka. Þær mælingar skulu vera samfelldar nema á bakgrunnsstöðvum í dreifbýli, eins og um getur í A-þætti VIII. viðauka, þar sem heimilt er að nota aðrar mæliaðferðir.
5.     Á svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem styrkurinn á hverju undangengnu fimm ára mælitímabili er undir gildunum sem sett eru í langtímamarkmiðunum, skal ákveða fjölda stöðva fyrir fastar mælingar í samræmi við B-þátt IX. viðauka.
6.     Hvert aðildarríki skal tryggja uppsetningu á a.m.k. einum sýnatökustað sé komið upp og að hann sé starfræktur á yfirráðasvæði þess til að afla gagna um styrk forefna ósons sem tilgreind eru í X. viðauka. Hvert aðildarríki skal velja fjölda og staði fyrir stöðvarnar þar sem mæla skal forefni ósons með tilliti til markmiðanna og aðferðanna sem mælt er fyrir um í X. viðauka.

11. gr.
Tilvísunarmæliaðferðir

1.     Aðildarríkin skulu beita tilvísunaraðferðinni við mælingar á ósoni sem sett er fram í 8. lið A-þáttar VI. viðauka. Nota má aðrar mæliaðferðir með fyrirvara um þau skilyrði sem sett eru fram í B-þætti VI. viðauka.
2.     Hvert aðildarríki skal upplýsa framkvæmdastjórnina um þær aðferðir sem það notaði við sýnatöku og mælingar á rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum sem tilgreind eru í X. viðauka.

III. KAFLI
STJÓRNUN Á LOFTGÆÐUM
12. gr.
Kröfur þar sem styrkur er undir viðmiðunarmörkum

Á svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem styrkur brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnistvíoxíðs, PM 10, PM 2,5, blýs, bensens og kolsýrings í andrúmslofti er undir þeim viðmiðunarmörkum sem tilgreind eru í XI. og XIV viðauka, skulu aðildarríkin halda styrk þessara mengunarefna undir viðmiðunarmörkunum og leitast við að halda sem mestum loftgæðum þannig að þau samræmist sjálfbærri þróun.

13. gr.
Viðmiðunarmörk og viðvörunarmörk vegna heilsuverndar manna

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að styrkur brennisteinstvíoxíðs, PM 10, blýs og kolsýrings á svæðum þeirra og þéttbýlisstöðum fari ekki yfir viðmiðunarmörkin sem mælt er fyrir um í XI. viðauka.
Ekki skal farið yfir viðmiðunarmörkin, sem tilgreind eru í XI. viðauka, að því er varðar köfnunarefnistvíoxíð og bensen, eftir þær dagsetningar sem tilgreindar eru þar.
Metið skal hvort farið er að þessum kröfum í samræmi við III. viðauka.
Vikmörkin, sem mælt er fyrir um í XI. viðauka, gilda í samræmi við 3. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 23. gr.
2.     Viðvörunarmörk fyrir styrk brennisteinstvíoxíðs og köfnunarefnistvíoxíðs í andrúmslofti eru þau sem mælt er fyrir um í A-þætti XII. viðauka.

14. gr.
Hættumörk

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að ekki sé farið yfir þau hættumörk sem eru tilgreind í XIII. viðauka í samræmi við matið í A-þætti III. viðauka.
2.     Þar sem mat á loftgæðum byggist eingöngu á föstum mælingum, skal fjöldi sýnatökustaða ekki vera minni en lágmarksfjöldinn sem tilgreindur er í C-þætti V. viðauka. Heimilt er að nota 50% færri sýnatökustaði þar sem einnig liggja fyrir upplýsingar frá leiðbeinandi mælingum eða reiknilíkönum, svo fremi að mat á styrk viðkomandi mengunarefnis verði ákvarðað í samræmi við markmið um gæði gagna sem tilgreind eru í A-þætti I. viðauka.

15. gr.
Landsbundin markmið um minnkun váhrifa frá PM2,5 vegna heilsuverndar manna

1.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir sem ekki hafa í för með sér óhóflegan kostnað til að draga úr váhrifum frá PM 2,5 með það í huga að ná markmiðum hvers aðildarríkis um minnkun váhrifa sem mælt er fyrir um í B-þætti XIV. viðauka fyrir það ár sem þar er tilgreint.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að meðalváhrifavísir fyrir árið 2015, sem er ákvarðaður í samræmi við A-þátt XIV. viðauka, verði ekki hærri en sem nemur skuldbindingu um styrk váhrifa sem mælt er fyrir um í C-þætti þess viðauka.
3.     Meðalváhrifavísir fyrir PM 2,5 skal metinn í samræmi við A-þátt XIV. viðauka.
4.     Í samræmi við III. viðauka skal hvert aðildarríki sjá til þess að dreifing og fjöldi sýnatökustaðanna, sem meðalváhrifavísir fyrir PM 2,5 er byggður á, endurspegli nægilega vel váhrifin á almenna íbúa. Sýnatökustaðir skulu ekki vera færri en fram kemur við beitingu B-þáttar V. viðauka.

16. gr.
Markgildi og viðmiðunargildi fyrir PM2,5 vegna heilsuverndar manna

1.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, sem ekki hafa í för með sér óhóflegan kostnað, til að sjá til þess að styrkur PM 2,5 í andrúmslofti fari ekki yfir markgildið sem mælt er fyrir um í D-þætti XIV. viðauka frá og með þeim dagsetningum sem tilgreindar eru þar.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að styrkur PM 2,5 í andrúmslofti á svæðum þeirra og þéttbýlisstöðum fari ekki yfir viðmiðunarmörkin sem mælt er fyrir um í E-þætti XIV. viðauka, með hliðsjón af þeim dagsetningum sem tilgreindar eru þar. Metið skal hvort farið er að þessari kröfu í samræmi við III. viðauka.
3.     Vikmörkin, sem mælt er fyrir um í E-þætti XIV. viðauka, gilda í samræmi við 1. mgr. 23. gr.

17. gr.
Kröfur á svæðum og þéttbýlisstöðum þar sem ósonstyrkur fer yfir markgildin og langtímamarkmiðin

1.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, sem ekki hafa í för með sér óhóflegan kostnað, til að sjá til þess að markgildin og langtímamarkmiðin náist.
2.     Á svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem farið er yfir markgildi, skulu aðildarríkin sjá til þess að farið sé eftir áætluninni sem undirbúin er samkvæmt 6. gr. tilskipunar 2001/81/EB, sem og áætlun um gæði andrúmslofts, ef við á, til að ná markgildunum frá og með þeim degi sem tilgreindur er í B-þætti VII. viðauka við þessa tilskipun, nema ef því verður ekki við komið með ráðstöfunum sem hafa ekki í för með sér óhóflegan kostnað.
3.     Á svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem ósonstyrkur í andrúmslofti er yfir langtímamarkmiðunum en undir eða jafn markgildunum, skulu aðildarríkin undirbúa og hrinda í framkvæmd kostnaðarhagkvæmum ráðstöfunum með það fyrir augum að ná langtímamarkmiðunum. Þær ráðstafanir skulu vera a.m.k. í samræmi við allar áætlanir um loftgæði og áætlunina sem um getur í 2. mgr.

18. gr.
Kröfur á svæðum og þéttbýlisstöðum þar sem ósonstyrkur er í samræmi við langtímamarkmiðin

Á svæðum og þéttbýlisstöðum, þar sem styrkur ósons er í samræmi við langtímamarkmiðin, skulu aðildarríkin halda styrknum lægri en kemur fram í þeim markmiðum, ef þættir á borð við það eðli ósonmengunar að berast yfir landamæri og veðurskilyrði leyfa, og viðhalda með viðeigandi ráðstöfunum bestu loftgæðum þannig að samrýmist sjálfbærri þróun og jafnframt viðhalda víðtækri umhverfis- og heilsuvernd.

19. gr.
Ráðstafanir sem grípa skal til ef farið er yfir upplýsingamörk eða viðvörunarmörk

Ef farið er yfir upplýsingamörkin, sem eru tilgreind í XII. viðauka, eða einhver af viðvörunarmörkunum, sem mælt er fyrir um þar, skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að upplýsa almenning og nota til þess útvarp, sjónvarp, dagblöð eða Netið.
Aðildarríkin skulu einnig til bráðabirgða senda framkvæmdastjórninni upplýsingar um skráðan styrk mengunarefna og hve lengi hann var umfram viðvörunarmörkin eða upplýsingamörkin.

20. gr.
Tillag frá náttúrulegum upptökum

1.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skrár yfir svæði og þéttbýlisstaði fyrir tiltekið ár þar sem rekja má það til náttúrulegra upptaka ef farið er yfir viðmiðunarmörk fyrir tiltekið mengunarefni. Aðildarríkin skulu veita upplýsingar um styrk og upptök og gögn sem staðfesta að rekja megi það til náttúrulegra upptaka að farið sé yfir mörkin.
2.     Ef framkvæmdastjórnin hefur verið upplýst um að rekja megi það til náttúrulegra upptaka að farið sé umfram mörk, í samræmi við 1. mgr., skal ekki litið svo á í þessari tilskipun að farið hafi verið umfram þau mörk.
3.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 11. júní 2010, birta leiðbeiningar um hvernig sýna skal fram á að rekja megi til náttúrulegra upptaka að farið sé yfir mörk og hvernig það er dregið frá.

21. gr.
Þegar farið er yfir mörk vegna sandburðar og söltunar á vegum að vetrarlagi

1.     Aðildarríkin geta tilgreint svæði eða þéttbýlisstaði þar sem farið er yfir viðmiðunarmörkin fyrir PM 10 vegna þess að agnir þyrlast upp í kjölfar sandburðar og söltunar vega.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skrá yfir öll slík svæði eða þéttbýlisstaði ásamt upplýsingum um styrk og upptök PM 10 sem þar er að finna.
3.     Þegar aðildarríkin upplýsa framkvæmdastjórnina um þetta í samræmi við 27. gr. skulu þau leggja fram nauðsynleg gögn því til sönnunar að í öllum tilvikum, þar sem farið er yfir mörkin, sé það vegna uppþyrlunar agna og að gripið hafi verið til eðlilegra ráðstafana til að draga úr styrk þeirra.
4.     Með fyrirvara um 20. gr. þurfa aðildarríkin eingöngu að koma á fót áætluninni um loftgæði, sem kveðið er á um í 23. gr., fyrir svæði og þéttbýlisstaði, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, ef farið er yfir mörk vegna annarra upptaka á PM 10 en sandburðar og söltunar vega að vetrarlagi.
5.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 11. júní 2010, birta leiðbeiningar um hvernig ákvarða skal tillag frá uppþyrlun agna í kjölfar sandburðar og söltunar vega að vetrarlagi.

22. gr.


Frestun á eindögum til að uppfylla skylduna til að beita tilteknum viðmiðunarmörkum og undanþága frá henni

1.     Ef viðmiðunarmörk fyrir köfnunarefnistvíoxíð eða bensen nást ekki innan þeirra eindaga sem tilgreindir eru í XI. viðauka fyrir tiltekið svæði eða þéttbýlisstað mega aðildarríkin fresta þeim eindögum að hámarki í fimm ár fyrir það tiltekna svæði eða þéttbýlisstað, að því tilskildu að áætlun um loftgæði hafi verið sett fram í samræmi við 23. gr. fyrir svæðið eða þéttbýlisstaðinn, sem frestunin gildir fyrir, en áætluninni um loftgæði skulu fylgja upplýsingarnar sem tilgreindar eru í B-þætti XV. viðauka í tengslum við viðkomandi mengunarefni og þær skulu sýna fram á hvernig viðmiðunarmörkunum verður náð fyrir nýja eindagann.
2.     Ef viðmiðunarmörk fyrir PM 10, sem eru tilgreind í XI. viðauka, nást ekki á tilteknu svæði eða þéttbýlisstað, vegna staðarsértækra dreifingareiginkenna, óhagstæðra veðurfarsskilyrða eða tillags sem berst yfir landamæri, skal aðildarríki undanþegið þeirri skyldu að beita þessum viðmiðunarmörkum þar til 11. júní 2011, að því tilskildu að skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., hafi verið uppfyllt og að aðildarríkið sýni fram á að allar viðeigandi ráðstafanir til að virða eindagana hafi verið gerðar á lands-, svæðis- og staðarvísu.
3.     Ef aðildarríki beitir 1. eða 2. mgr. skal það tryggja að ekki sé farið meira yfir viðmiðunarmörkin fyrir hvert mengunarefni en sem nemur hámarksvikmörkunum, sem eru tilgreind í XI. viðauka, fyrir hvert viðkomandi mengunarefni.
4.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um það ef þau telja að beita megi 1. eða 2. mgr. og koma á framfæri áætluninni um loftgæði sem um getur í 1. mgr., þ.m.t. allar upplýsingar sem skipta máli og eru framkvæmdastjórninni nauðsynlegar við mat á því hvort viðkomandi skilyrði hafi verið uppfyllt. Í mati sínu skal framkvæmdastjórnin taka tillit til áætlaðra áhrifa á gæði andrúmslofts í aðildarríkjunum, nú og í framtíðinni, til ráðstafana sem aðildarríkin hafa gert sem og áætlaðra áhrifa núverandi ráðstafana Bandalagsins á gæði andrúmslofts og þeirra áætluðu ráðstafana Bandalagsins sem framkvæmdastjórnin mun leggja til.
Ef framkvæmdastjórnin hreyfir engum andmælum við tilkynningunni innan 9 mánaða frá því hún berst teljast viðeigandi skilyrði fyrir beitingu 1. eða 2. mgr. hafa verið uppfyllt.
Ef andmæli eru borin fram getur framkvæmdastjórnin krafist þess að aðildarríkin lagfæri áætlanirnar um loftgæði eða leggi nýjar fram.

IV. KAFLI
ÁÆTLANIR
23. gr.
Áætlanir um loftgæði

1.     Ef styrkur mengunarefna í andrúmslofti á tilteknum svæðum eða þéttbýlisstöðum fer yfir einhver viðmiðunarmörk eða markgildi, svo og einhver viðkomandi vikmörk í hverju tilviki um sig, skulu aðildarríkin sjá til þess að áætlanir um loftgæði séu lagðar fram fyrir þau svæði og þéttbýlisstaði svo að ná megi viðkomandi viðmiðunarmörkum eða markgildum sem tilgreind eru í XI. og XIV. viðauka.
Ef farið er yfir þau viðmiðunarmörk sem fenginn var frestur til að ná og sá frestur hefur þegar runnið út skal setja fram í áætluninni um loftgæði viðeigandi ráðstafanir til þess að það tímabil, þar sem farið er yfir mörkin, verði sem styst. Í áætlununum um loftgæði mega auk þess vera tilteknar ráðstafanir sem miðast að því að vernda viðkvæma hópa fólks, m.a. börn.
Upplýsingarnar, sem tilgreindar eru í A-þætti XV. viðauka, skulu felldar inn í áætlanirnar um loftgæði og í áætlununum mega einnig felast ráðstafanir skv. 24. gr. Koma skal áætlununum á framfæri við framkvæmdastjórnina án tafar en eigi síðar en tveimur árum eftir lok ársins þegar fyrst var farið yfir mörkin.
Þegar undirbúa þarf áætlanir um loftgæði eða hrinda þeim í framkvæmd fyrir nokkur mengunarefni skulu aðildarríkin, eftir atvikum, undirbúa og hrinda í framkvæmd samþættum áætlunum um loftgæði sem taka til allra viðkomandi mengunarefna.
2.     Að því marki sem það er gerlegt skulu aðildarríkin tryggja samkvæmni við aðrar áætlanir sem krafist er samkvæmt tilskipun 2001/80/EB, tilskipun 2001/81/EB eða tilskipun 2002/49/EB til að ná viðkomandi umhverfismarkmiðum.

24. gr.


Aðgerðaáætlanir til skamms tíma

1.     Ef sú áhætta er fyrir hendi að styrkur mengunarefna fari yfir eitt eða fleiri viðvörunarmarkanna, sem tilgreind eru í XII. viðauka, á tilteknu svæði eða þéttbýlisstað skulu aðildarríkin gera aðgerðaráætlanir þar sem fram kemur til hvaða skammtímaráðstafana verður gripið til að draga úr þeirri áhættu eða stytta tímann sem farið er yfir mörkin. Ef áhættan á við um eitt eða fleiri viðmiðunarmörk eða markgildi, sem tiltekin eru í VII., XI. og XIV. viðauka, mega aðildarríkin, eftir því sem við á, gera slíkar aðgerðaráætlanir til skamms tíma.
Ef sú áhætta er fyrir hendi að farið verði yfir þau viðvörunarmörk ósons, sem tilgreind eru í B-þætti XII. viðauka, skulu aðildarríkin þó aðeins gera slíkar aðgerðaáætlanir til skamms tíma ef þau telja veruleg tök á því, að teknu tilliti til landfræðilegra, veðurfræðilegra og efnahagslegra skilyrða í hverju landi um sig, að draga úr áhættunni og því hversu mikið og lengi farið er yfir mörkin. Aðildarríkin skulu hafa hliðsjón af ákvörðun 2004/279/EB þegar þau gera aðgerðaráætlun til skamms tíma.
2.     Aðgerðaráætlanirnar til skamms tíma, sem um getur í 1. mgr., geta, eftir því sem við á í hverju tilviki, tekið til skilvirkra ráðstafana til að stýra starfsemi sem stuðlar að þeirri áhættu að farið sé yfir viðkomandi viðmiðunarmörk eða markgildi eða yfir viðvörunarmörkin og stöðva hana ef nauðsyn krefur. Í þessum aðgerðaráætlunum geta falist ráðstafanir vegna umferðar vélknúinna ökutækja, byggingarframkvæmda, skipa sem liggja við bryggju og starfsemi iðjuvera eða notkun iðnaðarvara, svo og húshitunar. Einnig má taka til athugunar sértækar aðgerðir sem miða að því að vernda viðkvæma hópa, m.a. börn, innan ramma þessara áætlana.
3.     Þegar aðildarríkin hafa samið aðgerðaáætlanir til skamms tíma skal niðurstöðum rannsókna á þeirra vegum á raunhæfni og inntaki sértækra aðgerðaáætlana til skamms tíma, og einnig upplýsingum um framkvæmd þessara áætlana, komið á framfæri við almenning og viðeigandi samtök, s.s. umhverfissamtök, neytendasamtök og samtök, sem annast hagsmuni viðkvæmra hópa fólks, aðra viðeigandi aðila á sviði heilsugæslu og viðkomandi samtök atvinnuvega.
4.     Framkvæmdastjórnin skal birta dæmi um bestu starfsvenjur við gerð aðgerðaáætlana til skamms tíma, þ.m.t. dæmi um bestu starfsvenjur til verndar viðkvæmum hópum, þ.m.t. börn, í fyrsta sinn fyrir 11. júní 2010 og eftir það með reglulegu millibili.

25. gr.

Loftmengun sem berst yfir landamæri

1.     Ef umtalsverður flutningur yfir landamæri á sér stað á loftmengunarefnum eða forefnum þeirra og veldur því að farið er yfir einhver viðvörunarmörk, viðmiðunarmörk eða markgildi, svo og viðkomandi vikmörk eða langtímamarkmið, skulu viðkomandi aðildarríki vinna saman og, eftir atvikum, semja um sameiginleg verkefni, t.d. undirbúning á sameiginlegum eða samræmdum áætlunum um loftgæði skv. 23. gr. til að koma í veg fyrir að farið sé á þennan hátt yfir mörk með því að beita viðeigandi ráðstöfunum sem teljast eðlilegar miðað við aðstæður.
2.     Bjóða skal framkvæmdastjórninni að koma að málinu og að veita aðstoð í samstarfinu sem um getur í 1. mgr. Framkvæmdastjórnin skal, eftir atvikum og með tilliti til skýrslugjafarinnar sem var komið á með 9. gr. tilskipunar 2001/81/EB, vega og meta hvort grípa skuli til frekari aðgerða á vettvangi Bandalagsins til að draga úr losun forefna sem valda mengun sem berst yfir landamæri.
3.     Aðildarríkin skulu, ef við á skv. 24. gr., undirbúa og hrinda í framkvæmd sameiginlegum aðgerðaáætlunum til skamms tíma sem taka til aðliggjandi svæða í öðrum aðildarríkjum. Aðildarríkin skulu sjá til þess að allar viðeigandi upplýsingar berist til aðliggjandi svæða annarra aðildarríkja þar sem aðgerðaáætlanir hafa verið gerðar til skamms tíma.
4.     Ef farið er yfir upplýsingamörk eða viðvörunarmörk á svæðum eða þéttbýlisstöðum, sem eru nálægt landamærum, skulu lögbær yfirvöld í viðkomandi aðliggjandi aðildarríkjum fá upplýsingar um það svo fljótt sem við verður komið. Þær upplýsingar skulu enn fremur vera tiltækar almenningi.
5.     Við gerð áætlana, sem kveðið er á um í 1. og 3. mgr., og við upplýsingagjöf til almennings, sem um getur í 4. mgr., skulu aðildarríkin leita eftir samstarfi við þriðju lönd eftir því sem við á, einkum umsóknarlöndin.

V. KAFLI
UPPLÝSINGAR OG SKÝRSLUGJÖF
26. gr.
Upplýsingar til almennings

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að almenningur og viðeigandi samtök, s.s. umhverfissamtök, neytendasamtök, samtök sem annast hagsmuni viðkvæmra hópa fólks, aðrir viðeigandi aðilar á sviði heilsugæslu og viðkomandi samtök iðnaðarins, fái nægar upplýsingar og með góðum fyrirvara um eftirfarandi:
a)    gæði andrúmslofts, í samræmi við XVI. viðauka,
b)    allar ákvarðanir um frestun, skv. 1. mgr. 22. gr.,
c)    allar undanþágur, skv. 2. mgr. 22. gr.,
d)    áætlanir um loftgæði, sem kveðið er á um í 1. mgr. 22. gr. og 23. gr., og áætlanir sem um getur í 2. mgr. 17. gr.
Upplýsingarnar skulu vera aðgengilegar endurgjaldslaust í hverjum þeim fjölmiðli sem auðvelt er að nálgast, þ.m.t. á Netinu eða með öðrum viðeigandi fjarskiptaaðferðum, og skal taka tillit til ákvæðanna sem mælt er fyrir um í tilskipun 2007/2/EB.
2.     Aðildarríkin skulu veita almenningi aðgang að ársskýrslum um öll mengunarefni sem falla undir þessa tilskipun.
Í þeim skýrslum skulu tekin saman tilvik þar sem styrkur fór yfir viðmiðunarmörk, markgildi, langtímamarkmið, upplýsingamörk og viðvörunarmörk á viðkomandi meðaltímabilum. Þeim upplýsingum skal fylgja matssamantekt á áhrifum þess að farið var yfir mörkin í þessum tilvikum. Skýrslunum mega fylgja, eftir atvikum, frekari upplýsingar um skógvernd og mat á henni, sem og upplýsingar um önnur mengunarefni sem um eru tiltekin vöktunarákvæði í þessari tilskipun, m.a. valin forefni ósons sem eru ekki eftirlitsskyld og eru tilgreind í B-þætti X. viðauka.
3.     Aðildarríkin skulu upplýsa almenning um lögbæra yfirvaldið eða aðilann sem er tilnefndur í tengslum við verkefnin sem um getur í 3. gr.

27. gr.
Upplýsingasending og skýrslugjöf

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framkvæmdastjórnin fái aðgang að upplýsingum um gæði andrúmslofts innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í framkvæmdarráðstöfununum sem um getur í 2. mgr. 28. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal fá aðgang að þessum upplýsingum eigi síðar en níu mánuðum eftir lok hvers árs í þeim sértæka tilgangi að meta hvort viðmiðunarmörk og hættumörk hafi verið virt og markgildum náð og þar skulu koma fram:
a)    breytingar, sem gerðar hafa verið á því ári á skránni yfir svæði og þéttbýlisstaði og afmörkun þeirra skv. 4. gr.,
b)    skráin yfir svæði og þéttbýlisstaði þar sem styrkur eins eða fleiri mengunarefna er hærri en viðmiðunarmörkin að viðbættum vikmörkum, þar sem það á við, eða hærri en markgildi eða hættumörk; og fyrir þau svæði og þéttbýlisstaði:
        i.    mat á þeim styrk og, ef það skiptir máli, dagsetningarnar og tímabilin þegar sá styrkur mældist,
        ii.    ef við á, mat á tillagi frá náttúrulegum upptökum og vegna uppþyrlunar efnisagna eftir sandburð og söltun á vegum að veturlagi í þeim styrk sem metinn var og gefinn var framkvæmdastjórninni upp skv. 20. og 21. gr.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um upplýsingar sem er aflað frá byrjun annars almanaksárs eftir gildistöku þeirra framkvæmdarráðstafana sem um getur í 2. mgr. 28. gr.

28. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, þ.e.a.s. I. til VI. viðauka, VIII. til X. viðauka og XV. viðauka, í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 29. gr.
Breytingarnar mega þó ekki verða til þess að breyta, beint eða óbeint, öðru hvoru af eftirfarandi:
a)    viðmiðunarmörkum, markmiðum um minnkun váhrifa, hættumörkum, markgildum, upplýsinga- eða viðvörunarmörkum eða langtímamarkmiðum, sem eru tilgreind í VII. viðauka og XI. til XIV. viðauka, eða
b)    dagsetningum sem tilgreindar eru til að fara að ákvæðum varðandi einhvern þeirra þátta sem um getur í a-lið.
2.     Í samræmi við reglunefndarmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 29. gr., skal framkvæmdastjórnin ákveða að hvaða viðbótarupplýsingum aðildarríkin skulu fá aðgang skv. 27. gr., sem og innan hvaða tímamarka þeim upplýsingum skal komið á framfæri.
Framkvæmdastjórnin skal einnig tilgreina aðferðir til hagræðis við framlagningu gagna og gagnkvæm skipti á upplýsingum og gögnum frá netkerfum og einstökum stöðvum sem mæla loftmengun í aðildarríkjunum, í samræmi við reglunefndarmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 29. gr.
3.     Framkvæmdastjórnin skal semja leiðbeiningar fyrir samninga um uppsetningu sameiginlegra mælistöðva sem um getur í 5. mgr. 6. gr.
4.     Framkvæmdastjórnin skal birta leiðbeiningar um staðfestingu á jafngildi sem um getur í B-þætti VI. viðauka.

VI. KAFLI

NEFNDA-, UMBREYTINGAR- OG LOKAÁKVÆÐI
29. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar er kallast „nefndin um gæði andrúmslofts“.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/ 468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

30. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn landsákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá til þess að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í eðlilegu samræmi við brotin og hafa letjandi áhrif.

31. gr.
Niðurfelling og bráðabirgðaákvæði

1.     Tilskipanir 96/62/EB, 1999/30/EB, 2000/69/EB og 2002/3/EB eru felldar úr gildi frá og með 11. júní 2010, með fyrirvara um skyldur aðildarríkjanna að því er varðar fresti til lögleiðingar eða beitingar þessara tilskipana.
Hins vegar gildir eftirfarandi frá 11. júní 2008:
a)    Í stað 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 96/62/EB komi eftirfarandi:
„1. Einstök atriði þess fyrirkomulags, sem er á miðlun upplýsinganna sem veita skal skv. 11. gr., skulu samþykkt í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr.“
b)    Í tilskipun 1999/30/EB fellur brott 7. mgr. 7. gr., 1. neðanmálsmálsgrein í I. lið VIII. viðauka og VI. liður IX. viðauka.
c)    Í tilskipun 2000/69/EB falla brott 7. mgr. 5. gr. og III. liður VII. viðauka.
d)    Í tilskipun 2002/3/EB falla brott 5. mgr. 9. gr. og II. liður VIII. viðauka.

2.     Þrátt fyrir fyrstu undirgrein 1. mgr. haldast eftirfarandi greinar í gildi:
a)    5. gr. tilskipunar 96/62/EB til 31. desember 2010,
b)    1. mgr. 11. gr. tilskipunar 96/62/EB og 1.–3. mgr. 10. gr. tilskipunar 2002/3/EB til loka annars almanaksárs eftir gildistöku þeirra framkvæmdarráðstafana sem um getur í 2. mgr. 28. gr. þessarar tilskipunar,
c)    3. og 4. mgr. 9. gr. tilskipunar 1999/30/EB til 31. desember 2009.
3.     Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipanirnar sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í XVII viðauka.
4.     Ákvörðun 97/101/EB er felld úr gildi frá og með lokum annars almanaksárs eftir gildistöku þeirra framkvæmdarráðstafana sem um getur í 2. mgr. 28. gr. þessarar tilskipunar.
Þó skal fella úr gildi 3.–5. undirlið 7. gr. ákvörðunar 97/101/EB frá og með 11. júní 2008.

32. gr.
Endurskoðun

1.     Árið 2013 skal framkvæmdastjórnin endurskoða ákvæðin varðandi PM 2,5 og önnur mengunarefni, eftir atvikum, og leggja tillögu fyrir Evrópuþingið og ráðið.
Að því er varðar PM 2,5 skal endurskoðunin gerð með það í huga að komið verði á fót lagalega bindandi landsskuldbindingu um minnkun váhrifa sem kemur í stað markmiða hvers lands um sig varðandi minnkun váhrifa og að endurskoða skuldbindinguna um styrk váhrifa sem mælt er fyrir um í 15. gr., m.a. að teknu tilliti til eftirfarandi þátta:
          nýjustu vísindalegra upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og öðrum stofnunum sem málið varðar,
          aðstæðna varðandi gæði andrúmslofts og möguleika á að draga úr losun í aðildarríkjunum,
          endurskoðunar á tilskipun 2001/81/EB,
          árangurs af framkvæmd ráðstafana Bandalagsins til að draga úr styrkloftmengunarefna.
2.     Framkvæmdastjórnin skal vega og meta möguleikana á því að samþykkja metnaðarfyllri viðmiðunarmörk fyrir PM 2,5 , hún skal endurskoða leiðbeinandi viðmiðunarmörk annars áfanga fyrir PM 2,5 og vega og meta hvort staðfesta skuli þau mörk eða breyta þeim.

3.     Það skal vera hluti af endurskoðuninni að framkvæmdastjórnin taki einnig saman skýrslu um reynsluna af vöktun á PM 10 og PM 2,5 og um nauðsyn þeirrar vöktunar, með hliðsjón af tæknilegum framförum í sjálfvirkum mæliaðferðum. Leggja skal til nýjar tilvísunaraðferðir fyrir PM 10 og PM 2,5 , ef við á.

33. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 11. júní 2010. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu þó sjá til þess að fullnægjandi fjöldi bakgrunnsmælistöðva fyrir PM 2,5 sé settur upp í borgum eigi síðar en 1. janúar 2009 til að reikna megi út meðalváhrifavísinn, í samræmi við B-þátt V. viðauka, og til að standa við tímamörkin og uppfylla skilyrðin sem tilgreind eru í A-þætti XIV. viðauka.
3.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

34. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

35. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J. LENARCIC
forseti. forseti.

——

I. VIÐAUKI

MARKMIÐ UM GÆÐI GAGNA


A.     Markmið um gæði gagna fyrir mat á gæðum andrúmslofts

Brennisteinstvíoxíð, köfnunarefnistvíoxíð og köfnunarefnisoxíð og kolsýringur Bensen Agnir (PM10/PM2,5) og blý Óson og tilheyrandi NO og NO2
Fastar mælingar (1)
Óvissa 15% 25% 25% 15%
Lágmarksgagnaöflun 90% 90% 90% 90% að sumarlagi 75% að vetrarlagi
Lágmarkstímalengd:
— borgarbakgrunnur og umferðarsvæði 35% (2)
— iðnaðarsvæði 90%
Leiðbeinandi mælingar
Óvissa 25% 30% 50% 30%
Lágmarksgagnaöflun 90% 90% 90% 90%
Lágmarkstímalengd 14% (4) 14% (3) 14% (4 ) > 10% að sumarlagi
Óvissa tengd reiknilíkani
Á klukkustund 50% 50%
Átta stunda meðaltal 50% 50%
Dagsmeðaltal 50% enn ekki skilgreint
Ársmeðaltal 30% 50% 50%
Hlutlægt mat Óvissa 75% 100% 100% 75%
(1 )    Aðildarríkjunum er heimilt að beita slembimælingum í stað samfelldra mælinga fyrir bensen, blý og efnisagnir, að því tilskildu að þau geti sýnt framkvæmdastjórninni fram á að óvissan, m.a. sú óvissa sem hlýst af slembisýnatöku, uppfylli 25% gæðamarkmiðið og að tíminn sé lengri en lágmarkstímalengd fyrir leiðbeinandi mælingar. Slembisýnatakan verður að dreifast jafnt yfir árið svo forðast megi skekkjur í niðurstöðum. Óvissuna vegna slembisýnatöku má ákvarða með aðferðinni sem mælt er fyrir um í ISO 11222 (2002) „Air quality – Determination of the Uncertainty of the Time Average of Air Quality Measurements“. Ef slembimælingar eru notaðar til að meta kröfurnar í tengslum við viðmiðunarmörk fyrir PM10 skal 90,4 hundraðshlutamarkið (sem skal vera minna en eða jafnt og 50 .g/m3) metið í stað fjölda tilvika þegar farið var yfir mörk, en gagnaþekja hefur mikil áhrif á fjölda tilvikanna.
(2 )    Dreift yfir árið til að gefa dæmigerða mynd af mismunandi skilyrðum sem tengjast veðurfari og umferð.
(3 )    Ein mæling vikulega af handahófi, dreift jafnt yfir árið, eða 8 vikur sem er dreift jafnt yfir árið.
(4 )    Ein mæling vikulega af handahófi, dreift jafnt yfir árið, eða 8 vikur sem er dreift jafnt yfir árið.

Óvissan (gefin upp með 95% öryggisbili) í matsaðferðunum verður metin í samræmi við meginreglurnar í leiðbeiningum Staðlasamtaka Evrópu um mælióvissu (e. Guide to the expression of uncertainty in measurement) (ENV 13005-1999), aðferðirnar í ISO-staðli 5725:1994 og leiðbeiningarnar í skýrslu Staðlasamtaka Evrópu, „Air quality – Approach to uncertainty estimation for ambient air reference measurement methods“ (CR 14377:2002E). Hundraðshlutatölurnar yfir óvissu í töflunni hér að framan eru gefnar upp sem meðalgildi fyrir einstakar mælingar á tímabilinu sem viðmiðunarmörkin miðast við (eða markgildið, ef um óson er að ræða), með öryggisbilinu 95%. Túlka ber óvissu í föstum mælingum þannig að hún gildi á svæði viðkomandi viðmiðunarmarka (eða markgildis, ef um óson er að ræða).

Óvissan í reiknilíkaninu er skilgreind sem hámarksfrávik mælds og reiknaðs styrks fyrir 90% af einstökum vöktunarstöðum á tímabilinu sem viðmiðunarmörkin miðast við (eða markgildin, ef um óson er að ræða), án tillits til tímasetningar atburðanna. Túlka skal óvissuna í reiknilíkaninu þannig að hún gildi á svæði viðkomandi viðmiðunarmarka (eða markgildis, ef um óson er að ræða). Föstu mælingarnar, sem velja þarf til samanburðar við niðurstöður úr reiknilíkaninu, skulu vera dæmigerðar fyrir þann kvarða sem reiknilíkanið spannar.

Óvissan í hlutlægu mati er skilgreind sem hámarksfrávik mælds og reiknaðs styrks á tímabilinu sem viðmiðunarmörkin miðast við (eða markgildin, ef um óson er að ræða), án tillits til tímasetningar atburðanna.

Kröfur um lágmarksgagnaöflun og lágmarkstímalengd ná ekki til gagna sem glatast vegna reglulegrar kvörðunar eða eðlilegs viðhalds tækjabúnaðarins.

B.     Niðurstöður úr mati á loftgæðum

Eftirfarandi upplýsingar skulu teknar saman fyrir svæði eða þéttbýlisstaði þar sem aukið er við mæligögn með upplýsingum, fengnum með öðrum hætti en með mælingum, eða þar sem slíkar upplýsingar eru þær einu sem stuðst er við í mati á loftgæðum:
—    lýsing á því mati sem unnið er,
—    þær sérstöku aðferðir, sem eru notaðar, ásamt tilvísun í lýsingu á hverri aðferð,
—    hvaðan gögn og upplýsingar eru fengin,
—    lýsing á niðurstöðum, þ. á m. á óvissu, og einkum lýsing á umfangi hvers svæðis eða, ef máli skiptir, lengd vegar innan svæðisins eða þéttbýlisstaðarins þar sem styrkur fer yfir einhver viðmiðunarmörk, markgildi eða langtímamarkmið auk vikmarka, ef við á, og lýsing á hverju svæði þar sem styrkurinn fer yfir efri eða neðri viðmiðunarmörk mats,
—    íbúar sem geta orðið fyrir váhrifum ef styrkur fer yfir tiltekin viðmiðunarmörk fyrir heilsuvernd manna.

C.     Gæðatrygging mats á gæðum andrúmslofts: fullgilding gagna
    1.    Til að tryggja mælinákvæmni og að farið sé að markmiðum um gæði gagna, sem mælt er fyrir í A- þætti, skulu lögbær yfirvöld og stofnanir, sem tilnefnd eru skv. 3. gr., tryggja eftirfarandi:
        —      að allar mælingar, sem gerðar eru vegna mats á loftgæðum skv. 6. og 9. gr., séu rekjanlegar í samræmi við kröfurnar sem settar eru fram í lið 5.6.2.2 í ISO/IEC 17025:2005,
        —     að stofnanir, sem starfrækja net mælistöðva eða stakar mælistöðvar, noti gæðatryggingu og gæðastýringarkerfi þar sem kveðið er á um reglulegt viðhald til að tryggja nákvæmni mælibúnaðarins.
        —     að gæðatryggingu/gæðastýringu sé komið á vegna gagnaöflunar og skýrslugjafar og að stofnanirnar, sem tilnefndar eru fyrir það verkefni, taki virkan þátt í tengdum gæðatryggingaáætlunum alls staðar í Bandalaginu,
        —      að rannsóknarstofurnar í hverju landi um sig, sem tilnefndar eru af viðeigandi lögbæru yfirvaldi eða aðila, sem er tilnefndur til þess skv. 3. gr., sem taka þátt í samanburðarprófun alls staðar í Bandalaginu á mengunarefnum, sem þessi tilskipun tekur til, hafi fengið faggildingu samkvæmt EN/ISO 17025 eigi síðar en 2010 fyrir tilvísunaraðferðirnar sem um getur í VI. viðauka. Þessar rannsóknarstofur skulu eiga þátt í samræmingu á gæðatryggingaráætlun á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sem verður skipulögð af hálfu framkvæmdastjórninnar og gildir alls staðar í Bandalaginu, og skulu þær einnig samræma á landsvísu viðeigandi notkun tilvísunaraðferða og sannprófun á jafngildi aðferða sem eru ekki tilvísunaraðferðir.
    2.    Öll gögn, sem gefin er skýrsla um skv. 27. gr., teljast gild, nema þau sem eru merkt sem bráðabirgðagögn.

——Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


YFIRLÝSING FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR


Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna tekur tillit til texta tilskipunarinnar um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu sem ráðið og Evrópuþingið hafa samþykkt. Framkvæmdastjórnin tekur sérstakt tillit til þeirrar áherslu sem Evrópuþingið og aðildarríkin leggja á ráðstafanir Bandalagsins til að draga úr losun loftmengunarefna við upptök, sbr. 4. mgr. 22. gr. og 16. forsendu.

Framkvæmdastjórnin viðurkennir þörfina á að draga úr losun á skaðlegum loftmengunarefnum ef umtalsverðar framfarir eiga að verða í þá átt að ná þeim markmiðum sem fastsett voru í sjöttu aðgerðaáætluninni á sviði umhverfismála. Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar er varðar þemaáætlun um loftmengun er settur fram umtalsverður fjöldi hugsanlegra ráðstafana Bandalagsins. Umtalsverður árangur hefur náðst með þeim og öðrum ráðstöfunum síðan þemaáætlunin var samþykkt:

–    ráðið og þingið hafa þegar samþykkt nýja löggjöf sem takmarkar losun vegna útblásturs frá léttum ökutækjum,

    framkvæmdastjórnin hefur samþykkt tillögu að nýrri löggjöf til að auka skilvirkni löggjafar Bandalagsins um losun vegna iðnaðar, þ.m.t. þéttbærar landbúnaðarstöðvar, og ráðstafanir til að takast á við losun vegna brennslu frá smærri iðnaðarupptökum,

    framkvæmdastjórnin hefur samþykkt tillögu að nýrri löggjöf um takmörkun á losun með útblæstri úr hreyflum þungra ökutækja.

    Framkvæmdastjórnin hefur áform um tillögur að nýrri löggjöf árið 2008 sem myndu hafa í för með sér:

    –     enn frekari minnkun á leyfilegri, landsbundinni losun aðildarríkjanna,
    
    –     að dregið verði úr losun sem verður við áfyllingu bensínbíla á bensínstöðvum,
    
    –     að strangari reglur verði settar um brennisteinsinnihald eldsneytis, þ.m.t. skipaeldsneyti.

    Einnig er hafin undirbúningsvinna fyrir rannsókn á því:

    –     hvort bæta megi visthönnun og draga úr losun frá kötlum og vatnshiturum á heimilum,
    
    –     hvort draga megi úr innihaldi leysis í málningu, lakki og efnum til lakkviðgerða á ökutækjum,
    
    –     hvort draga megi úr losun með útblæstri frá færanlegum vélbúnaði til nota utan vega og hámarka þannig ávinninginn af eldsneyti með lægra brennisteinsinnihaldi til nota í slíkum búnaði utan vega sem framkvæmdastjórnin hefur þegar lagt til.

    Framkvæmdastjórnin heldur einnig áfram að þrýsta á Alþjóðasiglingamálastofnunina um umtalsverða minnkun á losun frá skipum og einsetur sér að leggja fram tillögur um ráðstafanir Bandalagsins ef það bregst að Alþjóðasiglingamálastofnunin leggi fram nægilega metnaðarfullar tillögur 2008.

Framkvæmdastjórnin heldur þó fast við markmið sín í áætluninni um betri reglusetningu og þörfina á að renna stoðum undir tillögur með heildarmati á áhrifum og ávinningi. Með hliðsjón af því, og í samræmi við stofnsáttmála Evrópubandalagsins, mun framkvæmdastjórnin því halda áfram að meta þörfina á því að leggja fram tillögur að nýrri löggjöf, en áskilur sér rétt til að ákveða hvort og hvenær skuli leggja fram slíkar tillögur.

YFIRLÝSING FRÁ HOLLENSKUM STJÓRNVÖLDUMHollensk stjórnvöld hafa ávallt stutt þróun metnaðarfullrar og skilvirkrar evrópskrar stefnu um gæði andrúmslofts og munu gera það áfram. Þau er því ánægð með málamiðlunarsamkomulagið sem ráðið og Evrópuþingið samþykkti og óska þinginu, framkvæmdastjórninni og formennskuríkinu til hamingju með árangurinn. Nýja tilskipunin um gæði andrúmslofts markar umtalsverðar framfarir, bæði fyrir umhverfið og lýðheilsu.

Eins og stjórnvöld í Hollandi bentu á þegar unnið var að sameiginlegu afstöðunni hefur þróun yfir landamæri mikil áhrif á gæði andrúmslofts í Hollandi og mikill ávinningur verður því af skilvirkri, evrópskri nálgun fyrir landið. Það varðar Holland mestu að í tilskipuninni sé jafnvægi milli evrópskra og landsbundinna ráðstafana, svo og að markmiðum um gæði andrúmslofts verði náð innan raunhæfra tímamarka. Það er forsenda þess að aðildarríkin geti náð þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett hafa verið.

Hollensk stjórnvöld lýsa ánægju sinni með þá yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar að hún muni kynna ráðstafanir Bandalagsins tímanlega. Traust, evrópsk stefna um að ráðast gegn mengun við upptök er nauðsynleg til að loftgæðastöðlunum verði náð tímanlega innan Evrópusambandsins alls. Í þessu sambandi vilja hollensk stjórnvöld benda sérstaklega á skort á gögnum og ríkjandi óvissu um losun og styrk fíngerðra efnisagna (PM 2.5). Þau munu að sjálfsögðu leitast af fremsta megni við að uppfylla markmið tilskipunarinnar á tilskildum tíma. Miðað við þá þekkingu sem við búum nú yfir ætti það að mestu leyti að vera framkvæmanlegt. Hollenska stjórnin er að þróa innlenda samvinnuáætlun um gæði andrúmslofts til að fást við þá staði þar sem stöðugt er farið yfir efri mörk losunar svo að þar megi líka uppfylla loftgæðastaðla á tilskildum tíma.

Holland lýsir ánægju sinni með að ráðið og Evrópuþingið gátu lokið annarri umræðu sinni nógu snemma til að tilskipunin komi til framkvæmda snemma á árinu 2008. Það er nauðsynlegt vegna okkar eigin áætlunar, sem og vegna aðgerða í löndunum í kringum okkur. Hollensk stjórnvöld munu gera sitt besta til að sjá til þess að innlenda samstarfsáætlunin og allar staðbundnu ráðstafanirnar og svæðisráðstafanirnar verði fullnægjandi.


——————————

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 262, 6.10.2011, bls. 65, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 54, 6.10.2011, bls. 82
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 152, 11.6.2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 296, 21.11.1996, bls. 55.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 163, 29.6.1999, bls. 41.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 313, 13.12.2000, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 67, 9.3.2002, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 35, 5.2.1997, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 8
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB C 195, 18.8.2006, bls. 84.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. ESB C 206, 29.8.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 26. september 2006 (Stjtíð. ESB C 306 E, 15.12.2006, bls. 103), sameiginleg afstaða ráðsins frá 25. júní 2007 (Stjtíð. ESB C 236 E, 6.11.2007, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 11. desember 2007. Ákvörðun ráðsins frá 14. apríl 2008.
Neðanmálsgrein: 12
(4)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(5)    Stjtíð. EB L 296, 21.11.1996, bls. 55. Tilskipuninni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 14
(6)    Stjtíð. EB L 163, 29.6.1999, bls. 41. Tilskipuninni var breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/ 744/EB (Stjtíð. EB L 278, 23.10.2001, bls. 35).
Neðanmálsgrein: 15
(7)    Stjtíð. EB L 313, 13.12.2000, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 16
(8)    Stjtíð. EB L 67, 9.3.2002, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 17
(9)    Stjtíð. EB L 35, 5.2.1997, bls. 14. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/ 752/EB (Stjtíð. EB L 282, 26.10.2001, bls.69).
Neðanmálsgrein: 18
(10)    Stjtíð. ESB L 23, 26.1.2005, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. EB L 171, 27.6.1981, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 20
(2)    Stjtíð. EB L 309, 27.11.2001, bls. 22. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun ráðsins 2006/105/EB (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 368).
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. EB L 309, 27.11.2001, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/105/EB.
Neðanmálsgrein: 22
(2)    Stjtíð. EB L 189, 18.7.2002, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 23
(3)    Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2008, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 24
(4)    Stjtíð. ESB L 87, 25.3.2004, bls. 50.
Neðanmálsgrein: 25
(1)    Stjtíð. ESB L 108, 25.4.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 26
(2)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 27
(3)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Úrskurður eins og honum var breytt með úrskurði 2006/512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Tilskipun ráðsins 89/654/EBE frá 30. nóvember 1989 um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu á vinnustöðum (Stjtíð. EB L 393, 30.12.1989, bls. 1). Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/30/EB (Stjtíð. ESB L 165, 27.6.2007, bls. 21).