Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 603. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1280  —  603. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Hong Kong, Kína, samnings um vinnumál milli sömu aðila og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Hong Kong, Kína.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar S. Kristjánsson og Ingólf Friðriksson frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á þremur samningum, þ.e. fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Hong Kong, Kína, samningi milli sömu aðila um vinnumál sem gerður var samhliða fríverslunarsamningnum, og landbúnaðarsamningi milli Íslands og Hong Kong. Samningarnir voru undirritaðir í Schaan í Liechtenstein 21. júní 2011.
    Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að Hong Kong, Kína er einn af stærstu mörkuðum EFTA-ríkjanna í Asíu og mikilvægur vettvangur fjárfestinga ýmissa fyrirtækja frá EFTA-ríkjunum. Þjónustuviðskipti nema um 90% af þjóðarframleiðslu Hong Kong, Kína. Þá er Hong Kong, Kína bæði vaxandi og vel staðsett miðstöð viðskipta á markaðssvæðinu í Suðaustur-Asíu. Fríverslunarsamningurinn við Hong Kong, Kína er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, opinber innkaup, samkeppni, viðskipti og umhverfismál, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Á vörusviðinu tryggir samningurinn fríverslunarkjör til Hong Kong, Kína fyrir iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Fyrir EFTA-ríkin er mikilvægi fríverslunarsamnings þessa ekki síst á sviði þjónustuviðskipta. Með samningnum fá EFTA-ríkin m.a. aukinn markaðsaðgang hjá Hong Kong, Kína fyrir sjóflutningsþjónustu, fjármálaþjónustu og viðskiptaþjónustu.
    Samhliða fríverslunarsamningnum var einnig gerður samningur milli EFTA-ríkjanna og Hong Kong, Kína um vinnumál. Samningsaðilar sammælast þar um að virða meginreglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og að þeir muni ekki beita reglum um vinnumál sem óréttmætum viðskiptahindrunum. Samningurinn um vinnumál öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.
    Tvíhliða landbúnaðarsamningur Íslands og Hong Kong, Kína er jafnframt gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Hong Kong, Kína. Hann öðlast gildi sama dag og fríverslunarsamningurinn. Tryggir samningurinn tollfrjálsan aðgang fyrir óunnar landbúnaðarvörur til Hong Kong, Kína. Í staðinn mun Ísland m.a. fella niður tolla af ýmsum tegundum matjurta og kornmetis, ávaxtasafa og léttvíni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. maí 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,      frsm.


Árni Páll Árnason.


Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


með fyrirvara.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Helgi Hjörvar.


Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.