Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 794. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1342  —  794. mál.
Tillaga til þingsályktunarum málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Margrét Tryggvadóttir,
Lilja Mósesdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ólöf Nordal.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun með markvissri aðgerðaáætlun í samræmi við niðurstöður skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

Greinargerð.


    Skýrslubeiðni um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun var fyrst lögð fram á 139. löggjafarþingi (530. mál) og var beiðnin endurflutt á 140. löggjafarþingi (þskj. 378, 321. mál). Mennta- og menningarmálaráðherra lagði svo fram skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun á 140. löggjafarþingi (þskj. 1088).
    Sennilega er ekkert mikilvægara í lífi manneskju en að geta átt samskipti við aðrar manneskjur. Grunnurinn að hæfninni til samskipta er lagður í frumbernsku. Þróun máls, tals og skilnings fléttast saman í samskiptahæfni. Tal- og málþroskaröskun getur komið fram hjá börnum sem þjást af hljóðkerfisröskun, hafa mikil framburðarfrávik, stama, hafa fengið kuðungsígræðslu eða hafa skarð í vör, eru með hása rödd eða eru haldin alvarlegum þroskafrávikum. Einnig getur verið um að ræða sértæka málþroskaröskun (e. specific language impairment) þar sem börn skilja ekki málið og geta ekki lært að tala eins og jafnaldrar. Tal- og málþroskaröskun getur leitt til námserfiðleika, hegðunarvandamála og andlegra erfiðleika. Á Íslandi er áætlað að um 200–500 börn í hverjum árgangi þurfi aðstoð vegna tal- og málþroskaröskunar.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að Alþingi bregðist skjótt við og álykti um nauðsyn þess að niðurstöðum skýrslu mennta- og menningarmálaráðherra um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun verði fylgt eftir með viðeigandi aðgerðum og fjármagni. Í skýrslunni kemur skýrt fram að víða er pottur brotinn í þessum málaflokki og nauðsynlegt að farið verði yfir allt sviðið og það endurskipulagt með þeirra hag sem þurfa að reiða sig á þessa þjónustu í huga.
    Í skýrslunni kemur meðal annars fram að erfitt hafi verið að nálgast upplýsingar um fjölda barna sem heyra undir málaflokkinn og um þörfina fyrir þjónustu, nákvæmlega hve margir talmeinafræðingar séu starfandi og hvar þeir starfi. Það sé þó ljóst að börn með tal- og málþroskaröskun séu stór og fjölbreyttur hópur. Einnig er bent á þá staðreynd að með snemmtækri íhlutun er oft hægt að fyrirbyggja námserfiðleika eða stemma stigu við þeim. Því er mikilvægt að nákvæmar upplýsingar um framangreint liggi fyrir til að hægt sé að ráða bót vandanum. Fram kemur í skýrslunni að réttur barna og ungmenna til að fá greiningu og meðferð á vegum heilbrigðiskerfisins sé skýr í lögum og reglugerðum. Einnig kemur fram að Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sem hefur víðtækar lagaskyldur við börn og fullorðna með talmein hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að uppfylla þær skyldur sínar. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að stofnuninni sé gert keift að safna upplýsingum um börn og ungmenni með tal- og málþroskaröskun þannig að nauðsynleg yfirsýn fáist yfir þennan hóp.
    Málaflokkurinn heyrir undir tvö ráðuneyti og er bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Margar stofnanir bera ábyrgð á þjónustu, eftirliti og stefnumótun. Skimun fyrir tal- og málþroskaerfiðleikum fer bæði fram innan heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Lögð er áhersla á að samvinna þar á milli sé efld og mótaðar skýrar reglur um hver beri ábyrgð á hverju. Auk þess er mikilvægt að skýrar reglur liggi fyrir um hlutverk stofnana sem sinna nánari greiningu í kjölfar skimunar og hvernig samvinnu milli þeirra eigi að vera háttað.
    Samkvæmt skýrslunni er allt sem bendir til þess að málþroskafrávik séu vangreind hjá börnum á leikskólaaldri. Skilvirk skimun á málþroska og snemmtæk íhlutun í kjölfarið geta skipt sköpum fyrir barnið og jafnvel komið í veg fyrir námserfiðleika síðar. Fram kemur í skýrslunni að um 60% af tilvísunum til Þroska- og hegðunarstöðvar séu vegna frávika í málþroska en enginn talmeinafræðingur sé þar starfandi. Þá kom ítrekað kom fram í skýrslunni að engin sérstök úrræði séu fyrir hendi fyrir ungmenni með málþroskafrávik á Íslandi. Flutningsmenn telja brýnt að tryggja þeim möguleika á þjónustu eftir að skólagöngu líkur.
    Langur biðlisti er eftir talþjálfun og greiningu hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum sem anna engan veginn eftirspurn (t.d. bíða um 400 börn eftir þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga). Í skýrslunni er vakin athygli á því að reglur Sjúkratrygginga Íslands um talþjálfun hafa hingað til haft of mikil áhrif á tilhögun þjónustunnar. Flutningsmenn leggja því áherslu á að breytingar verði gerðar á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við talmeinafræðinga og reglurnar mótaðar með hagsmuni barna og ungmenna í huga framar öðru. Einnig er mikilvægt að kerfið verði einfaldað ef kostur er.
    Flutningsmenn telja því mikilvægt, í ljósi niðurstaðna umræddrar skýrslu, að tal- og málþroskaröskun sé skoðuð heildstætt hér á landi og niðurstöðum skýrslunnar fylgt eftir með það að markmiði að ráðist verði í úrbætur.