Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 696. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1347  —  696. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2012.


Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Eysteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2012 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 23. mars 2012. Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2012. Hann er óbreyttur frá fyrra ári að öðru leyti en því að ekki er lengur kveðið á um gagnkvæma veitingu leyfa til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu landanna.
    Fram kemur í athugasemdum við tillöguna að færeysk skip fá með samningnum heimild til að veiða 30 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á loðnuvertíðinni 2012/2013 svo fremi að leyfilegur heildarafli verði a.m.k. 500 þús. lestir. Verði leyfilegur heildarafli minni nemur hlutdeild færeyskra skipa 5% af honum. Þá er færeyskum skipum er heimilt á loðnuvertíðinni 2012/2013 að veiða allt að 10 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.
    Samningurinn gerir einnig ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2012.
    Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2012.
    Áður en samningurinn var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2012. Heildarafli þorsks verður þó aldrei meiri en 1.200 lestir og engar veiðar eru heimilaðar á lúðu eða grálúðu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar og Mörður Árnason voru fjarstödd við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 15. maí 2012.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Illugi Gunnarsson.Magnús Orri Schram.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.