Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 821. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1546  —  821. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um endurgreiðslu IPA-styrkja.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Mun Evrópusambandið fara fram á endurgreiðslu IPA-styrkja ef ekki verður af aðild Íslands að sambandinu? Ef svo er ekki, hvar er þá að finna skriflega staðfestingu á því að endurgreiðslu verði ekki krafist?

    IPA-styrkir verða veittir á grundvelli sérstakra styrksamninga um einstök verkefni en styrksamningarnir byggjast á rammasamningi milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem Alþingi hefur nú til meðferðar (sbr. þskj. 449, 373. mál). Engar kvaðir um mögulega endurgreiðslu er að finna í rammasamningnum og ekki er gert ráð fyrir slíku í styrksamningunum. Þvert á móti er gert ráð fyrir að öll verkefni sem samningsaðilar hafi skuldbundið sig í samkvæmt styrksamningum verði til lykta leidd þótt rammasamningnum yrði sagt upp. Um þetta er fjallað í 23. gr. rammasamningsins (sjá bls. 20 í framangreindu þingskjali). Athugasemdir um þá grein eru á bls. 6 í þingskjalinu undir fyrirsögninni Breytingar og uppsögn og hljóða svo:
    „Í 22. og 23. gr. er fjallað um hvernig samningnum verði breytt og sagt upp. Samningurinn er ótímabundinn og fellur ekki úr gildi fyrr en annar hvor samningsaðila tilkynnir hinum skriflega um uppsögn hans. Öllum verkefnum, sem styrkt eru í samræmi við þennan samning og ekki er lokið þegar honum er sagt upp, skal haldið áfram til enda í samræmi við efni samningsins.“
    Af þessu leiðir að ekki verður um endurkröfur að ræða vegna veittra styrkja samkvæmt einstökum styrksamningum komi ekki til aðildar.