Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 12:29:16 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni brýninguna og þá áherslupunkta sem hann setti hér fram. Það var gott að heyra nefndan Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem unnið hefur verið mikið starf á undanförnum árum við að hækka grunnframfærslu lána. Enn fremur var starfandi nefnd sem skilaði tillögum í fyrra um endurskoðun á lánakerfinu. Í framhaldinu var farið í vinnu við það að skoða framfærslukerfi námsmanna í heild og horfa þá annars vegar á námslánakerfið og hins vegar á framfærslu þeirra sem eru ekki í námi sem hingað til hefur verið skilgreint sem lánshæft. Þá er ég að vísa í nemendur á framhaldsskólastigi. Ég vonast til þess að þingmenn geti átt góðar umræður um þetta frumvarp þegar það kemur fram.

Mig langar að nýta tímann sem ég hef hér til að ræða aðeins um það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi áðan um brottfallsmál. Eins og kunnugt er áttum við góðan fund með fulltrúum OECD í fyrra um mögulegar aðgerðir gegn brottfalli. Afrakstur þeirrar vinnu er aðgerðaáætlun sem við munum kynna á næstunni sem er fyrst og fremst í samræmi við ráðgjöf OECD og er ætlað að greina betur ástæður brottfalls. Þetta er eitt af því sem er mjög erfitt að leggja fram einhverjar patentlausnir eða svör við, en hugsunin er sú að greina annars vegar ástæður brottfalls í tilraunaskólum og vinna svo með ráðgjöf og utanumhaldi með þá nemendur sem eru þá líklegir til að vera í brottfallshættu. Þar byggjum við á alþjóðlegri reynslu og ég vona að sjálfsögðu að þetta muni skila árangri.

Hv. þingmaður spurði einnig um Kvikmyndaskólann sem er með óbreytt fjárframlög með 1% aðhaldi, að mig minnir, í fjárlagafrumvarpinu, u.þ.b. 55 milljónir, kannski 56. Við stefnum á það í kjölfar stefnumótunar um kvikmyndanám að ræða við þann skóla um framhaldið þannig að ég held að fram undan í því sé bara góð vinna. Við erum búin að leggja mikla vinnu í þessa stefnumótun þar sem horft er til kvikmyndanáms bæði á framhalds- og háskólastigi og ég held að þar sé nokkuð sem við getum unnið áfram að á uppbyggilegan og jákvæðan hátt fyrir (Forseti hringir.) atvinnugreinina.