Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 12:31:40 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan koma hér upp aftur og hnykkja á umræðunni um brotthvarfið. Það er auðvitað stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í menntamálum. Við horfum upp á það að nærfellt þriðji hver nemandi sem hefur nám í framhaldsskóla hrökklast frá námi án þess að ljúka tilskildum árangri. Við höfum tekist á við þetta vandamál í öllum flokkum um árabil en það hefur því miður lítið þokast. Hluti skýringarinnar er auðvitað hrunið og við höfum ekki haft afl og fjármuni til þess að fylgja eftir ágætum lögum frá 2008 um framhaldsskóla. Það er verið að takast á við þetta vandamál á mörgum stigum og ég held að við þurfum að gæta þess að baráttan við brotthvarfið sé ekki eingöngu háð í framhaldsskólum. Við þurfum í raun að hefja skimun fyrir þessu vandamáli strax í grunnskólunum og tryggja grunnskólunum um allt land tæki til að örva áhuga nemenda og tryggja að nemendur eigi kost á því að stunda nám sem hæfir hæfileikum, færni og áhugasviði hvers og eins. Við höfum kannski ekki eytt nægilega mikilli orku eða fjármunum til að tryggja það á liðnum árum.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um eitt tiltekið atriði. Það hefur verið fagnaðarefni að sjá hversu vel hefur tekist til að tryggja framtíðarhúsnæði fyrir Kvennaskólann í Reykjavík, en á sama tíma hefur vandi Menntaskólans í Reykjavík, sem er hér í nágrenni við okkur, verið ærinn á umliðnum árum og ljóst að þar eru menn komnir að þolmörkum. Mín spurning er þessi: Hvaða áætlanir eru uppi um að takast á við þann vanda sem sá skóli á við að etja í húsnæðismálum?