Umræður um störf þingsins 25. september

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:30:41 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag eins og oft áður kemur forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna ágætlega fram. Allir þeir sem hafa talað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna ræða hér stjórnlagaráð eða nýjar rannsóknarnefndir. Það sem fólkið í landinu bíður frekar eftir er að rædd séu atvinnumál. Við hefðum til dæmis getað rætt af hverju í ósköpunum næst ekki í tekjur af olíu- og bensíngjaldi vegna ofsköttunar, það vita allir. Við ræddum í gær um ferðaþjónustuna og fyrirhugaða ofsköttun ríkisstjórnarinnar þar og alvarlegar afleiðingar. Ég vil taka undir þær áherslur sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson ræddi um og við framsóknarmenn styðjum.

Það er margt sem þarf að skoða í þinginu. Ég vil koma inn á eitt mál. Á fundi í atvinnuveganefnd í morgun ræddum við um þriðju tilskipun Evrópusambandsins í raforkumálum og álit okkar til utanríkismálanefndar. Sú staðreynd hefur verið uppi í þessum málum að frá því að við innleiddum fyrstu tilskipunina höfum við alltaf sótt um undanþágu frá því í raun að taka meginþætti í raforkumarkaði Evrópu upp en engu að síður höfum við verið jafnvel kaþólskari en páfinn við innleiðingu reglnanna. Varðandi aðskilnaðinn þurftu til að mynda aðeins fyrirtæki sem hafa 100 þús. notendur eða fleiri að skilja að fyrirtæki sín en á árinu 2008 ákváðum við að það miðaðist einungis við 10 þús. notendur og þar með fóru þó nokkur fyrirtæki þá leið, en Orkuveita Reykjavíkur ein, sem er þó með 100 þús. notendur, er ekki enn búin að þessu en það stendur reyndar til á þessu ári.

Spurningin er alltaf þessi: Er þetta rétta leiðin? Eigum við að sækja um undanþágur? Hvaða afleiðingar hefur þetta?

Rarik reynir af veikum mætti að verðjafna á öllu landinu. Í morgun ræddum við við garðyrkjumenn um hvaða möguleika þeir hafa til að fá lægra verð. Mér sýnist að afleiðingin af stefnu okkar verði annaðhvort sú að risagarðyrkjustöðvar rísi við orkuverin og þar verði framleiðslan en fjölskyldubúin leggist af eða að menn stofni ný dreififyrirtæki á landinu þar sem það er hagkvæmt (Forseti hringir.) og sífellt dýrara verði að dreifa rafmagni um hinar dreifðu byggðir.

Eigum við ekki að staldra við núna áður en við tökum upp þriðju tilskipunina og velta fyrir okkur kostum og göllum? (Forseti hringir.) Hvora leiðina eigum við að fara? Þetta er eitt af verkefnunum sem þingið þarf að taka á á næstu mánuðum.