Umræður um störf þingsins 25. september

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:33:09 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:33]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgunútvarpinu í morgun var athygli landsmanna vakin á stöðu barna frá Sýrlandi, barna sem hafa ýmist sjálf orðið fyrir alvarlegum pyntingum eða orðið vitni að slíku, mörg aftur og aftur. Maður getur af veikum mætti reynt að ímynda sér hvernig áhrif slíkt hefur á sálarlíf barna og ungmenna, enda kemur í ljós að mörg þeirra eru afar illa haldin.

Þakka ber Barnaheill á Íslandi fyrir að hafa vakið athygli okkar á málinu. Mér finnst eðlilegt að íslensk stjórnvöld sem eru blessunarlega að auka framlög sín til þróunarmála skoði það vandlega hvort ekki sé ástæða til að styrkja það starf sem fram undan er til að byggja þessi börn upp eftir áföllin.

Ekki má gleyma að Barnaheill bendir líka á að hópur barna hér á landi á um sárt að binda vegna þess að hann hefur orðið vitni að síendurteknu ofbeldi. Þar þurfa opinberir aðilar líka að bretta upp ermar. Á netinu undanfarna daga hafa birst frásagnir ungmenna sem segja stuttlega frá reynslu sinni. Þetta eru ungmenni sem hafa orðið fyrir einelti í langan tíma, fyrst og fremst vegna þess að útlit þeirra er ekki staðlað. Einelti er alvarlegt ofbeldi sem hefur því miður dregið þróttinn úr fjölda íslenskra ungmenna, ungmenna sem eiga það skilið að samfélagið styðji við bakið á þeim og stöðvi ofbeldið. Ekki má gleyma því að gerendur eineltis eru oft í vandræðum með sjálfsmynd sína og til að leyna því telja þeir að ofbeldi sé gott tæki.

Mörg góð verkefni hafa verið sett af stað til að vinna gegn einelti og vissulega hafa þau gert sitt gagn en enn stíga börn fram og lýsa vanlíðan sinni svo að verkinu er engan veginn lokið. Það þarf því enn að vinna markvisst og örugglega að því að finna leiðir sem gagnast í markvissri samvinnu allra aðila. Þá langar mig til að leggja sérstaka áherslu á hlut foreldra. Við höfum ekki efni á því að börn og ungmenni þessa heims fái ekki notið friðhelgi til að vaxa og dafna. Þau eru framtíðin og vaxtarskilyrði framtíðarinnar er mikilvægasta verkefni samtíðarinnar.