Fyrirkomulag umræðu um störf þingsins o.fl.

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:37:57 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins o.fl.

[14:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég tel ástæðu til þess að koma hingað og gera athugasemd við ummæli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í umræðum um störf þingsins hér áðan þar sem hún kom með alvarlegar ásakanir á hendur einum hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, Birni Val Gíslasyni, þegar rædd voru þau mál sem voru til umræðu á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í hádeginu í dag. Málið hafði reyndar verið kynnt fjárlaganefnd fyrr í gær og ég veit að hv. formaður fjárlaganefndar hefur átt samskipti við lögfræðinga Alþingis varðandi það.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir orðaði það svo áðan í máli sínu að þingmaðurinn hefði undir höndum þýfi og setti það í samhengi við kæru til saksóknara. Ég tel að þingmaðurinn verði annaðhvort að færa rök fyrir máli sínu og færa sönnur á það eða biðja hv. þm. Björn Val Gíslason afsökunar ella.