141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Umræður um hrunið og afleiðingar þess eru mikilvægar fyrir okkar samfélag. Nú þegar flest kurl eru komin til grafar getur sú umræða orðið efnislega betri en áður og jafnvel málefnalegri, enda byggir hún nú á ýmsum úttektum og skýrslum sérfræðinga sem greina flókið samspil veiks bankakerfis, veiks gjaldmiðils og ef til vill veikrar stjórnsýslu fyrir hrun. Allt leiddi það í senn hagkerfi okkar fram af hengibrúninni. Ég segi flest kurl komin til grafar og vísa þar til þess að við bíðum enn eftir skýrslu um hrun sparisjóðanna.

Hér er til umfjöllunar skýrsla Ríkisendurskoðunar undir heitinu Fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að standa að þessari umræðu en skýrslan kom út í júní og hefur ekki enn hlotið neina efnislega umræðu í þinginu.

Hv. þingmaður kemur inn á það hversu stóran hluta af heildarskuldum ríkissjóðs megi rekja til endurreisnar fjármálakerfisins. Ef við förum aðeins yfir það eru heildarskuldir ríkissjóðs, samkvæmt áætlunum við árslok 2012, 1.497 milljarðar kr. Um 414 milljarðar af þeirri upphæð geta talist til beins kostnaðar af endurreisn fjármálakerfisins. Þar af runnu tæplega 213 til fjármálastofnana, bróðurparturinn, eða 170 milljarðar, til Seðlabankans vegna slæmrar stöðu hans og næstmest þurfti að leggja til Íbúðalánasjóðs eða tæpa 32 milljarða. Að öllu samanlögðu má rekja tæplega 28% af heildarskuldum ríkissjóðs beint til endurreisnar fjármálakerfisins.

Hvað varðar beinar vaxtagreiðslur vegna endurreisnar fjármálakerfisins þá var staðan í árslok 2012 áætluð þannig að ríkissjóður beri um 80,9 milljarða í heildarvaxtakostnað. Um 10,4 milljarða af þeim vaxtakostnaði má rekja til skuldabréfs til fjármálastofnananna, 4,4 vegna skuldabréfs frá Seðlabanka Íslands og 0,9 vegna Íbúðalánasjóðs. Beinn vaxtakostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins nam því 15,7 milljörðum kr. fyrir árið 2012 og þar eru ekki talin með öll hliðaráhrifin, þ.e. kostnaður vegna fjármögnunar á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans vegna hruns krónunnar né heldur kostnaður vegna tekjutaps ríkisins vegna hruns skattstofna svo að dæmi séu tekin.

Í þessu sambandi hefur mikið verið um það rætt hvort önnur staða væri upp á Íslandi ef annar gjaldmiðill hefði verið hér á landi í aðdraganda hrunsins. Mitt svar við þeirri spurningu er: Já, staðan hefði verið önnur. Ólíkt ríkjum á evrusvæðinu höfum verið að kljást við þrefalda kreppu, gjaldeyris-, banka- og skuldakreppu. Skuldakreppan var enn erfiðari vegna gjaldeyriskreppunnar þar sem fall krónunnar kom strax fram í verðbólgu enda flest lán annaðhvort tengd gengi eða neysluverðsvísitölu. Ljóst er því að kreppan hefði komið öðruvísi við hið opinbera, einkageirann og heimilin ef Ísland hefði haft annan gjaldmiðil. Lán heimila og fyrirtækja hefðu ekki stökkbreyst og þar með hefði staða heimila verið betri. Utanríkisviðskipti hefðu líklega verið í betra jafnvægi fyrir hrunið og samkeppnishæfni meiri, meðal annars vegna þess að viðskiptakostnaður og gengisáhætta hefðu verið minni.

Á árunum fyrir hrun jókst innflæði fjármagns, meðal annars vegna hárra vaxta, gengið styrktist og verðbólga minnkaði framan af. Viðskiptahallinn varð viðvarandi. Þegar samdrátturinn hófst snerist dæmið fljótt við. Fjármagn flæddi út og gengið lækkaði. Þannig orsakar krónan mikinn óstöðugleika. Á árunum fyrir hrun dró hún úr samkeppnishæfni útflutningsgreina en jókst eftir hrun með raungengislækkun. Því má segja í einfaldari mynd að krónan bæti að hluta upp það þjóðfélagslega tap sem hún orsakaði í hruninu og aðdraganda þess en það er þó mitt mat að hún hafi valdið meira tjóni en hún gat síðan á endanum bætt. Það má vera ljóst að hvort sem við búum við krónu eða aðra mynt þá er þjóðhagsvarúð, veðþak og breytilegt eiginfjárhlutfall banka mikilvægt og ábyrg hagstjórn með fjármálareglum fyrir opinbera aðila algert grundvallaratriði. Það hefur núverandi bankakreppa og skuldakreppa í Evrópu kennt okkur.

Virðulegi forseti. Við þurfum að læra af sögunni en ekki endurtaka hana. Við búum við fremur einhæfan útflutning en þurfum að flytja inn flest til okkar þarfa. Með hóflegri einföldun má segja að við notum gengisskráninguna til að ráða því hvað við getum keypt mikið. Á tímabilum innflæðis fjármagns er gengið hátt, kaupgeta mikil og við söfnum skuldum. Það heitir góðæri á okkar tungu. En eftir að háflóð fellur út og krónan hrapar svo að innflutningur snarminnkar vegna minnkandi kaupmáttar batnar staða útflutningsgreinanna til að saxa á skuldirnar. Hluti vandans er að slíkar aðstæður henta ekki mjög fjölbreyttu atvinnulífi þar sem gera þarf áætlanir langt fram í tímann.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að við förum vandlega yfir þær skýrslur sem komið hafa fram til að læra af þeim og leggja línurnar inn í ábyrgari framtíð hér á landi í þessum efnum.