Barnaverndarlög

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 17:17:25 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

barnaverndarlög.

65. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni. Þegar Alþingi setur lög eru það lög og framkvæmdarvaldinu ber að vinna í samræmi við þau. Þetta frumvarp var tvívegis lagt fyrir þingið og unnið mjög ítarlega og vel af hálfu þáverandi félags- og tryggingamálanefndar en á lokasprettinum í þeirri vinnu kom fram mikil andstaða frá sveitarfélögunum við þetta ákvæði; það væri gefinn of skammur tími í gildistöku. Við afgreiðslu frumvarpsins frestuðum við því gildistökunni. Það var ekki gert með sérstöku frumvarpi heldur breytingartillögu við fyrirliggjandi frumvarp. Gildistökunni var frestað til 1. janúar 2013 til að gefa aðilum máls tækifæri til að fara betur yfir efnisatriði og framkvæmdina.

Það voru mikil vonbrigði þegar í ljós kom að vinnan var ekki talin nógu langt á veg komin til að yfirfærslan gæti átt sér stað um næstu áramót og virðist vera einhver kergja milli aðila um það hvernig eigi að standa að þessu. Nefndin kallaði til sín alla þá sem að málinu koma, jafnt sveitarfélög, Barnaverndarstofu sem og ráðuneytið. Niðurstaða okkar var sú að samþykkja málið eftir að hafa spurt þau sem eru í stýrihópnum sem á að hafa yfirumsjón með yfirfærslunni hvort aðilar máls teldu raunhæft að halda áfram. Þau töldu það, töldu sig geta náð lendingu í málið sem væri farsæl og voru sammála því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt og það varð niðurstaðan.