Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 197. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 200  —  197. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum (húsnæðissparnaður).


Flm.: Eygló Harðardóttir, Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason, Siv Friðleifsdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir.


1. gr.

    Á eftir orðinu „Persónuafsláttur“ í 7. tölul. 28. gr. laganna kemur: skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðar.

2. gr.

    Við lokamálslið 3. mgr. 66. gr. laganna bætist: og ekki heldur vaxtatekjum af húsnæðissparnaðarreikningi.

3. gr.

    Við 67. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Mönnum sem um ræðir í 1. og 2. mgr. 66. gr. og ekki hafa náð 34 ára aldri á tekjuárinu er heimilt að stofna einn húsnæðissparnaðarreikning sem veitir rétt til skattafsláttar innan þeirra marka og með þeim skilyrðum sem greinir í þessum staflið. Hver maður getur aðeins átt einn húsnæðissparnaðarreikning.
    Húsnæðissparnaðarreikningar eru sérstakir reikningar sem eru stofnaðir til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og bera nafn og kennitölu eiganda. Viðskiptabankar og sparisjóðir sem bjóða upp á slíka reikninga, þ.m.t. þeir sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, skulu fyrir fram leita eftir staðfestingu ráðherra. Að tekjuári liðnu skulu þeir viðskiptabankar og sparisjóðir sem fengið hafa staðfestingu veita ríkisskattstjóra upplýsingar á því formi sem hann ákveður um innstæður hvers manns á húsnæðissparnaðarreikningi, um innlegg og úttekt af slíkum reikningum á árinu og önnur atriði er máli skipta.
    Skal skattafslátturinn vera 20% af innleggi hvers tekjuárs en þó aldrei hærri fjárhæð en 200.000 kr. vegna hvers tekjuárs.
    Húsnæðissparnaðarreikningar skulu vera bundnir til 10 ára frá þeim tíma er fyrst var lagt inn á reikning. Færi reikningseigandi sönnur á kaup íbúðarhúsnæðis til eigin búsetu eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur sem nemi a.m.k. 20% af fasteignamati slíks húsnæðis skal heildarinneignin vera honum laus til ráðstöfunar að því marki sem nemur kostnaði vegna þessa enda séu þá full tvö ár liðin frá því að sparnaður hófst. Sama gildir ef færðar eru sönnur á kaup á búseturétti til eigin búsetu, sbr. lög nr. 66/2003. Verði ekki af kaupunum, byggingu eða endurbótum skal leggja úttekið fé aftur inn á reikning innan þriggja mánaða frá því að ljóst er að af þeim verður ekki.
    Börn skulu njóta skattafsláttar skv. 1. mgr. vegna tekna sem um ræðir í 2. mgr. 64. gr. Nemi afslátturinn hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur barns skal því sem óráðstafað er ráðstafað til framfærenda þess. Ákvæði A-liðar skulu að öðru leyti gilda um ráðstöfun afsláttarins eftir því sem við getur átt.
    Innstæða á húsnæðissparnaðarreikningi er undanþegin aðför skuldheimtumanna. Við andlát innstæðueiganda rennur innstæðan til dánarbúsins án bindingar.
    Nánari fyrirmæli um form og efni húsnæðissparnaðarreikninga skulu koma fram í reglugerð, þ.m.t. um svigrúm til skilmálabreytinga, útborgun innstæðu, heimildir til framsals innstæðu og veðsetningar, heimildir til flutnings innstæðu og réttindi reikningshafa að öðru leyti. Reglugerðin verði sett áður en ráðherra staðfestir heimild einstakra viðskiptabanka og sparisjóða til að bjóða upp á slíka reikninga.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 140. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til sérstakar skattívilnanir til handa þeim sem ástunda sparnað vegna húsnæðisöflunar. Kemur frumvarpið því til viðbótar öðrum opinberum úrræðum sem auðvelda eiga fólki að eignast húsnæði en af þeim sem fyrir eru má nefna vaxtabótakerfið og Íbúðalánasjóð.
    Lagt er til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur í formi samningsbundinna innlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum veiti reikningseiganda skattafslátt innan vissra marka. Sparnaðurinn verði að lágmarki bundinn í tvö ár ef viðkomandi sýnir með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þ.m.t. búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis en annars verði heildarinneignin laus til frjálsrar ráðstöfunar að liðnum tíu árum. Tilgangur frumvarpsins er jafnframt sá að hvetja til almenns sparnaðar vegna eigin fjárframlags til öflunar íbúðarhúsnæðis.
    Sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, sem úr gildi eru fallin en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. Munurinn felst m.a. í því að í þessu frumvarpi eru ekki eins ítarleg ákvæði um form og efni þeirra samninga sem um ræðir. Þess í stað er ráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að börn undir 16 ára aldri sem ekki teljast sjálfstæðir skattaðilar geti notið skattafsláttarins og jafnframt að því sem óráðstafað er verði ráðstafað til framfærenda þess, að jöfnu séu framfærendur tveir.