Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 143. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 204  —  143. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar um lokun E-deildar sjúkrahússins á Akranesi.


     1.      Hversu margir þeirra sem voru á E-deild sjúkrahússins á Akranesi hafa fengið vistun á öðrum stofnunum og hversu margir eru nú á öðrum deildum sjúkrahússins?
    Þegar E-deildinni var lokað þann 4. maí 2012 voru þrír einstaklingar þar, sem fluttust yfir á lyflækningadeild tímabundið. Í ágúst sl. fluttist einn þeirra á hjúkrunarheimili í Borgarnesi en tveir bíða enn eftir að komast að í dvöl á hjúkrunarheimili á Akranesi.

     2.      Er boðlegt fyrir langlegusjúklinga að liggja á bráðadeildum svo mánuðum og jafnvel árum skiptir?
    Nei, það er ekki æskilegt að dvelja lengur á bráðadeild en heilsufar viðkomandi krefst þótt stundum sé annað ekki mögulegt. Stjórnendur heilbrigðisþjónustu á hverjum stað leitast því við að mæta þörfum fólks með þjónustu heima eins lengi og kostur er. Stundum hrakar heilsu fólks samt sem áður það mikið að sú þjónusta nægir ekki og þörf er á meiri hjúkrun. Þegar sú staða kemur upp er ekki alltaf aðgengi að öðru úrræði strax svo sem hjúkrunar- eða dvalarrými. Þá hefur þörfum þeirra einstaklinga verið mætt á þann hátt sem aðstæður á hverjum stað hafa boðið upp á, til að mynda með tímabundinni innlögn á legudeild þar til annað býðst. Þótt starfsfólk á legudeildum leggi sig fram um að veita góða þjónustu og umönnun þá verður ætíð að reikna með að umgjörðin sé önnur en á hjúkrunarheimili. Því er reynt að stytta þann tíma eins og kostur er.

     3.      Hversu háar fjárhæðir var gert ráð fyrir að spara með lokun E-deildar?
    Á árinu 2012 var gert ráð fyrir að spara 50–60 millj. kr. og á ársgrundvelli að spara á bilinu 110–120 millj. kr.

     4.      Hversu miklum fjárveitingum þarf að bæta við aðrar stofnanir vegna lokunar deildarinnar?
    Ekki er gert ráð fyrir að auka þurfi fjárveitingar til annarra stofnana vegna þessarar breytingar.

     5.      Telur ráðherra að lokunin sé vel heppnuð aðgerð?
    Áðurnefnd E-deild hafði yfirbragð sjúkradeildar en ekki hjúkrunarheimilis. Húsnæðið þar samræmdist ekki kröfum nútímans um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Þess er vænst að þeir tveir einstaklingar, sem áður bjuggu á E-deildinni og enn hafa ekki fengið dvöl á hjúkrunarheimili, fái búsetu á hjúkrunarheimili sem fyrst. Ráðherra styður því ákvörðun stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

     6.      Eru uppi áform um að snúa þessari ákvörðun og opna deildina aftur?
    
Undanfarin ár hafa álíka margir verið á biðlista eftir hjúkrunarrými á Akranesi en bið eftir hjúkrunarrými hefur styst. Biðtíminn var 3,6 mánuðir árið 2010 en er nú 2,5 mánuðir. Engin áform eru um að breyta ákvörðunum stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.