Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 206  —  11. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um sjóferðabækur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er ástæða þess að íslensk stjórnvöld sjá sér ekki fært að gefa út sjóferðabækur til handa íslenskum sjómönnum eins og þeim ber að gera samkvæmt alþjóðalögum?

    Í 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, 4.–6. mgr. 6. gr., er fjallað um sjóferðabækur en þar kemur fram að sérhver skipverji skuli hafa sjóferðabók sem ráðuneytið lætur gera. Skipstjóri skuli geyma sjóferðabók skipverja meðan skipverji er í skiprúminu. Lögskráningarstjóra er skylt að afhenda sjóferðabók hverjum skipstjóra og skipverja í fyrsta sinn sem hann er lögskráður á íslenskt skip eða síðar ef sjóferðabók hefur glatast eða er fullnotuð. Skal sjóferðabókin ávallt sýnd við lögskráningu og þegar sanna á siglingatíma. Ráðherra setur nánari reglur um gerð sjóferðabóka, sbr. reglur nr. 162/1987.
    Þessi ákvæði sjómannalaga eru úrelt og miða við að sjóferðabækur eigi fyrst og fremst að sanna lögskráningu sjómanns og halda utan um siglingatíma hans. Nokkuð mörg ár eru liðin síðan sjómenn á íslenskum skipum hættu að halda utan um siglingatíma sinn með sjóferðabókum. Frá 1. nóvember 2010 er skylt að lögskrá á öll skip sem notuð eru í atvinnuskyni og annast skipstjórar eða útgerðarmenn lögskráninguna í stað sýslumanna og Tollstjórans í Reykjavík með skráningu í lögskráningarkerfi sjómanna í gegnum internetið.
    Frá 1. nóvember 2010 hefur Siglingastofnun gefið út sjóferðabækur til sjómanna sem þess óska en fyrir þann tíma var það í höndum Sýslumanna og Tollstjórans í Reykjavík. Sú bók, sem gefin hefur verið út af þessum aðilum, hefur hins vegar ekki verið samþykkt í sumum ríkjum, t.d. Rússlandi, og hefur það leitt til þess að íslenskir sjómenn hafa ekki getað farið í land þegar skip, sem þeir starfa á, koma til hafna í þessum ríkjum.
    Ísland er aðili að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 108 frá árinu 1958 sem fjallar um persónuskírteini sjómanna. Tilgangur þeirra skírteina er ekki aðeins að halda utan um siglingatíma sjómannsins heldur einnig að vera skilríki til sönnunar þess að hann sé starfandi sjómaður og njóti tiltekinna réttinda sem slíkur, t.d. að því er varðar landvistarleyfi þegar skip, sem hann starfar á, er í erlendri höfn. Stofnunin hefur gert athugasemdir við bókina og telur hana ekki uppfylla formkröfur samþykktarinnar, auk þess sem stofnunin hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að taka til athugunar að fullgilda nýja samþykkt um persónuskírteini sjómanna nr. 185 og er frá árinu 2003.
    Innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið, Siglingastofnun og Þjóðskrá hafa um nokkurn tíma haft til skoðunar að meta hvort rétt sé að fullgilda ákvæði nýju samþykktarinnar, nr. 185 frá árinu 2003, og gefa út nýja sjóferðabók sem uppfylli kröfur þeirrar samþykktar. Í því efni er verið að skoða hvaða leiðir hægt sé að fara þannig að kostnaði sé haldið í lágmarki og jafnframt fundin ásættanleg lausn fyrir árslok 2012 fyrir þá íslensku skipverja sem starfa á erlendum skipum og eru í siglingum erlendis.