Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 442. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 556  —  442. mál.
Tillaga til þingsályktunarum slit á stjórnmálatengslum við Ísraelsríki og bann við innflutningi á ísraelskum vörum.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari, Lilja Mósesdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Atli Gíslason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að slíta öll stjórnmálatengsl við Ísraelsríki, leggja bann við innflutningi á ísraelskum vörum og hvetja ríkisstjórnir annarra Norðurlanda til hins sama.

Greinargerð.


    Hinn 14. nóvember 2012 hófust loftárásir Ísraelshers á palestínsku þjóðina á Gaza- svæðinu. Mikil átök hafa verið á þessu svæði um áratuga skeið en þar býr um ein og hálf milljón manna við mjög ómannúðlegar aðstæður og hefur Gaza-svæðið verið kallað stærstu fangabúðir heims. Aðgengi að nauðsynjavörum er takmarkað og ferðafrelsi Palestínumanna sömuleiðis. Á annað hundrað manns hafa fallið í árásum undanfarið og eru tugir barna þar á meðal. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ástandið á spítölum á Gaza sé orðið skelfilegt, þar skorti allar nauðsynjar og allar deildir séu yfirfullar af fólki sem hafi særst í árásunum. Hugmyndir um að hægt verði að koma á friði á svæðinu með hefðbundnum leiðum eru óraunsæjar enda hefur innanríkisráðherra Ísraels nýlega sagt að Gaza-ströndin verði sprengd aftur á miðaldir og slegið allar hugmyndir um vopnahlé út af borðinu. Hann segir tilganginn vera að tryggja öryggi Ísraelsríkis næstu fjóra áratugina. Palestínska þjóðin hefur verið á hrakhólum frá 1947 en alls er talið að um 5 milljónir Palestínumanna séu flóttamenn.

Bókun utanríkismálanefndar Alþingis frá 1. júní 2010.
    Meiri hluti utanríkismálanefndar Alþingis fordæmdi harðlega árás ísraelska hersins á tyrkneskt skip í skipalest á alþjóðlegri siglingaleið með hjálpargögn til Gaza-svæðisins árið 2010. Þá sagði í bókum meiri hluta utanríkismálanefndar: „Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi. Slit á stjórnmálasambandi við Ísrael kemur alvarlega til álita og er utanríkisráðherra falið að meta, í samvinnu við aðrar þjóðir, að úrræðum verði beitt sem talin eru áhrifaríkust til að knýja á um breytingar í samræmi við alþjóðalög, svo sem alþjóðlega samstöðu um viðskiptaþvinganir eða slit á stjórnmálasambandi við Ísrael, beri önnur úrræði ekki ávöxt.“

Ofbeldisaðgerðir og eignaupptaka gegn Palestínumönnum.
    Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
    „Samkvæmt alþjóðalögum og samþykktum hafa flóttamenn fullan rétt til þess að snúa aftur til heimkynna sinna. Ákvæði þessa efnis er meðal annars að finna í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðasáttmálanum um borgaraleg og pólitísk réttindi, í Genfarsáttmálanum og í ítrekuðum ályktunum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.“
    Einnig má færa rök fyrir því að sú stefna Ísraelsmanna að banna palestínskum flóttamönnum að snúa til heimila sinna á sama tíma og Gyðingar frá öðrum heimsálfum eru hvattir til að flytja til landsins og setjast að á herteknum svæðum sé brot á alþjóðasáttmála um bann við kynþáttamisrétti. Vísað er til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 frá 1967, en samkvæmt henni ber Ísrael að draga til baka her sinn frá svæðum sem voru hernumin í sex daga stríðinu árið 1967. Þá er miðað við grænu línuna svonefndu sem er vopnahléslínan frá árinu 1949.
    Áfram segir á Vísindavef Háskóla Íslands:
    „Ályktanir öryggisráðsins eiga að vera bindandi fyrir ríki heims. Að auki brýtur stefna og framferði Ísraelsmanna á herteknum svæðunum í bága við fjölda alþjóðalaga og alþjóðlegra samþykkta. Þar má nefna Genfarsáttmálann en í 49. grein hans er bannað með skýrum hætti að þegnar hernámsveldis setjist að á herteknum svæðum. Um það bil 400 þúsund Ísraelsmenn hafa sest að í svokölluðum landnemabyggðum á herteknu svæðunum, um helmingur þeirra í kringum Jerúsalem en þá borg hafa Ísraelsmenn þanið út yfir hertekin landsvæði í trássi við ákvæði Genfarsáttmálans. Flestar þessara ólöglegu byggða eru á Vesturbakkanum en þær eru þó einnig á Gazaströndinni þar sem 360 ferkílómetrum lands er skipt þannig að á einum þriðja búa fimm þúsund Ísraelsmenn en á tveimur þriðju ein milljón Palestínumanna.“
    Því er ljóst að aðgerðir Ísraelsmanna eru brot á Genfarsáttmálanum.
    Einnig segir á Vísindavef Háskóla Íslands:
    „Í 46. grein Haag-sáttmálans er eignaupptaka hernámsveldis á landi og öðru í einkaeign á hernumdum svæðum með öllu bönnuð. Landnemabyggðirnar, eða byggðir landtökumanna eins og þær eru líka stundum kallaðar, eru þó margar reistar á landi sem Ísraelsmenn hafa beitt valdi til að gera upptækt. Á hernámssvæðunum á Vesturbakkanum hafa Ísraelsmenn einnig lagt vegi á milli landnemabyggða á landi sem Ísraelsmenn hafa gert upptækt úr einkaeign Palestínumanna. Vegirnir kljúfa byggðir Palestínumanna í sundur en Palestínumönnum er bannað að nota þá. Vegirnir eru beinlínis lagðir með það í huga að skipta landi Palestínumanna niður í tugi eða jafnvel hundruð einangraða skika eins og augljóst verður af athugunum á kortum að þessum svæðum, en bæði byggðirnar og framkvæmdir við vegina eru augljós brot á alþjóðasamþykktum.
    Í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 465 segir líka að flutningur Ísraelsmanna á eigin þegnum til hernámssvæðanna sé „alvarleg hindrun“ í vegi friðar og í ályktuninni er þess krafist að Ísraelar hverfi frá landnemabyggðum á herteknu svæðunum. Vatn er af skornum skammti í Palestínu og notkun Ísraelsmanna á vatni af svæðum Palestínumanna brýtur einnig í bága við alþjóðasamþykktir, enda er þarna um að ræða eignaupptöku á langmikilvægustu auðlind landsins. Landtökumönnum mun vera úthlutaðar 1450 [rúmmetrum] af vatni á mann á ári en Palestínumenn hafa einungis 83 [rúmmetra] á mann til sinna umráða á ári hverju. Allt athafnalíf og daglegt líf á svæðum Palestínumanna líður mjög fyrir vatnsskort.
    Alþjóðasamfélagið hefur tjáð sig um þessi mál með ýmsum hætti. Það er annars auðvitað ekki eitt samstætt fyrirbæri og skoðanir innan þess eru skiptar á þessum málum sem og öllum öðrum. Allar þær ályktanir sem nefndar eru hér á undan og þau alþjóðalög og alþjóðasamþykktir sem vitnað er til má þó líta á sem skýlausar yfirlýsingar umheimsins enda eru nær öll ríki heims aðilar að þeim. Í tilviki öryggisráðsins hefur ekkert stórveldanna beitt neitunarvaldi gegn samþykktunum. […] Mikill hluti ríkja heims hefur einnig með einum eða öðrum hætti mótmælt stefnu Ísraelsmanna og brotum þeirra á alþjóðalögum og alþjóðasamþykktum.“
    Ólögmætt hernám Vesturbakkans, Gasa og Austur-Jerúsalem hefur brátt staðið yfir í hálfa öld. Háir múrar hafa verið reistir í seinni tíð sem skipta Palestínu upp í marga hluta. Ísrael heldur áfram landtökum, með sístækkandi byggðum, svo sem á Vesturbakkanum og í Austur- Jerúsalem. Ólögmæt landtaka Ísraela er á meðal þess sem spillt hefur friðarviðræðum. Palestínumenn hafa um árabil búið við mannréttindabrot sem ganga gegn ákvæðum þjóðaréttar, svo sem mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, fjórða Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum og ályktana Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi hefur lengi fjallað um þessi málefni og samþykkt eftirfarandi ályktanir: nr. 19/111 um deilur Palestínumanna og Ísraela frá 18. maí 1989, þar sem m.a. var lögð áhersla á rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna (sbr. 102. mál 111. þings), ályktun nr. 25/127 frá 30. apríl 2002 þar sem m.a. var krafist að hafnar yrðu friðarviðræður (sbr. 734. mál 127. þings) og loks nr. 1/140 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu (sbr. 31. mál 140. þings).

Innflutningur vara frá Ísrael.
    Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru fluttar inn vörur frá Ísrael fyrir rúmlega 1 milljarð króna árið 2011. Árið áður voru fluttar inn vörur fyrir rúmar 800 milljónir. Þar vega þyngst grænmeti og ávextir, grunnefni til efnaiðnaðar, framleiðsluvörur, vélar og samgöngutæki.
    Að því er fram kemur á vef samtakanna Ísland – Palestína eru þær ísraelsku vörur sem helst standa almenningi til boða í verslunum landbúnaðarvörur, t.d. lárperur og greipaldin. Vörur sem merktar eru „Palestinian Produce“ eða jafnvel „Product of Palestine“ eru oftar en ekki framleiddar af ísraelskum landtökumönnum á herteknu svæðunum en ekki Palestínumönnum, og er því um ísraelska vöru að ræða. Dæmi um slíkt eru Coral-jarðarber sem voru um tíma seld í verslunum 10–11, 11–11 og í Bónus. Þá hefur Ölgerðin Egill Skallagrímsson flutt inn léttvín frá Ísrael sem seld eru í ÁTVR. Dæmi um þau eru Golan-rauðvín, sem eru framleidd á hinum herteknu Gólanhæðum.
    Meðaln þeirra ísraelsku vara sem finnast í dag eru fersk krydd (tímían, basilíka, kóríander, o.s.frv.) í kælideild Bónus undir vörumerkinu King's. Í Byko má finna Kapro málmbönd og hallamál. Sem dæmi um ísraelska ávexti má nefna lárperur frá Kedem Hadarim. Í búðum The Pier og Signature of Nature í Smáralindinni er að finna húðkrem og aðrar snyrtivörur frá Yes To. Einnig vörur frá Sea of Spa og Sea of Life.
    Einnig kemur fram á vef samtakanna Ísland – Palestína að: „Þau fyrirtæki sem byggja fjarskiptakerfi sín að hluta á búnaði frá Ísrael eru Lína.net (Loftnet Línu.net) og Landssími Íslands (RAD háhraðamódem, o.fl.). Í sumum tilvikum er notandanum látinn í té ísraelskur búnaður frá þjónustuaðila kaupi hann þjónustu hans, þetta á til að mynda við um Loftnet Línu.Nets. Þá má geta þess að Gegnir, miðlægt upplýsingakerfi bókasafna á Íslandi, er hannað af ísraelsku fyrirtæki.“
    Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi upptalningu að ræða en nái tillagan fram að ganga verður ríkisstjórninni falið að útbúa tæmandi lista yfir umræddar vörur.

Fordæmi.
    Með lögum nr. 67 frá 20. maí 1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku, var bannað að flytja til Íslands vörur sem upprunnar voru í Suður-Afríku eða Namibíu og flytja frá Íslandi vörur til Suður-Afríku eða Namibíu eða gera samning um útflutning vara frá Íslandi þegar ljóst mátti vera að endanlegur áfangastaður varanna væri Suður-Afríka eða Namibía. Tilgangurinn með setningu laganna var að mótmæla aðskilnaðarstefnu suður- afrískra stjórnvalda. Lögin eru birt sem fylgiskjal með tillögu þessari. Sams konar lög voru sett annars staðar á Norðurlöndum.

Fríverslunarsamningar við Palestínu og Ísrael.
    Fríverslunarsamningur er í gildi við Ísrael. Samningurinn er marghliða, unninn á vegum EFTA, og verður því að skoða vandlega hvernig bann við innflutningi á ísraelskum vörum verður framkvæmt meðan samningurinn er í gildi fyrir Ísland. En það sem skiptir meira máli vegna þessarar tillögu er að fríverslunarsamningur er sömuleiðis í gildi við Palestínu. Allar vörur þaðan eru óhjákvæmilega fluttar í gegnum Ísrael til annarra ríkja meðan á ólögmætu hernámi Vesturbakkans, Gasa og Austur-Jerúsalem stendur yfir. Skoða þarf áhrif þessarar stöðu, svo sem áhrif á framkvæmd fríverslunar við Palestínu, leikreglur fríverslunarsamninganna og samspil við aðra samninga, svo sem Vínarsamning um alþjóðasamningarétt, aðferð við uppsögn eftir atvikum o.s.frv.

Niðurstaða.
    Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi. Mælirinn er fyrir löngu orðinn fullur. Nauðsynlegt er að bregðast við með afdráttarlausum hætti og senda ísraelskum stjórnvöldum skýr skilaboð um að þær reglur sem þjóðir heimsins hafi komið sér saman um skuli virtar.


Fylgiskjal.[Lög um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku] 1) 2)

1988 nr. 67 20. maí.


1) L. 30/1990, 4. gr. 2) Lögin féllu brott 30. apríl 1993 skv. lögum nr. 33/1993. Tóku gildi 8. júní 1988. Breytt með lögum 30/1990 (tóku gildi 18. maí 1990).

    1. gr.

    Óheimilt er að flytja til Íslands vörur sem upprunnar eru í Suður-Afríku … 1)
    Óheimilt er að flytja frá Íslandi vörur til Suður-Afríku … 1) eða gera samning um útflutning vara frá Íslandi þegar ljóst má vera við gerð samningsins að endanlegur áfangastaður varanna er Suður-Afríka… 1)
    [1. og 2. mgr. skulu einnig gild um svæði sem lúta yfirráðum Suður-Afríku.] 2)
1) L. 30/1990, 1. gr. 2) L. 30/1990, 2. gr.

2. gr.

    Utanríkisráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 2. mgr. 1. gr. ef mannúðarástæður mæla með því.

3. gr.

    Brot gegn ákvæðum þessara laga varða sektum eða allt að þriggja mánaða fangelsi þegar sakir eru miklar.
    Með brot skal farið að hætti opinberra mála.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Lögum þessum verður ekki beitt vegna innflutnings eða útflutnings sem á sér stað fyrir 1. janúar 1989 enda hafi verið samið um slík viðskipti fyrir gildistöku þessara laga.