Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 452. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 566  —  452. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunarum heildrænar meðferðir græðara.

Flm.: Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir,
Ólína Þorvarðardóttir, Álfheiður Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts. Í starfshópnum verði einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna: Bandalagi íslenskra græðara, embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti og verði sá síðasttaldi jafnframt formaður starfshópsins. Hópurinn skili niðurstöðu til velferðarráðherra fyrir árslok 2013.

Greinargerð.


    Með setningu laga um græðara, nr. 34/2005, var stigið fyrsta skref í viðurkenningu á því góða starfi sem græðarar sinna við að veita heildrænar meðferðir. Skv. 1. gr. laganna er markmið þeirra að stuðla að gæðum heilsutengdrar þjónustu græðara og öryggi þeirra sem leita eftir þjónustu þeirra eða nýta sér hana. Samkvæmt lögunum skal því markmiði m.a. náð með því að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara. Lögin taka til aðila, græðara, sem veita heilsutengda þjónustu utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu. Með heilsutengdri þjónustu græðara er átt við þjónustu sem einkum tíðkast utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu og byggist á hefð og reynslu. Þjónustan felur í sér meðferð með það að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun. Er því um afar fjölbreytta þjónustu að ræða sem öll stefnir þó að sama marki, að stuðla að betri heilsu þeirra sem nýta sér þjónustuna.
    Með aukinni notkun almennings á heildrænum meðferðum er hægt að spara stórar fjárhæðir sem annars mundu fara í lyfjakostnað hjá ríkinu. Í nágrannalöndum Íslands er í auknum mæli ávísað hreyfiseðlum við ýmsum lífsstílsvandamálum sem ágerast mjög með tímanum ef ekki er gripið tímanlega inn í og kunna að lenda þungt á heilbrigðiskerfinu á komandi árum. Hér geta heildrænar meðferðir komið almenningi öllum til góða. Bæði vísa læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn fólki að leita til græðara vegna ýmissa vandamála og fólk leitar einnig í auknum mæli til þeirra að eigin frumkvæði til að leita annarra leiða en hið almenna heilbrigðiskerfi býður upp á. Því miður er þó staðan sú í dag að Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði fólks við heildrænar meðferðir né eru þær undanþegnar greiðslu virðisaukaskatts eins og á við um almenna heilbrigðisþjónustu, sem og t.d. þjónustu hnykkjara. Þetta gerir það að verkum að heildrænar meðferðir eru dýrar og því má ætla að fleiri gætu nýtt sér þjónustuna ef hún yrði niðurgreidd.
    Vel er þekkt að menntaðir einstaklingar meðal löggiltra heilbrigðisstétta hafi lokið námi eða sótt námskeið á sviði heildrænna meðferða og beiti þeim í starfi til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er innan almenna heilbrigðiskerfisins, eða utan hennar í einkageiranum. Þessir einstaklingar standa enn sem komið er sterkari að vígi en hefðbundnir græðarar af því að um viðurkennda, löggilta heilbrigðisstarfsmenn er að ræða sem almenningur treystir almennt betur og þjónusta þeirra er auk þess undanþegin virðisaukaskatti. Með skráningu græðara á grundvelli laga um græðara, nr. 34/2005, má hins vegar ætla að traust sé að aukast meðal almennings á starfsemi græðara og heildrænum meðferðum og er það vel. Flutningsmenn telja hins vegar að gera megi enn betur. Í könnun frá 2006 kemur fram að 32% aðspurðra nýta sér þjónustu sem felur í sér einhvern þátt heildrænna meðferða og má ætla að það hlutfall hafi aukist á síðustu árum. Því er ástæða til að kannað verði með heildstæðum hætti hvort rétt sé að Sjúkratryggingar Íslands komi að niðurgreiðslu heildrænna meðferða til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og þá á hvaða hátt það verði gert, með sérstökum samningum við Sjúkratryggingar Íslands eða á grundvelli lagabreytinga sem veiti græðurum með viðurkennda menntun að baki samsvarandi stöðu og aðrar heilbrigðisstéttir. Rétt er að starfshópurinn taki allar mögulegar leiðir til skoðunar og skili rökstuddum niðurstöðum um hvaða leið sé best að fara í þessum efnum.