Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1100  —  435. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um
dótturfélög Seðlabanka Íslands.


    Ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum hjá Seðlabanka Íslands. Eru svörin sem hér fylgja byggð á upplýsingum bankans.

     1.      Hver er fjöldi, heiti og kennitölur allra dótturfélaga í heildarsamstæðu Seðlabanka Íslands og Eignasafns Seðlabanka Íslands?
    Félög í eigu Seðlabanka Íslands eru eftirfarandi:
          Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., kt. 701209-2060.
          Greiðsluveitan ehf., kt. 680800-3240.
          Sölvhóll ehf., kt. 701209-1920.

    Félög í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. eru eftirfarandi:
          Hilda ehf., kt. 491109-0250.

    Félög í eigu Hildu ehf. eru eftirfarandi:
          Tolbugt AS, um er að ræða norskt félag sem á eina fasteign í Noregi.

     2.      Hver er tilgangur Seðlabanka Íslands með stofnun og rekstri hvers þessara dótturfélaga um sig?

ESÍ og Sölvhóll.
    Tilgangur Seðlabanka Íslands með stofnun ESÍ kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur í þingskjali 1099 í 436. máli. Engir starfsmenn voru hjá ESÍ á árinu 2012, einungis er um að ræða eignarhaldsfélag.
    Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 varð Seðlabankinn stór kröfuhafi gagnvart innlendum fjármálafyrirtækjum vegna krafna sem tryggðar voru með veðum af ýmsum toga.
    Í árslok 2009 var umsýsla og úrvinnsla krafna og fullnustueigna orðið afar umfangsmikið verkefni í starfsemi Seðlabankans sem féll ákaflega illa að hlutverki, starfsemi og skipulagi bankans. Brýnt var að fundið yrði viðunandi framtíðarskipulag á úrvinnslu og stýringu þessara eigna og þar með koma á nauðsynlegri aðgreiningu milli Seðlabankans sem kröfuhafa í þrotabú fjármálafyrirtækja og Seðlabankans sem slíks. Nauðsynlegt er að efnahagsreikningur Seðlabankans endurspegli hans lögbundna og hefðbundna hlutverk en úrvinnsla krafna flokkast ekki undir hefðbundið hlutverk seðlabanka og með því að aðgreina þær eignir sem tengjast hruninu þá endurspeglar efnahags- og rekstrarreikningur Seðlabankans annars vegar hreinan seðlabankarekstur en efnahags- og rekstrarreikningur eignarhaldsfélagsins endurspeglar hins vegar úrvinnsluhlutann. Í samstæðureikningi er þetta síðan allt tekið saman. Þessari aðgreiningu hefði ekki verið hægt að ná fram á jafn skýran hátt ef þær eignir sem fóru inn í eignarhaldsfélagið hefðu áfram staðið inni á efnahagsreikningi Seðlabankans á meðal hefðbundinna eigna bankans, svo sem gjaldeyrisvaraforðans. Með því að færa umsýslu krafna og fullnustueigna í sérstakt félag skapaðist ákveðin fjarlægð frá hefðbundinni starfsemi Seðlabankans og þar með dregið úr hættu á að þessi viðfangsefni rekist á við önnur verkefni bankans auk þess sem svigrúm fæst til að auka verðgildi eignanna. Mótaðili í innheimtu verður þannig ekki formlega séð Seðlabankinn. Aðskilinn fjárhagur gefur einnig mun betra tækifæri til að rekja endurheimtur og kostnað við umsýsluna á kröfunum.
    Sölvhóll ehf., sem stofnað var á sama tíma og ESÍ, hefur hins vegar það hlutverk að vinna úr eignunum með það að markmiði að hámarka virði þeirra og koma í verð þegar markaðsaðstæður leyfa með samþykki stjórnar ESÍ. Ástæðan fyrir því að stofnuð voru tvö félög var sú að á þeim tímapunkti (árslok 2009) sem þau voru stofnuð lá ekki annað fyrir en að Seðlabankinn mundi áfram annast ráðgjöf og umsýslu þeirra krafna og veða sem ríkissjóður hafði tekið yfir frá Seðlabankanum og krafna sem stöfuðu af verðbréfalánum Lánasýslu ríkisins um áramót 2008/2009. Til upprifjunar þá leysti ríkissjóður til sín um áramótin 2008/2009 kröfur Seðlabankans sem tryggðar voru með óvörðum verðbréfum útgefnum af gömlu bönkunum svonefndu og kröfuréttindum sem fjármálafyrirtækin Askar Capital, Saga Capital, Straumur-Burðarás og VBS fjárfestingarbanki höfðu sett Seðlabankanum að veði. Samkomulag var milli Seðlabankans og ríkissjóðs að Seðlabankinn skyldi annast umsýslu og veita ríkissjóði ráðgjöf um meðferð þessara krafna sem og krafna ríkissjóðs vegna verðbréfalánaviðskipta Lánasýslu ríkisins við fjármálafyrirtæki. Í febrúar 2010 var ákveðið að taka samkomulagið frá áramótum 2008/2009 upp með þeim hætti að eignir sem ríkissjóður hafði leyst til sín skyldu framseldar Seðlabankanum að nýju. Jafnframt var undirritað samkomulag um kaup á kröfum af ríkissjóði á fjármálafyrirtæki sem tekin hafa verið til slitameðferðar vegna verðbréfalánaviðskipta þeirra við Lánasýslu ríkisins. Þessar eignir runnu síðan frá Seðlabankanum til ESÍ.
    Þar sem ekki er lengur um umsýslu krafna að ræða fyrir hönd ríkissjóðs er stefnt að því að leggja niður Sölvhól ehf. og færa starfsmenn þess félags yfir til ESÍ.
    Tilgangur Seðlabankans með stofnun Sölvhóls ehf. er að þjónusta ESÍ, þar eru fjórir starfsmenn í lok árs 2012 sem einungis sinna verkefnum fyrir ESÍ og Hildu en á litlar sem engar eignir. Ákveðið hefur verið að sameina skuli ESÍ og Sölvhól ehf.

Hilda ehf.
    Hilda ehf. (Hilda) er félag sem Saga Capital hf. (SC) stofnaði á árinu 2009 vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar. Við þá endurskipulagningu voru eignir færðar frá SC til Hildu ásamt kröfum ríkissjóðs á SC sem upphaflega voru tilkomnar vegna veðlána Seðlabankans og verðbréfalána Lánasýslunnar til SC. ESÍ eignaðist þessar kröfur í upphafi árs 2010. Á miðju ári 2011 var ljóst að eignir Hildu dygðu ekki fyrir skuldum við ESÍ og var allt hlutafé Hildu fært niður að fullu og aukið aftur með þeim hætti að ESÍ breytti hluta af skuldum Hildu í hlutafé og tók félagið yfir.

Greiðsluveitan.
    Seðlabankinn eignaðist Greiðsluveituna að fullu við uppskipti og formbreytingu á Reiknistofu bankanna. Greiðsluveitan (áður Fjölgreiðslumiðlun) var stofnuð 30. maí 2000. Eigendur félagsins allt frá stofnun voru Seðlabankinn (8% eignarhluti við stofnun), viðskiptabankar, sparisjóðir og kortafyrirtæki. Seðlabankinn eignaðist Greiðsluveituna að fullu í ársbyrjun 2011 í tengslum við nýskipan kjarna- og stoðkerfa íslenskrar greiðslumiðlunar samhliða sölu á hlut bankans í Reiknistofu bankanna (RB). Félagið hefur frá stofnun haft með höndum rekstur á jöfnunar- og RÁS-kerfi (heimildar- og færsluvísunarkerfi fyrir greiðslukort). Við sölu Seðlabankans á hlut sínum í RB kom í hlut bankans auk alls hlutafjár í Greiðsluveitunni þrjú kerfi sem áður voru í eigu RB, þ.e. Kröfupottur, Birtingur og SWIFT-Alliance kerfið. Öll þessi kerfi tengjast kerfislega þýðingarmesta greiðslukerfi landsins, þ.e. stórgreiðslukerfi Seðlabankans. Í öllum tilvikum er um að ræða kerfi eða fjármálainnviði sem fjármálafyrirtæki þurfa aðgang að til þess að geta stundað starfsemi á samkeppnismarkaði.

     3.      Hverjir sitja í stjórnum dótturfélaga Seðlabanka Íslands og hvaða reglur gilda um skipanir í slíkar stöður og launakjör?
    Stjórn ESÍ í lok árs 2012 er skipuð eftirtöldum einstaklingum:
          Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra Seðlabanka Íslands, formaður.
          Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands.
          Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta Seðlabanka Íslands.

    Stjórn Hildu í lok árs 2012 er skipuð eftirtöldum einstaklingum:
          Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri Sölvhóls ehf., formaður.
          Birgir Birgisson, lögfræðingur hjá Sölvhóli ehf.
          Eva Benediktsdóttir, sérfræðingur hjá Sölvhóli ehf.

    Stjórn Tolbugt AS í lok árs 2012 er skipuð eftirtöldum einstaklingum:
          Birgir Birgisson, lögfræðingur hjá Sölvhóli ehf.
          Bjørn Jahre, endurskoðandi (óháður stjórnarmaður).
         Ekki eru greidd stjórnarlaun né önnur hlunnindi til þeirra starfsmanna er sitja í framangreindum stjórnum.

    Stjórn Greiðsluveitunnar ehf. er skipuð eftirtöldum einstaklingum:
          Guðmundur Kr. Tómasson, framkvæmdastjóri greiðslukerfa Seðlabanka Íslands, formaður.
          Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri gagnaöflunar og upplýsingaúrvinnslu Seðlabanka Íslands.
          Gerður Ísberg, aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta Seðlabanka Íslands.
          Finnur Sveinbjörnsson, ráðgjafi (óháður stjórnarmaður).
    Félagið greiðir stjórnarlaun, 150 þús. kr. á mánuði. Stjórnarlaun eru ekki greidd til starfsmanna Seðlabankans, en renna þess í stað til bankans sjálfs. Óháður stjórnarmaður fær hins vegar greidd stjórnarlaun til sín.

     4.      Hver eru tengsl Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga við Dróma hf., þ.m.t. eignatengsl, kröfutengsl, stjórnunartengsl og samningssamband?

    Eins og áður hefur komið fram þá voru eignir SPRON færðar yfir í Dróma hf., þ. m. t. lánasafn sem sett hafði verið Seðlabankanum að veði. Í lok árs 2011 samþykkti slitastjórn SPRON uppgjör og fullnustu á veðkröfu ESÍ (sem síðar var framseld til Hildu). Þar með varð Hilda eigandi að lánasöfnunum en þar til annað verður ákveðið, þá samþykkti Drómi að þjónusta lánin áfram. Ákvarðanir um lán eru teknar af lánanefnd Hildu en ekki lánanefnd Dróma. Ekki er um önnur tengsl við Dróma að ræða. Unnið er að flutningi lána frá Dróma yfir til Arion banka sem þá mun taka að sér að þjónusta lánasafnið.