Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 102. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 105  —  102. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.


Flm.: Margrét Gauja Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Björk Vilhelmsdóttir.


    Alþingi ályktar að skora á umhverfis- og auðlindaráðherra að láta kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að minnka plastpokanotkun hér á landi. Gerð verði könnun á því hvaða kostir eru hagkvæmir og í því tilliti verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun.


Greinargerð.

    Undanfarna áratugi hefur mikil vakning orðið í samfélaginu um umhverfisvernd og endurnýtingu. Samfara auknu upplýsingaflæði og tæknivæðingu hefur endurvinnsla á notuðum umbúðum aukist til muna.
    Það er alkunna að plastpokar og aðrar plastumbúðir utan um matvæli og efnavörur hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Plast eykur eftirspurn eftir olíu og það brotnar treglega niður í náttúrunni. Því hafa nokkur ríki í Evrópu gripið til úrræða eins og banns eða skattlagningar á notkun plastpoka til að draga úr magni þeirra í umferð og þar með neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið. Í þessu tilliti má sérstaklega benda á Írland, Þýskaland, Holland, Belgíu, Sviss og Ítalíu.
    Flutningsmenn telja að ástæða sé til að kannað verði með heildstæðum hætti hvort rétt sé að grípa til sambærilegra aðgerða hér og gert hefur verið í sumum Evrópuríkjum til að draga úr notkun plastpoka.