Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 212. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 274  —  212. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um umferðarljósamerkingar á matvæli.


Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Willum Þór Þórsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja vinnu við undirbúning að upptöku næringarmerkis á hérlendri matvöru. Merkið verði að breskri fyrirmynd í formi umferðarljósa sem sýni næringargildi matvæla framan á umbúðum.

Greinargerð.

    Skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar um næringargildi matvæla eru afar mikilvægar fyrir neytendur og auðvelda þeim að taka upplýsta ákvörðun. Þær merkingar sem er skylt að setja á umbúðir matvæla um næringargildi geta verið illskiljanlegar fyrir marga. Bæði eru upplýsingarnar af skornum skammti, ruglingslegar á tíðum og auk þess eru oft villandi fullyrðingar um hollustu matvæla á umbúðum. Þá er jákvæðum kostum matvæla óspart haldið á lofti en stundum dýpra á upplýsingar sem snúa að magni viðbætts sykurs og salts svo að dæmi sé tekið.
    Mikilvægt er að neytendur taki ábyrgð á eigin heilsu og séu meðvitaðir um næringargildi og innihald þeirra matvæla sem þeir neyta. Til að svo sé verða þeir að skilja þær upplýsingar sem í boði eru. Bretar hafa innleitt næringargildismerkingar framan á umbúðir sem neytendur eiga auðvelt með að skilja og meðtaka. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra láti hefja vinnu við undirbúning að því að taka upp næringarmerki á matvæli að breskri fyrirmynd, svokölluð umferðarljós eða „traffic light label“ þar sem litir ljósanna gefa til kynna hversu holl eða óholl tiltekin vara er. Reynsla Breta af upptöku merkisins er jákvæð og sýnir að neytendum hugnast vel einfaldar merkingar á borð við umferðarljósin.

Umferðarljósamerkingar.
    Árið 2004 hófst umræða um nýjar skiljanlegri næringargildismerkingar í Bretlandi, svokallaðar umferðarljósamerkingar, „traffic light label“, sem setja ætti framan á umbúðir. Velferðarnefnd breska þingsins lagði til að málið yrði skoðað sem hluti af rannsókn á aukinni tíðni offitu og hugsanlegum tengslum við mataræði.
    Árið 2006 kynnti breska matvælastofnunin umferðarljósamerkingar formlega til sögunnar. Um er að ræða einfaldar og skiljanlegar upplýsingar um hlutfall sykurs, salts, fitu og mettaðrar fitu í matvörum og er merkingin sett framan á umbúðir matvæla. Gefnir eru litir fyrir hvern þátt sem einkunnir fyrir næringargildi þeirra. Grænt ljós þýðir að neytandi megi borða nægju sína af tiltekinni vöru, gult ljós að borða skuli þá vöru í hófi og rautt ljós að borða eigi lítið af viðkomandi vöru. Merkingin er valfrjáls og strax í upphafi ákváðu nokkrir framleiðendur að setja hana á vörur sínar. Næstu árin var deilt nokkuð um framkvæmdina þar sem sumir framleiðendur notuðu „guideline daily amount (GDA)“ merkingar (áætluð dagsþörf), aðrir umferðarljós og sumir samsetningu þessara tveggja. Breska matvælastofnunin gerði óháða úttekt árið 2009 á því hvaða merking höfðaði best til neytenda og var niðurstaðan sú að umferðarljós í bland við GDA væri skiljanlegust. 1
    Í framhaldinu ákváðu stórir framleiðendur að taka upp slíka merkingu og heilbrigðisráðherrann breski studdi framtakið. Þar sem framleiðendur höfðu notast við ýmsar útfærslur var unnið í því að samræma merkinguna og hafði heilbrigðisráðuneytið yfirumsjón með því. Hin nýja útfærsla var opinberlega kynnt í júní 2013 og við það tilefni kynntu Nestlé, Pepsico, Mars and Premier Foods að þau mundu taka þátt í verkefninu. Í dag má gróflega reikna með að um 60% matvælaframleiðenda í Bretlandi noti merkinguna. Þá er einnig vinna í gangi við innleiðingu svipaðs kerfis í Ástralíu.
    Í norrænni könnun sem gerð var 2006 voru neytendur spurðir að því hvernig merking þeim hugnaðist best og voru 1.000 Íslendingar meðal svarenda. Niðurstaðan var sú að yfirgnæfandi meiri hluti kaus myndir og merki í stað prentaðs texta. 2
    Markmið Breta með því að innleiða nýja næringargildismerkingu framan á umbúðir var að upplýsa neytendur betur um næringargildi matvæla og gera þeim kleift að taka meðvitaða ákvörðun. Merkingin er einföld og aðgengileg og neytendur geta á augabragði metið hollustu/óhollustu vörunnar. Vilji fólk forðast salt er þannig nóg að skoða hvort merkingin fyrir salt sé rauð, gul eða græn. Þá gerir merkingin samanburð milli vörutegunda auðveldari en margir veigra sér við því að kafa ofan í innihaldslýsingar og töflur um næringargildi sem finna má á pakkningum matvæla. Þá eru slíkar merkingar iðulega aftan á pakkningunum en umferðarljósin eru framan á pakkningunum. Við innleiðingu kerfisins í Bretlandi mættu stjórnvöld fyrst mikilli andstöðu matvælaframleiðenda sem tóku upp sitt eigið merkingarkerfi (GDA) til höfuðs umferðarljósunum. Framleiðendur sáu þó fljótlega kosti merkinganna og tóku æ fleiri framleiðendur merkið upp eins og áður sagði. Nauðsynlegt er að vinna við innleiðingu merkinga eins og umferðarljósa verði unnin í samstarfi við matvælaframleiðendur svo að sem flestir noti merkingarnar og þær séu þannig neytendum og framleiðendum til hagsbóta.
    Nýlega var Skráargatið innleitt á Íslandi en í stuttu máli er það merki sem einungis hollasta varan í hverjum vöruflokki má bera. Matvæli eins og sælgæti, ís, kex og kökur geta ekki fengið Skráargatið. Umferðarljósamerkingarnar eru ekki hollustumerki heldur merkingar um næringargildi matvæla og eru merkin notuð á allar tegundir matvæla.

Bætt heilsa með bættu mataræði.
    Óhollt mataræði er ástæða margra lífsstílssjúkdóma. Offita er einnig vaxandi vandamál á Íslandi en helsta orsök hennar er óhollt mataræði og lítil hreyfing. Tæplega 59% fólks á aldrinum 18–80 ára eru yfir kjörþyngd og 21% flokkast með offitu árið 2011 samanborið við 13,1% árið 2002. 3 Lífsstílssjúkdómar kosta heilbrigðiskerfið gríðarlega fjármuni ár hvert og er til mikils að vinna að lækka þann kostnað. Ljóst er að merkingar á matvæli munu ekki uppræta offituvandamál eða aðra tengda lífsstílssjúkdóma. Skiljanlegar næringargildismerkingar á matvæli skipta hins vegar miklu máli ef markmiðið er að beina fólki í átt að neyslu hollari matvæla. Það er einnig mikilvægt að allir þjóðfélagshópar hafi sömu möguleika á að velja holl matvæli til neyslu. Þar sem merkingar á næringargildi matvæla eru núna fremur flóknar getur verið erfitt fyrir fólk að átta sig á þeim og á það sérstaklega við um einstaka þjóðfélagshópa. Börn, íbúar af erlendu bergi brotnir og fólk sem er lítt skólagengið er líklegra til að eiga erfiðara með að átta sig á næringargildi matvæla miðað við núverandi merkingar. Val um hollt mataræði þarf hins vegar að standa öllum til boða og því munu einfaldar næringargildismerkingar veita öllum þjóðfélagshópum val um neyslu hollra matvæla ef fólk kýs svo.

Dæmi um nýju bresku næringargildismerkinguna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Neðanmálsgrein: 1
1     www.food.gov.uk/multimedia/pdfs/pmpreport.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2     www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11559/jonina-stefans_fyrirlestur_13._sept2007.pdf
Neðanmálsgrein: 3
3     www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item14901/Hva%C3%B0%20bor%C3%B0a%20%C3%8Dslen dingar_april%202012.pdf