Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 138. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 283  —  138. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, með síðari breytingum (umsýslustofnun).


Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Torfa Jóhannesson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gunnlaug Kristinsson frá GK endurskoðun ehf. og Einar Örn Ólafsson og Ólaf H. Jónsson frá Skeljungi hf. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun og Skeljungi hf.
    Með frumvarpinu er lagt til að Byggðastofnun taki við hlutverki Neytendastofu samkvæmt gildandi lögum og sinni eftirleiðis daglegum rekstri flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og annist greiðslur vegna flutningsjöfnunar. Talið er heppilegra að framkvæmdin sé falin einni af undirstofnunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en Neytendastofa heyrir undir innanríkisráðuneyti. Þá sinnir Byggðastofnun þegar öðrum byggðatengdum jöfnunaraðgerðum.
    Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að af 10 millj. kr. rekstrarkostnaði sjóðsins næmi kostnaðar vegna launa fyrir setu í stjórn hans um 4,5 millj. kr. Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði þess efnis að ekki verði greidd laun fyrir setu í stjórn sjóðsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki eru greidd laun fyrir setu í stjórn sjóðsins.

    Björt Ólafsdóttir og Ásmundur Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. nóvember 2013.


Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Haraldur Benediktsson.



Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.


Þorsteinn Sæmundsson.



Þórunn Egilsdóttir.