Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 170. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 506  —  170. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur
um tekjur ríkissjóðs af hverjum ferðamanni.


     1.      Hvað komu margir ferðamenn hingað til lands árin 2002–2012?
    Eftirfarandi tafla sýnir heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu hingað til lands árin 2002–2012. Gögnin eru frá Ferðamálastofu.

2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012
Fjöldi ferðamanna 277.900 320.000 360.400 374.100 422.300 485.000 502.000 493.900 488.600 565.600 672.900
Breyting frá fyrra ári 15,15% 12,63% 3,80% 12,88% 14,85% 3,51% -1,61% -1,07% 15,76% 18,97%

     2.      Hverjar voru tekjur ríkissjóðs af hverjum ferðamanni að meðaltali framangreind ár, sett fram fyrir hvert ár á verðlagi ársins 2013?
    Hagstofa Íslands hefur á undanförnum árum annast tölfræðivinnslu um áhrif ferðaþjónustu á tilteknar hagstærðir, eða allt fram til ársins 2012 þegar vinnslan stöðvaðist vegna fjárskorts. Síðustu tölur úr þeirri vinnu eru frá árinu 2009. Í eftirfarandi töflu koma fram áætlaðar beinar skatttekjur af hverjum ferðamanni tímabilið 2002–2009 samkvæmt umræddri vinnslu Hagstofunnar en fjárhæðir fyrir 2010–2012 eru áætlaðar út frá veltu erlendra greiðslukorta innan lands á grundvelli gagna frá Hagstofunni.

2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012
Skattar á ferðaþjónustu alls (millj. kr.) 8.859 9.688 10.652 10.953 12.307 11.954 13.064 13.389 13.406 17.198 20.630
Skattar á hvern ferðamann (kr.) 31.878 30.275 29.556 29.278 29.143 24.647 26.024 27.109 27.439 30.407 30.659
Skattar á hvern ferðamann (verðlag 2013) 59.046 54.944 52.002 49.528 46.215 37.201 34.860 32.420 31.137 33.177 31.801

    Uppfærsla fjárhæða til verðlags 2013 tekur mið af breytingum á vísitölu neysluverðs.

     3.      Hverjar eru helstu skýringar á tekjumun milli ára?

    Gengið er út frá þeirri forsendu að átt sé við þróun beinna skatttekna á föstu verðlagi á hvern ferðamann yfir tímabilið 2002–2012, sem sýnir umtalsverða lækkun í krónum talið. Ljóst er að margir samverkandi þættir liggja að baki þeirri lækkun sem erfitt er að meta hvern fyrir sig. Ráðuneytið hefur ekki yfir að ráða slíkri greiningu, en leiða má að því sterkar líkur að þessi mikla fjölgun ferðamanna feli í sér breytingar á samsetningu hópsins. Ýmsar kannanir virðast benda til þess að hver ferðamaður eyði lægri fjárhæðum hér á landi en í upphafi tímabilsins sem skoðað er. Gistimöguleikum hérlendis hefur til dæmis fjölgað verulega, sérstaklega í ódýrari kantinum, sem væntanlega á sinn þátt í að skapa grundvöll fyrir þeirri fjölgun sem orðið hefur. Lækkun virðisaukaskatts 1. mars 2007 úr 14% í 7%, á matvöru, veitinga- og gistiþjónustu, skýrir væntanlega einnig hluta af þessari þróun þar sem þau viðskipti veita ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts eins og kaup á varanlegum varningi.