Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fram skipulega áætlun til átján mánaða um aðstoð við sýrlenska flóttamenn þar sem hugað verði að móttöku flóttamanna til Íslands og auknum fjárstuðningi til hjálparstarfs. Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við börn og heilbrigðismál.
Flóttamannastraumurinn yfir landamærin er þó aðeins brot af þeim fólksflutningum sem eiga sér stað vegna stríðsátakanna í landinu, en talið er að 4,25 milljónir manna sem hrakist hafa frá heimilum sínum séu enn innan landamæra Sýrlands, á vergangi eða búi við slæmar bráðabirgðaaðstæður. Óljósar fréttir hafa borist af hlutskipti fólks á flótta innan lands í Sýrlandi. Fréttir af hinum, sem eru utan landamæranna, eru skýrari. Öllum ber saman um að álagið á grannríkin sé gríðarlegt. Tyrkir hljóta almennt lof þeirra sem fylgjast með gangi mála fyrir hve mjög þeir leggja sig fram um að búa vel að fólkinu þótt ástandið sé að verða þeim óviðráðanlegt þar sem fjöldinn sé orðinn meira en 700 þúsund manns samkvæmt nýjustu tölum. Í Írak eru um 200 þúsund sýrlenskir flóttamenn, margir þeirra Kúrdar, og virkar dvöl þeirra í landinu sem olía á ófriðareldinn sem logar á þessum slóðum langt inn í Írak. Í Líbanon er ástandið skelfilegt. Þangað streyma nú að jafnaði á degi hverjum tvö til þrjú þúsund manns og er heildarfjöldi flóttamanna í landinu farinn að nálgast milljón. Það er mikið álag fyrir þjóð sem er tæpar fimm milljónir og á sjálf við miklar erjur og efnahagsþrengingar að stríða. Í Líbanon skortir alla innviði til að takast á við vandann og er ástandið eftir því. Sama gildir um Jórdaníu, þar er fjöldi sýrlenskra flóttamanna nú yfir hálf milljón.
Fulltrúum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, fulltrúum Evrópuráðsins og annarra samtaka og stofnana, sem fylgst hafa grannt með hlutskipti sýrlenskra flóttamanna, ber saman um að ástandið sé verra en fólk almennt geti gert sér í hugarlund. Þessar stofnanir og samtök hvetja ríki heims til þess að leggja af mörkum alla þá aðstoð sem þau hafa tök á að veita.
Meiri hluti þeirra sem hrekst undan styrjaldarátökunum í Sýrlandi eru börn og konur eru í meiri hluta fullorðinna. Ofbeldi í þeirra garð er sagt vera yfirgengilegt.
Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna telur að innan landamæra Sýrlands séu 6,8 milljónir manna sem þarfnist neyðaraðstoðar til viðbótar flóttafólkinu sem hefst við í grannríkjunum. Fulltrúar hjálparstofnana lýsa þungum áhyggjum af fórnarlömbum stríðsins, ekki síst þeim sem enn eru á barnsaldri. Ungar stúlkur eru þar í mestri hættu og er augljóst að mikið er um málamyndagiftingar sem eru angi af kynlífsþrælkun, sem og aukið mansal og ofbeldi.
Aðstoð Evrópuþjóða hefur verið af skornum skammti þegar horft er til þess hve risavaxinn vandinn er en þó er mjög mismunandi hvernig ríkin hafa brugðist við. Árið 2012 sóttu 24.110 sýrlenskir flóttamenn um hæli í löndum Evrópusambandsins og veittu Svíar 7.920 þeirra hæli, Þjóðverjar skutu skjólshúsi yfir álíka marga en önnur Evrópulönd langtum færri og allmörg veittu engum Sýrlendingi hæli. Á þriðja ársfjórðungi 2013 höfðu 14.135 Sýrlendingar sótt um hæli í 28 löndum Evrópusambandsins og voru borgarar þessa stríðshrjáða lands stærsti einstaki hópur flóttafólks í Evrópusambandinu. Sem áður fengu flestir þeirra athvarf í Svíþjóð og Þýskalandi.
Mannréttindastofnanir hvetja ríki Evrópu sérstaklega til að opna frekar landamæri sín fyrir sýrlensku flóttafólki í stað þess að skella í lás. Evrópuráðið og fleiri stofnanir og samtök sem sinna mannréttindamálum hafa hvatt ríki heims til þess að taka virkan þátt í áætlunum og áformum um að taka á móti flóttafólki. Talsmaður mannréttinda hjá Evrópuráðinu (Commissioner of Human Rights) hefur tekið mjög undir þetta sjónarmið og sagt að Evrópuríkin geti ekki keypt sig frá vandanum með peningagjöfum einum saman. Nauðsynlegt er að við framkvæmd þessarar þingsályktunartillögu verði alvarlega hugað að þessu sjónarmiði.
Þótt fleira þurfi til en peninga deilir enginn um mikilvægi fjárstuðnings og er þakkarvert að mörg ríki hafa látið fé af hendi rakna. Á það ber að líta að um er að ræða milljónir manna sem þurfa á daglegu viðurværi, lyfjum og heilbrigðisþjónustu að halda auk alls sem snýr að skólakennslu og aðhlynningu í aðbúnaði barna. Talsmaður mannréttinda hjá Evrópuráðinu hefur réttilega bent á að þetta sé ekki einungis alvarlegasti vandi sem upp hefur komið í sambandi við fólksflótta á síðustu áratugum heldur einnig ein alvarlegasta ógn gagnvart réttindum barna sem Evrópa stendur frammi fyrir. Ekki má gleyma því að allt líf þessa fólks er úr skorðum gengið og það sem verra er að staða flóttamannsins gæti orðið hlutskipti uppvaxandi kynslóðar um ófyrirsjáanlegan tíma takist ekki að stöðva stríðið. Allt yrði þetta síðan eldsmatur frekari átaka í framtíðinni. Það er því mikið í húfi að heimsbyggðin sameinist um að þrýsta á stríðsaðila að leggja niður vopn, að láta fé af hendi rakna til stuðnings flóttafólkinu og að opna eigin faðm fyrir flóttamenn með því að veita þeim landvist.
Á undanförnum tveimur árum hefur íslenska ríkið varið um 100 millj. kr. til neyðaraðstoðar vegna stríðshörmunganna í Sýrlandi. Hefur þetta fé ýmist verið nýtt til neyðaraðstoðar á vegum hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna eða íslenskra hjálparstofnana sem einnig hafa aflað fjár til styrktar Sýrlendingum meðal almennings.
Það er ástæða til að fagna þessum stuðningi svo og stuðningi Reykjavíkurborgar. Þar var haustið 2013 samþykkt að veita sem svarar 100 kr. á hvert barn eða alls 2.881.500 kr. í neyðaraðstoð til Sýrlands.
Þótt fyrirliggjandi stuðningur sé góðra gjalda verður þá er ástandið svo alvarlegt og eymd heillar milljónar barna svo mikil að ástæða er til að íslensk stjórnvöld leggi fram skýra áætlun um hvernig þau geti með skipulegum hætti hlúð frekar að betri aðbúnaði þeirra sem mest þurfa á að halda. Íslendingar geta tekið á móti flóttamönnum, látið meira fé af hendi rakna og geta og eiga að rétta hjálparhönd með beinni aðstoð hjúkrunarfólks í samráði við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðra aðila eftir atvikum.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.
Þingskjal 608 — 318. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar
um aðstoð við sýrlenska flóttamenn.
Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir,
Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fram skipulega áætlun til átján mánaða um aðstoð við sýrlenska flóttamenn þar sem hugað verði að móttöku flóttamanna til Íslands og auknum fjárstuðningi til hjálparstarfs. Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við börn og heilbrigðismál.
Greinargerð.
Flóttamannastraumurinn yfir landamærin er þó aðeins brot af þeim fólksflutningum sem eiga sér stað vegna stríðsátakanna í landinu, en talið er að 4,25 milljónir manna sem hrakist hafa frá heimilum sínum séu enn innan landamæra Sýrlands, á vergangi eða búi við slæmar bráðabirgðaaðstæður. Óljósar fréttir hafa borist af hlutskipti fólks á flótta innan lands í Sýrlandi. Fréttir af hinum, sem eru utan landamæranna, eru skýrari. Öllum ber saman um að álagið á grannríkin sé gríðarlegt. Tyrkir hljóta almennt lof þeirra sem fylgjast með gangi mála fyrir hve mjög þeir leggja sig fram um að búa vel að fólkinu þótt ástandið sé að verða þeim óviðráðanlegt þar sem fjöldinn sé orðinn meira en 700 þúsund manns samkvæmt nýjustu tölum. Í Írak eru um 200 þúsund sýrlenskir flóttamenn, margir þeirra Kúrdar, og virkar dvöl þeirra í landinu sem olía á ófriðareldinn sem logar á þessum slóðum langt inn í Írak. Í Líbanon er ástandið skelfilegt. Þangað streyma nú að jafnaði á degi hverjum tvö til þrjú þúsund manns og er heildarfjöldi flóttamanna í landinu farinn að nálgast milljón. Það er mikið álag fyrir þjóð sem er tæpar fimm milljónir og á sjálf við miklar erjur og efnahagsþrengingar að stríða. Í Líbanon skortir alla innviði til að takast á við vandann og er ástandið eftir því. Sama gildir um Jórdaníu, þar er fjöldi sýrlenskra flóttamanna nú yfir hálf milljón.
Fulltrúum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, fulltrúum Evrópuráðsins og annarra samtaka og stofnana, sem fylgst hafa grannt með hlutskipti sýrlenskra flóttamanna, ber saman um að ástandið sé verra en fólk almennt geti gert sér í hugarlund. Þessar stofnanir og samtök hvetja ríki heims til þess að leggja af mörkum alla þá aðstoð sem þau hafa tök á að veita.
Meiri hluti þeirra sem hrekst undan styrjaldarátökunum í Sýrlandi eru börn og konur eru í meiri hluta fullorðinna. Ofbeldi í þeirra garð er sagt vera yfirgengilegt.
Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna telur að innan landamæra Sýrlands séu 6,8 milljónir manna sem þarfnist neyðaraðstoðar til viðbótar flóttafólkinu sem hefst við í grannríkjunum. Fulltrúar hjálparstofnana lýsa þungum áhyggjum af fórnarlömbum stríðsins, ekki síst þeim sem enn eru á barnsaldri. Ungar stúlkur eru þar í mestri hættu og er augljóst að mikið er um málamyndagiftingar sem eru angi af kynlífsþrælkun, sem og aukið mansal og ofbeldi.
Aðstoð Evrópuþjóða hefur verið af skornum skammti þegar horft er til þess hve risavaxinn vandinn er en þó er mjög mismunandi hvernig ríkin hafa brugðist við. Árið 2012 sóttu 24.110 sýrlenskir flóttamenn um hæli í löndum Evrópusambandsins og veittu Svíar 7.920 þeirra hæli, Þjóðverjar skutu skjólshúsi yfir álíka marga en önnur Evrópulönd langtum færri og allmörg veittu engum Sýrlendingi hæli. Á þriðja ársfjórðungi 2013 höfðu 14.135 Sýrlendingar sótt um hæli í 28 löndum Evrópusambandsins og voru borgarar þessa stríðshrjáða lands stærsti einstaki hópur flóttafólks í Evrópusambandinu. Sem áður fengu flestir þeirra athvarf í Svíþjóð og Þýskalandi.
Mannréttindastofnanir hvetja ríki Evrópu sérstaklega til að opna frekar landamæri sín fyrir sýrlensku flóttafólki í stað þess að skella í lás. Evrópuráðið og fleiri stofnanir og samtök sem sinna mannréttindamálum hafa hvatt ríki heims til þess að taka virkan þátt í áætlunum og áformum um að taka á móti flóttafólki. Talsmaður mannréttinda hjá Evrópuráðinu (Commissioner of Human Rights) hefur tekið mjög undir þetta sjónarmið og sagt að Evrópuríkin geti ekki keypt sig frá vandanum með peningagjöfum einum saman. Nauðsynlegt er að við framkvæmd þessarar þingsályktunartillögu verði alvarlega hugað að þessu sjónarmiði.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Þótt fleira þurfi til en peninga deilir enginn um mikilvægi fjárstuðnings og er þakkarvert að mörg ríki hafa látið fé af hendi rakna. Á það ber að líta að um er að ræða milljónir manna sem þurfa á daglegu viðurværi, lyfjum og heilbrigðisþjónustu að halda auk alls sem snýr að skólakennslu og aðhlynningu í aðbúnaði barna. Talsmaður mannréttinda hjá Evrópuráðinu hefur réttilega bent á að þetta sé ekki einungis alvarlegasti vandi sem upp hefur komið í sambandi við fólksflótta á síðustu áratugum heldur einnig ein alvarlegasta ógn gagnvart réttindum barna sem Evrópa stendur frammi fyrir. Ekki má gleyma því að allt líf þessa fólks er úr skorðum gengið og það sem verra er að staða flóttamannsins gæti orðið hlutskipti uppvaxandi kynslóðar um ófyrirsjáanlegan tíma takist ekki að stöðva stríðið. Allt yrði þetta síðan eldsmatur frekari átaka í framtíðinni. Það er því mikið í húfi að heimsbyggðin sameinist um að þrýsta á stríðsaðila að leggja niður vopn, að láta fé af hendi rakna til stuðnings flóttafólkinu og að opna eigin faðm fyrir flóttamenn með því að veita þeim landvist.
Á undanförnum tveimur árum hefur íslenska ríkið varið um 100 millj. kr. til neyðaraðstoðar vegna stríðshörmunganna í Sýrlandi. Hefur þetta fé ýmist verið nýtt til neyðaraðstoðar á vegum hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna eða íslenskra hjálparstofnana sem einnig hafa aflað fjár til styrktar Sýrlendingum meðal almennings.
Það er ástæða til að fagna þessum stuðningi svo og stuðningi Reykjavíkurborgar. Þar var haustið 2013 samþykkt að veita sem svarar 100 kr. á hvert barn eða alls 2.881.500 kr. í neyðaraðstoð til Sýrlands.
Þótt fyrirliggjandi stuðningur sé góðra gjalda verður þá er ástandið svo alvarlegt og eymd heillar milljónar barna svo mikil að ástæða er til að íslensk stjórnvöld leggi fram skýra áætlun um hvernig þau geti með skipulegum hætti hlúð frekar að betri aðbúnaði þeirra sem mest þurfa á að halda. Íslendingar geta tekið á móti flóttamönnum, látið meira fé af hendi rakna og geta og eiga að rétta hjálparhönd með beinni aðstoð hjúkrunarfólks í samráði við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðra aðila eftir atvikum.