Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 499. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1178  —  499. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fiskveg í Efra-Sog.


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem felst í því að tryggt verði að gerður verði fiskvegur úr Þingvallavatni í Efra-Sog og ráðist í endurbætur á fornum hrygningarstöðvum ísaldarurriðans í efri hluta árinnar, og fyrir mynni hennar, til að stuðla að farsælli endurheimt stofnsins.
    Nokkuð hefur verið rætt um vernd Þingvallavatns á Alþingi en ákveðin þáttaskil urðu þegar Þingvallanefnd samþykkti stefnumörkun 2004–2024. Eitt markmiða hennar er að opna urriðanum að nýju farveg úr Þingvallavatni niður í Efra-Sog í samvinnu við Landsvirkjun. Í stefnumörkun Þingvallanefndar segir að stefnt verði „að samkomulagi við Landsvirkjun um stýringu miðlunar og vatnshæðar út frá þörfum lífríkis í vatninu og um endurheimt búsvæða fiskstofna sem glatast hafa.“
    Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að Landsvirkjun væri að kanna möguleikann á að opna leið fyrir fisk úr farvegi Efra-Sogs í Þingvallavatn og hefði lokið frumhönnun mögulegs fiskvegar. Á næstu mánuðum verður framkvæmdin kynnt og aflað nauðsynlegra leyfa og samþykkis, svo sem hjá sveitarfélögum, stjórn þjóðgarðsins, landeigendum, Skipulagsstofnun og Fiskistofu. Þau markmið sem sett voru við hönnun eru að fiskvegurinn skuli falla vel að umhverfinu og að hann verði fær urriða sem gengur upp Efra-Sog að stíflunni til að hrygna við útfall Þingvallavatns. Þá skuli fiskvegurinn flytja nægjanlega mikið vatn til að skilyrði um lágmarksrennsli um Efra-Sog verði uppfyllt en eftir byggingu fiskvegar yrði hætt að hleypa vatni fram hjá um flóðgátt stíflunnar. Einnig skuli fiskvegurinn að hluta nýtast sem hrygningarsvæði fyrir urriða.
    Nefndin vonast til þess að almenn sátt náist um verkefnið og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Haraldur Benediktsson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 16. maí 2014.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.
Þórunn Egilsdóttir.