Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1190  —  576. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um hlut karla í jafnréttismálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra mikilvægt að bregðast við tillögum starfshóps um karla og jafnrétti, sbr. skýrslu hópsins sem kom út í apríl 2013, og ef svo er, með hvaða hætti hefur ráðherra brugðist við tillögunum?

    Tillögur starfshóps um karla og jafnrétti má rekja til verkefnis nr. 37 (Karlar um borð) í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011–2014 um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðu um kynjajafnrétti og auka aðild karla að jafnréttisstarfi. Hópnum var ætlað að greina stöðu karla í samfélaginu og möguleika þeirra til virkrar þátttöku á nýjum og breyttum forsendum. Markmiðið var m.a. að fá fram tillögur um hvernig auka megi náms- og starfsval karla sem og annað hlutverkaval þeirra, vinna gegn staðalímyndum kynjanna og auka þátttöku karla í verkefnum fjölskyldunnar. Hugað yrði að neikvæðum þáttum eins og áhættuhegðun, ofbeldi og sjálfsvígum. Starfshópurinn hafði sér til fulltingis stærri ráðgjafahóp karla sem endurspeglaði breiðan bakgrunn með tilliti til aldurs og reynslu. Þessi starfshópur velferðarráðherra (nú félags- og húsnæðismálaráðherra) skilaði skýrslu í apríl 2013 með fimmtán tillögum um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál.
    Starfshópurinn kaus að afmarka umfjöllunarefni sitt og tillögur við fimm áherslusvið. Áherslusviðin eru karlar og ofbeldi – kynbundið ofbeldi, karlar og umönnunarstefna – fæðingarorlof og forsjá barna, karlar, heilsa og lífsgæði, karlar, klám og vændiskaup og karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður.
    Ráðherra telur mikilvægt að bregðast við tillögum starfshóps um karla og jafnrétti sem settar voru fram í framangreindri skýrslu. Ráðherra leggur sérstaka áherslu á að tekið verði tillit til framangreindra tillagna við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára sem gert er ráð fyrir að verði lögð fram á 144. löggjafarþingi 2014–2015.
    Ríkisstjórnin hefur áform um að efla samstarf milli ráðuneyta og stofnana um aðgerðir gegn ofbeldi almennt og er m.a. gert ráð fyrir að sú vinna feli í sér nýja aðgerðaáætlun gegn ofbeldi. Í þeirri vinnu, sem hefst von bráðar, verður m.a. tekið tillit til umræddrar skýrslu.
    Jafnframt hefur verið tekið mið af tillögunum við mótun stefnu í málefnum barna og barnafjölskyldna ásamt aðgerðaáætlun til ársins 2020 sem gert er ráð fyrir að verði lögð fram á sama þingi.
    Í vinnu aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynja, sem stýrt er frá velferðarráðuneytinu, hefur verið sérstök áhersla á að draga úr kynjaskiptingu starfa á íslenskum vinnumarkaði. Hefur hópurinn þegar staðið fyrir tveimur opnum fundum um kynjaskiptingu á íslenskum vinnumarkaði. Unnið er að gerð rannsóknarskýrslu sem mun kortleggja stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði og leggja mat á hvaða áhrif þættir eins og kynbundið námsval, kynjaskipting starfa, verkaskipting á heimilum o.fl. hafa á jafnrétti kynja almennt. Gert er ráð fyrir að fyrstu niðurstöður skýrslunnar verði kynntar á ráðstefnu um jafnlaunamál 13. nóvember 2014. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Hagstofu Íslands og Eddu öndvegissetur við Háskóla Íslands og verður sérstakur verkefnisstjóri ráðinn til að hafa umsjón með framkvæmd verkefnisins. Enn fremur mun aðgerðahópurinn standa fyrir eigindlegu rannsóknarverkefni sem mun stuðla að heildstæðri og markvissri stefnumótun gegn kynbundnu náms- og starfsvali en gert er ráð fyrir að afurð verkefnisins verði rafræn handbók/vefsíða að norrænni fyrirmynd auk sérstakrar skýrslu. Sérstakur verkefnisstjóri verður einnig ráðinn til þessa verkefnis sem mun vinna að framkvæmd þess ásamt fulltrúum velferðarráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Árið 2014 fer Ísland með formennsku í norrænu samstarfi. Norrænt samstarf í jafnréttismálum fagnar 40 ára afmæli á formennskuárinu og haldin verður sérstök hátíðarráðstefna á Íslandi um árangur og framtíðarmarkmið Norðurlandanna í jafnréttismálum. Á formennskuárinu er lögð áhersla á eftirfarandi málefnasvið í samræmi við núgildandi jafnréttisstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar: Jafnrétti á vinnumarkaði, þátttöku karla í jafnréttisstarfi og karlmennskurannsóknir, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, samvinnu milli aðildarríkja Vestnorræna ráðsins og þeirra landa sem liggja að norðurslóðum. Í samræmi við framangreind málefnasvið mun annar aðalfyrirlesturinn á hátíðarráðstefnunni fjalla um mikilvægi þátttöku karla í framtíðarstefnumótun á sviði jafnréttismála. Á árinu verður unnið að nýrri áætlun um samstarf í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2015–2019 og verður þar lögð sérstök áhersla á karla og jafnrétti.
    Í samstarfi við Háskóla Íslands verður dagana 4.–6. júní nk. haldin alþjóðleg ráðstefna um karla, jafnrétti og karlmennskuímyndir. Markmið ráðstefnunnar er að kynna þekkingu og rannsóknir sem nú þegar liggja fyrir um stöðu karla á Norðurlöndunum í alþjóðlegum samanburði. Fjallað verður um gagnrýni á ríkjandi karlmennskuhugmyndir annars vegar og birtingarmyndir karlmennsku sem stuðla að kynjajafnrétti hins vegar. Meðal þátttakenda verða margir þekktustu fræðimenn á sviði karlarannsókna í heiminum. Yfir 150 fræðimenn taka þátt í ráðstefnunni og boðið verður upp á 36 málstofur sem allar fjalla um karla og jafnrétti í einhverri mynd.