Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1197  —  412. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur
um sóknaráætlun landshluta.


     1.      Hefur þeim fjármunum sem eru ætlaðir til sóknaráætlunar landshluta verið úthlutað?
    Fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta árið 2013 voru 400 millj. kr. samkvæmt fjárlagalið 09-992. Samningar voru gerðir við átta landshlutasamtök sveitarfélaga 22. mars 2013 og gilda þeir til 1. maí 2014. Í samningunum átta er sama orðalag notað um greiðslufyrirkomulag og hvernig greiðslum til landshlutasamtakanna skuli háttað á tímabilinu. Hinn 19. mars 2014 höfðu 320 millj. kr. af þessum 400 millj. kr. verið greiddar eða 80% af heildarfjárhæðinni í tveimur áföngum. Greiðsla vegna 2. áfanga fór fram að loknu mati stýrinets sóknaráætlana á stöðu og framgangi verkefnanna. Lokagreiðsla framlags, 20% eða 80 millj. kr., greiðist í kjölfar staðfestingar stýrinets sóknaráætlana til fjármála- og efnahagsráðuneytis þess efnis að landshlutasamtök hafi staðið við skilyrði samningsins og skilað endurskoðuðu fjárhagsuppgjöri. Það skal gert eigi síðar en 1. september 2014. Forsenda lokagreiðslu (20%) er að landshlutasamtökin hafi að mati stýrinetsins uppfyllt skilmála fjárveitingarinnar og ákvæði samningsins.

     2.      Eftir hvaða reiknireglum fer úthlutunin?
    Stýrinetið, sem samanstendur af fulltrúum allra ráðuneyta og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, náði samstöðu um að fimm viðmið skyldu gilda um skiptingu heildarfjárhæðarinnar, þ.e. íbúafjöldi, íbúaþróun, atvinnuleysi, íbúaþéttleiki og hagvöxtur. Viðmiðin og vægi þeirra voru kynnt fulltrúum landshlutasamtakanna og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg útfærsla var samþykkt. Viðmiðin endurspegluðu að mati stýrinetsins þær breytur sem helst skipta máli við mat á stöðu landshluta. Tillaga um úthlutunarfyrirkomulagið var samþykkt í ríkisstjórn 27. nóvember 2012 en á þeim fundi lagði þáverandi innanríkisráðherra fram minnisblað um skiptingu fjármuna til sóknaráætlana landshluta.

     3.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér áframhald sóknaráætlunar landshluta og aðkomu sveitarfélaga og landshluta að fjárlagagerð og forgangsröðun verkefnisins?
    Undanfarna mánuði hafa átt sér stað samræður innan Stjórnarráðsins um framtíðarfyrirkomulag sóknaráætlana landshluta. Er það mál í vinnslu en ákveðið skref var tekið í þá átt að tryggja áframhald sóknaráætlana landshluta, á ríkisstjórnarfundi 14. mars sl. Á ríkisstjórnarfundinum var samþykkt að gera breytingu á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Við 3. gr., 3. tölul., bættist nýr liður sem orðast svo: Vaxtarsamningar sveitarfélaga. Er hér átt við sóknaráætlanir landshluta. Samhliða þessari breytingu hefur fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekið við formennsku í stýrinetinu (nú stýrihópur) af fulltrúa innanríkisráðherra. Sóknaráætlunarverkefnið er í ákveðnum farvegi en verið er að skoða hvernig tengja megi fleiri vaxtarhvetjandi verkefni sem fjármögnuð eru af ríkinu sóknaráætlunum landshluta. Þeirri vinnu er ekki lokið.