Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1224  —  577. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær hyggst ráðherra leggja fram þingmál um fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbul-samningi) sem undirritaður var af Íslands hálfu árið 2011?

    Undirbúningur fullgildingarinnar er unninn í góðri samvinnu innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins. Innanríkisráðuneytið hefur kannað ítarlega efni og ákvæði samningsins og fól m.a. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á efni samningsins og aðlögun íslenskra laga og reglna svo að fullgilda mætti samninginn.
    Ráðuneytið gerði skýrslu stofnunarinnar aðgengilega á netinu til kynningar og óskað var eftir ábendingum og athugasemdum um hana. Samhliða var refsiréttarnefnd send skýrslan til úrvinnslu hvað varðar nauðsynlegar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga vegna fullgildingarinnar og stendur sú vinna nefndarinnar nú yfir. Þá mun ráðuneytið standa fyrir ráðstefnu í september á þessu ári um samninginn. Verður þar einkum fjallað um störf lögreglunnar og verklag hennar við framkvæmd löggæslustarfa með hliðsjón af niðurstöðum úttektar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
    Í því sambandi er vakin sérstök athygli á umbótaverkefni lögreglustjórans á Suðurnesjum um meðferð, forvarnir og úrræði vegna heimilisofbeldismála. Þá er á vegum velferðarráðuneytis unnið að undirbúningi með ýmsum hætti. Meðal annars hefur verið skipaður sérstakur hópur um heimilisofbeldi en í honum eru fulltrúar frá lögreglu, innanríkisráðuneyti, frá Kvennaathvarfi, frá Suðurnesjum og frá Félagsþjónustu. Þessi hópur er með sérstaka vinnuáætlun og hefur þegar haldið nokkra fundi og eina lokaða fagráðstefnu til að fara yfir lausnir sem gætu nýst sem fyrirmyndir um allt land.
    Áfram verður á vegum beggja ráðuneyta unnið að undirbúningi að fullgildingu samningsins. Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning þar sem fullgildingin krefst breytinga bæði á lagaumhverfi og framkvæmd stofnana. Ráðherra mun leggja áherslu á að hraða þessari vinnu.