Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1307  —  393. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um ríkisborgararétt erlendra maka.


     1.      Hvaða skilyrði þarf erlendur maki Íslendings að uppfylla til að fá íslenskan ríkisborgararétt ef parið býr að staðaldri erlendis, t.d. við nám eða störf?
    Erlendur maki Íslendings þarf að uppfylla sambærileg skilyrði og aðrir útlendingar sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt, að því undanskildu að skilyrði um búsetutíma hér á landi er þrjú ár frá stofnun hjúskapar í stað almenns búsetuskilyrðis sem er sjö ár. Hinn erlendi maki getur einnig að liðnum tilteknum búsetutíma verið undanþeginn skilyrði laganna um búsetuleyfi.
    Samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr.100/1952, þarf útlendingur, sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og samvistum við hann, að hafa verið búsettur hér á landi í þrjú ár frá giftingu, hafi makinn haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
    Þó er að finna undanþágu í fyrrnefndum lögum, 2. mgr. 8. gr. Þar kemur fram að búsetuskilyrðin miðast við lögheimili og samfellda löglega dvöl hér á landi síðustu ár áður en umsókn er lögð fram. Þó er heimilt að víkja frá skilyrðinu um samfellda dvöl ef dvölin hefur verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja og ef umsækjandi hefur dvalið erlendis vegna náms í allt að þrjú ár. Samanlögð dvöl hér á landi, fyrir og eftir heimilaða dvöl erlendis, verður þó alltaf að vera a.m.k. þrjú ár.
    Auk búsetutíma verður umsækjandi jafnframt að uppfylla skilyrði þess að fá búsetuleyfi útgefið af Útlendingastofnun og hafa slíkt leyfi þegar sótt er um íslenskan ríkisborgararétt, nema umsækjandi sé undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga. Samkvæmt útlendingalögum er útlendingi, sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár frá stofnun hjúskapar, heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis.
    Í     9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt er að finna önnur almenn skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla, auk búsetutíma og dvalarleyfis, svo sem skilyrði um sönnun á því hver umsækjandi er, framfærsluskilyrði, skilyrði um sakaferil og um íslenskupróf.
    Ef umsækjandi uppfyllir ekki framangreind búsetuskilyrði eða önnur skilyrði laganna getur hann óskað eftir að umsókn hans verði send Alþingi til athugunar. Umsókn sem hefur verið synjað hjá Útlendingastofnun er einnig heimilt að kæra til innanríkisráðuneytis.

     2.      Hvaða skilyrði þarf að uppfylla í sambærilegum tilvikum þegar erlendur maki ríkisborgara með sænskt, danskt, þýskt, breskt, franskt, hollenskt, belgískt, ítalskt eða spánskt ríkisfang sækir um ríkisborgararétt?

    Leitað var eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu og er sú upplýsingaöflun enn í vinnslu. Þó liggur fyrir að skilyrðin eru að einhverju leyti sambærileg á milli ríkja en þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um það verða þær veittar.