Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 172  —  166. mál.
Flutningsmaður.
Tillaga til þingsályktunar


um að draga úr plastpokanotkun.Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir,
Guðbjartur Hannesson, Össur Skarphéðinsson, Bjarkey Gunnarsdóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Líneik Anna Sævarsdóttir, Elín Hirst.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi. Við val á leiðum til þess verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun. Aðgerðaáætlun verði birt fyrir 1. mars 2015.

Greinargerð.

    Undanfarna áratugi hefur mikil vakning orðið í samfélaginu um umhverfisvernd og endurnýtingu. Samfara auknu upplýsingaflæði og tæknivæðingu hefur endurvinnsla á notuðum umbúðum aukist til muna. Á 143. löggjafarþingi var Margrét Gauja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að kanna hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun hér á landi. Í framhaldi af umræðum um þá tillögu telja flutningsmenn að grípa þurfi til aðgerða hvað þetta varðar.
    Það er alkunna að plastpokar og aðrar plastumbúðir utan um matvæli og efnavörur hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Plast eykur eftirspurn eftir olíu og það brotnar treglega niður í náttúrunni. Áætlað er að hver íbúi Evrópusambandsins noti að meðaltali um 500 plastpoka á ári, flesta þeirra einungis einu sinni. Á árinu 2008 voru framleiddar 3,4 milljónir tonna af plastpokum í Evrópusambandinu. Fram kemur í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2013–2024 að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn, til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu.
    Léttir plastpokar eru að jafnaði ekki notaðir oftar en einu sinni en geta verið hundruð ára að eyðast í náttúrunni, oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðlegar náttúru, til að mynda fyrir lífríki hafsins. Þannig hafa hafstraumar smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir vegna plasts sem flækist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið.
    Einfaldar aðgerðir geta haft töluverð áhrif á lífríkið í langan tíma. Hver plastpoki sem fýkur út í veður og vind getur orðið upphafið að langri og afdrifaríkri atburðarás sem ekki hefði farið af stað ef meiri áhersla hefði verið lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir í upphafi.
    Til að stemma stigu við þessari þróun hafa nokkur ríki í Evrópu gripið til úrræða eins og banns eða skattlagningar á notkun plastpoka til að draga úr magni þeirra í umferð og þar með neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið. Í þessu tilliti má sérstaklega benda á Írland, Þýskaland, Holland, Belgíu, Sviss og Ítalíu. Ef önnur ríki færu að ráðum þeirra væri hægt að draga umtalsvert úr plastpokanotkun á EES-svæðinu.
    Vakin er athygli á því að nú þegar hefur verið ákveðið að hefja vinnu við breytingar á Evrópulöggjöf til að taka á þeim vanda sem skapast hefur vegna mikillar plastpokanotkunar, og því ber að fagna. Breytingarnar, sem falla undir EES-samninginn og koma því til framkvæmda hér á landi, miða að því að Evrópuþjóðir grípi til aðgerða til að draga úr plastpokanotkun í hverju landi fyrir sig. Hvert ríki fyrir sig getur svo valið mismunandi leiðir að þessu markmiði, svo sem að leggja á gjöld vegna notkunarinnar, að setja sérstök landsmarkmið um samdrátt í plastpokanotkun eða leggja blátt bann við slíkri notkun.
    Fram kemur á vefsíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að gert er ráð fyrir að breytingarnar muni lúta að tilskipun Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang sem Ísland hefur innleitt vegna EES-samningsins. Þannig muni ríkjum til að byrja með verða skylt að grípa til aðgerða í því skyni að draga úr notkun á plastpokum sem eru þynnri en 50 míkron. Slíkir pokar eru sjaldnar endurnýttir en aðrir plastpokar og enda því iðulega fljótt sem úrgangur. Fram kom í kjölfar umfangsmikils samráðs við almenning að ríkur vilji er til að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við plastpokavandanum. *
    Flutningsmenn telja rétt að grípa strax til aðgerða hér á landi til að draga úr notkun plastpoka.
Neðanmálsgrein: 1
*     www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2534